Breytingar á verðskrá vegna gjaldeyrisviðskipta
Breytingar hafa verið gerðar á verðskrá Landsbankans vegna gjaldeyrisviðskipta sem flestar taka gildi 19. júní, en aðrar taka gildi 20. ágúst nk. Viðskiptavinir Landsbankans munu fljótlega eiga kost á að framkvæma sjálfir erlendar greiðslur í netbanka einstaklinga sem verður ódýrara en millifærsla í útibúum og breytingarnar eru flestar gerðar þess vegna.
Auk þess sem verðskrá vegna gjaldeyrisviðskipta breytist falla tiltekin gjöld niður og nýir valmöguleikar og verðskrárliðir bætast við. Meðal nýjunga eru svokallaðar evrugreiðslur eða SEPA-greiðslur sem viðskiptavinir munu sjálfir geta framkvæmt í netbanka einstaklinga. SEPA stendur fyrir „single euro payments area“ en um er að ræða samevrópskan staðal sem er ætlað að gera millifærslur á evrum á milli landa innan Evrópu einfaldari og þar af leiðandi ódýrari. Ódýrara verður að millifæra í netbankanum en í útibúum, hvort sem um er að ræða evrugreiðslur (SEPA) eða aðrar erlendar millifærslur (SWIFT).
Textabreytingar sem eru gerðar á verðskránni til að gera hana skýrari taka strax gildi. Meðal annarra breytinga á verðskránni, sem birtar eru með tveggja mánaða fyrirvara og taka gildi 20. ágúst, eru að framvegis verður tekið fast gjald fyrir fyrirspurnir, gjald fyrir stöðvun eða afturköllun á greiðslu mun hækka og gjaldtaka vegna SWIFT-greiðslna breytist.