Dagatal Landsbankans 2018 valin myndskreytingaröð ársins
Dagatal Landsbankans fyrir árið 2018 hlaut verðlaun sem myndskreytingaröð ársins í FÍT-keppninni sem haldin er af Félagi íslenskra teiknara.
FÍT-keppnin er haldin árlega en í keppninni eru veitt verðlaun fyrir verk sem þykja hafa skarað fram úr í grafískri hönnun og myndskreytingum á Íslandi. Áhugasamir geta kynnt sér verkin sem unnu til verðlauna og viðurkenninga í porti Listasafns Reykjavíkur en sýningin er haldin í tengslum við HönnunarMars.
Dagatal Landsbankans í ár er tileinkað jarðsögu Íslands og einstökum eldsumbrotum og eldstöðvum. Í því er blandað saman fróðleik um jarðfræðileg hugtök og sögulega atburði.
Sigurður Oddsson, grafískur hönnuður hjá auglýsingastofunni Jónsson & Lemacks, hlaut verðlaunin en hann hafði yfirumsjón með verkefninu og hannaði dagatalið. Auk hans komu teiknarar frá Metaklinika Studio að verkinu og jarðfræðingurinn Alma Gytha Huntingdon-Williams veitti teyminu ráðgjöf.
Enn eru eintök af dagatalinu eftir. Hægt er að panta það hér og fá það heimsent.