Elísabet G. Björnsdóttir til liðs við Fjárstýringu Landsbankans
Elísabet G. Björnsdóttir, fjármálaverkfræðingur, hefur hafið störf hjá Fjárstýringu Landsbankans. Elísabet hefur mikla reynslu af fjármálastarfsemi en hún hefur frá árinu 2008 unnið hjá J.P. Morgan í New York og London.
Elísabet G. Björnsdóttir
Elísabet lauk B.Sc.-prófi í byggingarverkfræði frá Háskóla Íslands árið 2006. Hún hlaut Fulbright-styrk og Thor Thors-styrk til framhaldsnáms og lauk meistaraprófi í fjármálaverkfræði frá Cornell-háskóla í Bandaríkjunum árið 2008.
Elísabet vann hjá verkfræðistofunni Línuhönnun veturinn 2006-2007 og hjá Kaupþingi sumarið 2007. Hún hóf störf hjá J.P. Morgan í New York árið 2008 í deild sem sér um að lágmarka mótaðilaáhættu bankans. Rúmu ári síðar flutti hún sig yfir til J.P. Morgan í London þar sem hún hefur að undanförnu stýrt veltubók með skuldatryggingar og sambankalán.