Landsbankinn fær endurvottun samkvæmt alþjóðlegum staðli fyrir upplýsingaöryggi
Vottun bankans samkvæmt ISO 27001 nær aftur til ársins 2007 og hefur bankinn því verið vottaður skv. staðlinum í áratug. Landsbankinn var eitt af fyrstu fyrirtækjum á Íslandi sem hlaut ISO 27001 vottun og fram til ársins 2016 var Landsbankinn eini íslenski bankinn með þessa vottun.
Algengast er að fyrirtæki fái ISO 27001 vottun á takmarkaðan hluta starfsemi sinnar en í tilfelli Landsbankans er öll starfsemi bankans vottuð samkvæmt staðlinum. Vottunin tekur m.a. til meðferðar trúnaðarupplýsinga, reksturs upplýsingakerfa, öryggisvitundar starfsmanna, umgengni um skjalageymslur og aðgengis að starfsstöðvum bankans.
„Landsbankinn leggur mikla áherslu á heilindi og traust í samskiptum við viðskiptavini sína og faglega umgengni starfsmanna um upplýsingar um viðskiptavini og innri málefni bankans. ISO 27001 vottunin er liður í að tryggja að viðskiptavinir geti treyst því að Landsbankinn byggi á ströngustu alþjóðlegu viðmiðum á sviði upplýsingaöryggis og meðferð trúnaðarupplýsinga,“ segir Ragnhildur Geirsdóttir, framkvæmdastjóri Reksturs og upplýsingatækni Landsbankans.
Alþjóðlega vottunarfyrirtækið British Standard Institution (BSI) tók út starfsemi Landsbankans en úttektir eru gerðar einu sinni til tvisvar á ári.