Aðgangur að persónuupplýsingum

Beiðni um aðgang að persónuupplýsingum

Persónuverndarlögin veita þér rétt til staðfestingar á því hvort Landsbankinn vinni persónuupplýsingar um þig og ef svo er, rétt til fá aðgang að þeim persónuupplýsingunum. Þá ber bankanum að láta þig fá afrit af þeim persónuupplýsingum sem eru í vinnslu.

Hvaða upplýsingar eru afhentar?

Starfsemi Landsbankans er umfangsmikil og bankinn býr yfir miklu magni af upplýsingum í ólíkum kerfum og grunnum. Þegar þú óskar eftir aðgangi að persónuupplýsingum þínum berst skýrsla með afriti af persónuupplýsingum þínum.

Skýrslan inniheldur ekki afrit af upplýsingum sem þú hefur aðgang að nú þegar t.d. í netbanka Landsbankans eða Landsbankaappinu. Ef þú óskar eftir útprentuðu eintaki af persónuupplýsingum sem birtar eru í netbanka eða appi getur þú sent tölvupóst á personuvernd@landsbankinn.is.

Vakin er athygli á því að afhending persónuupplýsinga má ekki skerða réttindi og frelsi þriðju aðila og eru slíkar upplýsingar því fjarlægðar úr afhentum gögnum.

Þá afhendir bankinn einungis upplýsingar sem verða til í starfsemi bankans og þeirra lífeyrissjóða sem sérstaklega hafa falið bankanum að afhenda persónuupplýsingar fyrir sína hönd.

Afrit af persónuupplýsingum sem verða til í starfsemi sjálfstæðra samstarfsaðila, t.d. Innheimtuaðila eins og Motus og Lögheimtunnar ehf., er hægt að nálgast hjá fyrrnefndum aðilum.

Bankanum ber að upplýsa þig um eftirfarandi atriði:

Upplýsingar samkvæmt liðum 1. - 6. má nálgast í persónuverndarstefnu Landsbankans.

1
Í hvaða tilgangi persónuupplýsingar þínar eru unnar í starfsemi bankans.
2
Hvaða flokkar persónuupplýsinga eru unnar um þig í starfsemi bankans og um uppruna þeirra ef upplýsinganna var aflað frá þriðja aðila.
3
Viðtakendur eða flokka viðtakenda sem hafa fengið eða munu fá persónuupplýsingarnar þínar í hendur.
4
Hversu lengi er fyrirhugað að varðveita persónuupplýsingar þínar.
5
Hvort fram fari sjálfvirk ákvarðanataka, þ.m.t. gerð persónusniðs um þig.
6
Réttindi sem nýju lögin færa þér og rétt til að leggja fram kvörtun hjá persónuverndaryfirvöldum.

Beiðni um aðgang

Til að óska eftir aðgang að persónuupplýsingum þarftu að skrá þig inn með rafrænum skilríkjum í síma.

Afgreiðsla beiðna

Bankinn mun upplýsa þig um aðgerðir sem gripið er til vegna beiðni þinnar um aðgang að persónuupplýsingu, innan mánaðar frá viðtöku hennar. Svo unnt sé að afgreiða aðgangsbeiðnina er bankanum nauðsynlegt að afla persónuupplýsinga um þig til að tryggja auðkenningu og vinna úr beiðninni.

Skýrslur með persónuupplýsingum umsækjenda eru aðgengilegar undir rafrænum skjölum í netbanka Landsbankans í 90 daga. Að þeim tíma loknum er skýrslum eytt í samræmi við meðalhófskröfu personuverndarlaga.

Verði Landsbankinn ekki við beiðni þinni getur þú lagt fram kvörtun hjá persónuverndarfulltrúa bankans eða hjá Persónuvernd.

Ef þú telur bankann búa yfir frekari persónuupplýsingum um þig en afhentar eru getur þú óskað eftir frekari aðgangi með því að senda póst á persónuverndarfulltrúa bankans á netfangið personuvernd@landsbankinn.is. Í þeim tilvikum þarf að tilgreina sérstaklega hvaða upplýsingar um ræðir.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur