Fundurinn samþykkti tillögu bankaráðs um að greiddur verði arður til hluthafa vegna reikningsársins 2015 sem nemur 1,2 krónum á hlut eða um 28,5 milljarðar króna. Arðurinn skal greiddur í tveimur jöfnum greiðslum og skal gjalddagi fyrri greiðslu vera 20. apríl 2016 og gjalddagi síðari greiðslu vera 21. september 2016. Arðgreiðslan samsvarar um 80% af hagnaði bankans árið 2015.
Aðalfundurinn samþykkti heimild þess efnis að Landsbankinn hf. eignist eigin hluti, allt að 10% af nafnverði hlutafjár. Lægsta og hæsta fjárhæð sem bankinn má reiða fram sem endurgjald fyrir hvern hlut skal vera bókfært virði hvers hlutar, þ.e. samsvara hlutfalli á milli eigin fjár sem tilheyrir hluthöfum bankans og hlutafjár, samkvæmt síðasta birta ársuppgjöri eða árshlutauppgjöri áður en kaup á eigin hlutum fara fram. Ráðstöfun Landsbankans á eigin hlutum sem keyptir verða á grundvelli þessarar heimildar er háð samþykki hluthafafundar. Samsvarandi heimild var samþykkt á aðalfundi 2015.
Starfskjarastefna og þóknun til bankaráðsmanna breytast ekki frá fyrra ári.
Þá fól fundurinn bankaráði að setja í starfsreglur sínar ákvæði um samkeppnislegt sjálfstæði Landsbankans hf. gagnvart öðrum viðskiptabönkum í eigu ríkisins.
Birgir Björn Sigurjónsson dró í dag til baka framboð sitt til bankaráðs Landsbankans hf. og því var kosningu til bankaráðs frestað. Kosið verður í bankaráð á framhaldsaðalfundi bankans sem verður haldinn í Austurstræti 11 í Reykjavík, föstudaginn 22. apríl næstkomandi kl. 13.00.
Allar nánari upplýsingar um niðurstöður aðalfundar bankans má nálgast á www.landsbankinn.is/adalfundur. Þar má finna skýrslu bankaráðs, kynningu bankastjóra og önnur gögn sem fram voru lögð á fundinum. Þá verður fundargerð einnig gerð aðgengileg á vef bankans.