Fara mark­að­ir bara upp?

Landsbankinn hélt fræðslufund um mikilvægi eignadreifingar þann 15. september 2021 í Silfurbergi Hörpu.
15. september 2021 - Landsbankinn

Á fundinum var fjallað um uppbyggingu á stöndugu eignasafni og hvernig nota má eignadreifingu til að lágmarka sveiflur í ávöxtun.

Sveinn Þórarinsson sem stýrði fundinum benti á að þótt verðbréf hefðu hækkað mikið síðastliðna 12-18 mánuði væri ljóst að verðbréfmarkaðir gætu sveiflast mikið og margir gætu brennt sig á því. Í rauninni væri kannski aldrei mikilvægara en nú að huga að eignadreifingu og minnka þannig áhættu af sveiflum á eignaverði.

Skífurit, línurit og súlurit

Dreift eignasafn dregur úr áhættu

Kristín Erla Jóhannsdóttir, forstöðumaður Eignastýringar hjá Landsbankanum, fjallaði um hvernig draga má úr áhættu með því að fjárfesta í vel dreifðu eignasafni. Hún ræddi um helstu hugtök sem fjárfestar þurfa að kunna skil á, s.s. um ávöxtun, áhættu, áhættuþol og áhættufælni. Hún benti á að eignadreifing er góður kostur sem gerir fjárfestum kleift að draga verulega úr áhættu. Draga má úr áhættu með því að fjárfesta í mörgum innlendum og erlendum verðbréfum. Hafa þarf í huga að hvers kyns sveiflur á mörkuðum og í efnahagslífi heimsins hefa mismunandi áhrif á fyrirtæki og einstök lönd. Þannig myndi mikil lækkun á olíuverði hafa jákvæð áhrif á lönd sem flytja inn olíu en neikvæð áhrif á lönd sem reiða sig á olíuframleiðslu. Með því að dreifa eignum á milli mismunandi markaða og landa er hægt að draga úr sveiflum og stuðla að góðri langtímaávöxtun. Kristín Erla benti einnig á að eignadreifingarsjóðir eru með mismunandi fjárfestingarstefnur og að áhættan er mismikil á milli sjóða. „Til lengri tíma skila hlutabréf betri ávöxtun en aðrir eignaflokkar og þá er mikilvægt að hafa tímann með sér. Þeim mun yngri sem maður er þá getur maður alla jafna tekið meiri áhættu,“ sagði hún. Reynslan hefur sýnt að til að fá ávöxtun til lengri tíma borgar sig alla jafna að fjárfesta í vel dreifðu eignasafni.

Margt getur haft áhrif á ávöxtun

Guðný Erla Guðnadóttir, sjóðstjóri hjá Landsbréfum, kynnti eignadreifingarsjóði Landsbréfa og fór yfir kosti þess að fjárfesta í þeim. Hún benti á að fæst okkar hafa tíma til að fylgjast náið með eignamörkuðum frá degi til dags. Margt hefði áhrif á ávöxtun fjárfestinga, s.s. breytingar á hagvexti hér á landi og erlendis, breytingar á gengi krónunnar, vaxtabreytingar og svo framvegis. Sjóðstjórar hafa atvinnu af því að fylgjast með og leggja mat á líklega þróun markaða og taka ákvarðanir um fjárfestingu sjóða í samræmi við það. Fjárfesting í eignadreifingarsjóði sagði Guðný veita fólki aðgang að vel dreifðu eignasafni á einfaldan hátt. Hún fjallaði um mismunandi sjóði Landsbréfa, m.a. um nýjan sjóð. „Eignadreifing sjálfbær er nýr sjóður sem var stofnaður fyrr á þessu ári. Sá sjóður hefur heimild til að fjárfesta allt að 70% af eignum sjóðsins í hlutabréfum. Hann er aðeins frábrugðinn hinum eignadreifingarsjóðunum þar sem eingöngu er fjárfest í verðbréfum útgefenda sem skara fram úr á sviði sjálfbærni. Verðbréf annara útgefanda eru einfaldlega ekki í fjárfestingarmengi sjóðsins. Eignadreifing sjálfbær hefur hlotið mjög góðar viðtökur og ljóst er að áhugi fjárfesta á þessum málaflokki er mikill. Sjálfbærni skiptir okkur hjá Landsbréfum miklu máli og er það von okkar og trú að auknar áherslur á sjálfbærni við fjárfestingarákvarðanir verði útgefendum verðbréfa hér á Íslandi hvatning til að gera betur í þessum málaflokki til framtíðar og að innlendum fjárfestingarkostum Eignadreifingar sjálfbærrar fjölgi hratt. Það er staðreynd að fyrirtæki sem leggja áherslu á sjálfbærni í sínum rekstri skila almennt til lengdar betri ávöxtun og gera samfélagið betra.“

Fjárfesta í takt við neysluhegðun aldamótakynslóðarinnar

Richard Wiseman, forstöðumaður hlutabréfastýringar hjá Goldman Sachs, starfar hjá sjóði sem sérhæfir sig í að fjárfesta í fyrirtækjum sem fá tekjur frá aldamótakynslóðinni (e. millennials) og ber sjóðurinn heitið GS Global Millennials Equity Portfolio. Aldamótakynslóðin er fólk sem er fætt á bilinu 1980-1999. Wiseman benti m.a. að kynslóðin væri mun stærri en þær kynslóðir sem á undan komu og telji alls um 2,3 milljarða jarðarbúa. Þessi kynslóð er að sögn Wiseman fjársterkari en fyrri kynslóðir og eyðir peningunum sínum með öðrum hætti. Fólk af þessari kynslóð hugar til að mynda mun meira að umhverfismálum og loftslagsbreytingum. Sjóðurinn var settur á laggirnar til að fjárfesta í samræmi við neysluhegðun og viðhorf þessarar kynslóðar og fjárfestingarstefnan tekur mið af því. Þannig fjárfestir sjóðurinn m.a. í tæknifyrirtækjum, fyrirtækjum sem framleiða afþreyingarefni og fyrirtækjum sem vinna að sjálfbærni og styðja við holla lífshætti. Vægi þessarar kynslóðar í efnahagslífi heimsins mun halda áfram að aukast.

Þú gætir einnig haft áhuga á
15. sept. 2021
Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?
Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
Fjárfestum í framtíðinni
7. júní 2021
Fjárfestum í framtíðinni – fjarfundur 4. júní 2021
Landsbankinn hélt vel heppnaðan fjarfund um sjálfbærni og ábyrgar fjárfestingar föstudaginn 4. júní 2021 undir yfirskriftinni Fjárfestum í framtíðinni.
2. júní 2021
Nýr fjárfestingarsjóður með sjálfbærni að leiðarljósi
Eignadreifing sjálfbær er nýr fjárfestingarsjóður Landsbréfa, dótturfélags Landsbankans. Markmið sjóðsins er að ná fram ávöxtun og dreifingu áhættu með sjálfbærni að leiðarljósi.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur