Hvern­ig kaupi ég hluta­bréf?

26. ágúst 2022 - Elín Dóra Halldórsdóttir

Það er mjög einfalt að kaupa hlutabréf. Til dæmis er hægt að fjárfesta í hlutabréfum einstakra félaga og margskonar sjóðum í netbanka Landsbankans og í Landsbankaappinu á einfaldan hátt og fylgjast þar með þróun fjárfestingarinnar.

Þegar þú kaupir hlutabréf eignast þú hlut í fyrirtækinu sem þú kaupir bréfin í og verður einn af hluthöfum þess. Þannig getur þú keypt hlut í fyrirtæki sem þú telur að muni ganga vel og hefur trú á að hækki í virði.

Elín D. Halldórsdóttir

Fræðslumyndband um fyrstu skrefin í hlutabréfakaupum

Ávöxtunin ræðst af því hvernig fyrirtækinu gengur í sínum rekstri  og væntingum fjárfesta. Hlutabréfin geta hækkað eða lækkað eftir því hvernig fyrirtækinu vegnar en fyrirtæki sem ná markmiðum sínum greiða oft út arð eða nýta hagnaðinn til að byggja fyrirtækið frekar upp í þeirri von að það stækki og dafni enn frekar með tilheyrandi hækkun hlutabréfaverðs. Raunverulegur hagnaður eða tap verður hins vegar ekki til fyrr en þú selur hlutabréfin.

Það getur verið áhættusamt að eiga hlut í einu eða fáum fyrirtækjum. Þannig getur einn atburður eða áhrifaþáttur í rekstrarumhverfi fyrirtækisins haft gríðarleg áhrif á eignasafnið þitt, bæði til góðs en líka til hins verra. Þannig borgar sig að hafa í huga upphaflegu markmiðin þín, áhættuna sem þú þolir og vilt taka og þolinmæðina sem þú hefur til að fara í gegnum tímabundnar niðursveiflur.

Kaup í fleiri fyrirtækjum í ólíkum geirum og jafnvel í mörgum löndum er ein leið til að dreifa áhættunni en það er einnig hægt að gera með því að fjárfesta t.d. í hlutabréfasjóðum.

Annað sem gott er að hafa í huga er að tekin er þóknun fyrir hver kaup og sölu hlutabréfa sem þýðir að óhagkvæmt getur verið að kaupa hlutabréf fyrir mjög lágar upphæðir, sérstaklega til skamms tíma.

Aðalmarkaður Nasdaq og First North

Almenningur getur keypt hlutabréf í fyrirtækjum sem skráð eru á markað í kauphöll, en kauphöll er heiti sem notað er fyrir viðskiptavettvang þar sem aðilar geta keypt og selt verðbréf. Fyrir félög veitir markaður aðgengi að fjárfestum og fjármagni. Kauphöllin á Íslandi er rekin af rekstraraðila sem heitir Nasdaq, en Nasdaq rekur tvo markaði á Íslandi, Aðalmarkað og First North. 

Rúmlega 20 íslensk fyrirtæki eru í dag skráð á Aðalmarkað. Til þess að fá skráningu á Aðalmarkað þurfa fyrirtæki að uppfylla ýmis skilyrði t.d. um lágmarksvirði og aldur. Í kjölfar skráningar þurfa fyrirtækin svo að sinna ríkri upplýsingaskyldu til eigenda sinna og markaðarins og sýna ákveðið gegnsæi í rekstri. Þannig er hægt að finna mikið af opinberum upplýsingum um rekstur skráðra fyrirtækja á Aðalmarkaði sem gagnlegt getur verið að kynna sér bæði áður en fjárfest er og meðan þú átt í fyrirtækinu.

First North hlutabréfamarkaðurinn er sniðinn að þörfum vaxtarfyrirtækja sem eru að taka sín fyrstu skref á verðbréfamarkaði. Gerðar eru minni kröfur til fyrirtækja sem eru skráð á First North t.a.m. um stærð, rekstrarsögu og upplýsingagjöf á markaði.

Talað er um óskráð hlutabréf ef þau eru ekki á markaði og er þá aðgengi að þeim bréfum erfiðara og upplýsingagjöf um félagið sjálft og rekstur þeirra minni.

Gengi hlutabréfa vísar til verðs eins hlutabréfs í félagi. Ef fram kemur að gengi félags sé 120 krónur, kostar eitt hlutabréf í því félagi 120 krónur. Gengi hlutabréfa er ólíkt milli félaga og segir í sjálfu sér ekkert til um verðmæti félaga. Það gagnast því lítið að bera gengi í einu félagi saman við gengi í öðru félagi. Til að finna út markaðvirði félags margfaldar þú gengið með fjölda hlutabréfa í félaginu, en þær upplýsingar er að finna í ársreikningi hvers félags fyrir sig.

Þú gætir einnig haft áhuga á
26. ágúst 2022
Fyrstu skrefin í verðbréfafjárfestingum
Áður en byrjað er að fjárfesta í verðbréfum er mikilvægt að hafa ákveðin lykilatriði á hreinu og vera meðvituð um áhættuna.
26. ágúst 2022
Kaup í sjóðum getur verið einfaldasta leiðin til að dreifa áhættunni
Sjóðir eru í stuttu máli safn margra fjárfestinga og er ætlað að einfalda fólki dreifingu eigna til að draga úr áhættu og sveiflum. Margar tegundir sjóða eru í boði og fylgja þeir ólíkum markmiðum. Sumir sjóðir stefna til dæmis að því að lágmarka áhættu eða sérhæfa sig í tilteknum atvinnugreinum eða hugmyndafræði, s.s. sjálfbærni.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur