Samantekt
Alls nam fjöldi erlendra ferðamanna hér á landi 278.613 í júlímánuði og jókst fjöldinn um 6.693 miðað við sama mánuð í fyrra eða um 2,5%. Verulega hefur hægt á fjölgun erlendra ferðamanna á síðustu ársfjórðungum eftir mikla hlutfallslega aukningu á síðustu árum. Ferðamönnum er þó enn að fjölga og hefur einungis mælst fækkun í einum mánuði á þessu ári en það var í apríl þegar ferðamönnum fækkaði um 3,9% miðað við sama mánuð í fyrra. Fyrstu 7 mánuði ársins nam fjöldi erlendra ferðamanna tæplega 1.306 þúsund manns borið saman við 1.245 þúsund á sama tímabili í fyrra og nemur aukningin 4,9% milli ára. Til samanburðar nam fjölgunin 33% á fyrstu 7 mánuðum ársins 2017 borið saman við sama tímabil árið áður.
Hlutfallslega fjölgaði ferðamönnum mest í maí þegar þeim fjölgaði um 13,2%. Í nóvember fór fjölgunin í fyrsta skiptið undir tveggja stafa tölu frá því í nóvember 2011. Síðan í nóvember hefur fjölgunin verið undir tveggja stafa tölu ef frá er talinn maí.