Landsbankinn fær framúrskarandi einkunn í UFS-áhættumati Reitunar
Í mati Reitunar segir að Landsbankinn hafi á undanförnum árum náð góðum árangri í umhverfismálum, velferð starfsfólks, ánægju viðskiptavina, þjónustu og stjórnarháttum. Auk þess hafi Landsbankinn verið virkur þátttakandi í því að ýta undir framfarir í þróun UFS-mála hér á landi. Landsbankinn vinni ötullega að netöryggi, sem sé einn stærsti áhættuþátturinn í starfsemi banka.
Landsbankinn heldur áfram vinnu við innleiðingu UFS-þátta í fjárfestinga- og útlánastarfsemi sína en hann hefur sett sér metnaðarfulla stefnu í ábyrgum fjárfestingum. Bankinn hefur skuldbundið sig til að fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (PRI) og ábyrga bankastarfsemi (PRB). Bankinn vinnur nú að settum markmiðum um grænan lánaramma og er þátttakandi í þróun á PCAF, verkefni sem mun aðstoða banka á heimsvísu að mæla kolefnisspor í lána- og eignasafni sínu.
Ólafur Ásgeirsson, framkvæmdastjóri Reitunar: „Landsbankinn nær framúrskarandi árangri í áhættumatinu og er fyrirmynd fyrir markaðinn hérlendis. Bankinn er vel fyrir ofan meðaltal í öllum flokkum í samanburði við aðra innlenda útgefendur. Samtals hefur Reitun metið um 30 félög sem skráð eru á markað. Það er ánægjulegt að sjá Landsbankann koma vel út úr þessu mati. Bankinn hefur stutt við þróun á UFS-málefnum innanlands og nýtir nú niðurstöðurnar fyrir innlent eignasafn sitt. Við teljum bankann vel í stakk búinn til að taka mikilvæg skref við innleiðingu á UFS í fjárfestingar- og lánaákvarðanir. Gangi það vel er líklegt að við sjáum bankann halda sér áfram í flokki A á komandi árum.“
Lilja Björk Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans: „Það er spennandi að nú sé til íslenskt félag sem gefur einkunn sem byggð er á UFS-þáttum. Þetta var metnaðarfull vinna hjá Reitun. Fyrir Landsbankann þýðir þetta að fjárfestar, eigendur og viðskiptavinir fá betri innsýn í hvernig við störfum og hvernig við hugum að þessum mikilvægu þáttum í rekstrinum. Það eru sífellt gerðar meiri kröfur til fyrirtækja um að vera til fyrirmyndar og frábært fyrir Landsbankann að fá svona góða niðurstöðu úr úttektinni.“
UFS-áhættumat Reitunar
UFS-áhættumat Reitunar leggur mat á hvernig fyrirtæki standa sig í þeim þáttum sem lúta að umhverfis- og félagsþáttum og stjórnarháttum, og gefur þeim einkunn. Reitun er fyrsti innlendi aðilinn sem býður upp á slíka þjónustu til fjárfesta sem nýtist þeim við fjárfestingarákvarðanir. Margir aðilar hafa komið að mótun aðferðafræðinnar, sem þarf að vera skýr og taka mið af innlendum aðstæðum, en ekki síður þeim línum sem erlend UFS-matsfyrirtæki vinna eftir.
Erlendis hefur verið mikill vöxtur í slíkum greiningum. Góð niðurstaða úr slíku mati er mikið styrkleikamerki sem tekið er tillit til við lána- og fjárfestingarákvarðanir. Einnig getur það haft jákvæð áhrif á birgja, hluthafa og aðra hagsmunaaðila.
Innlendir fjárfestar eru að tileinka sér þessar nýju áherslur hratt og hafa margir sett sér markmið og mótað sér stefnu í þeim efnum. Rekstraraðilar þurfa því í vaxandi mæli að taka tillit til þessara þátta og nýta þau tækifæri sem þau gefa samhliða þeim jákvæðu áhrifum sem það hefur gagnvart umhverfi og samfélagi.