Landsbankinn veitir framkvæmdalán vegna áfangaheimilis Kvennaathvarfsins
Samningar vegna byggingar og fjármögnunar framkvæmda við 18 íbúða áfangaheimili Kvennaathvarfsins voru undirritaðir 28. nóvember. Landsbankinn veitir framkvæmdalán vegna áfangaheimilisins á verktímanum.
Í áfangaheimilinu verða 12 stúdíóíbúðir og 6 þriggja herbergja íbúðir. Framkvæmdir hefjast þann 1. febrúar 2020 og er áætlað að þeim ljúki sumarið 2021. Undirbúningur byggingarinnar hófst árið 2017 með söfnunarátakinu Byggjum von um betra líf á vegum átaksins Á allra vörum sem lauk með söfnunarþætti í samvinnu við RÚV og Sjónvarp Símans. Alls söfnuðust um 80 milljónir króna í átakinu. Verkefnið hefur einnig hlotið stofnframlög frá Íbúðalánasjóði og Reykjavíkurborg í almenna íbúðakerfinu. Því til viðbótar hafa félagasamtökin Oddfellowreglan, Soroptimistar, Zonta og kvenfélög auk margra annarra stutt veglega við verkefnið.
Aðgangur að húsnæði á sanngjörnum kjörum með nauðsynlegri vernd og stuðningi Kvennaathvarfsins getur skipt sköpum um hvernig konum og börnum gengur að byggja nýtt líf, þegar fjölskyldurnar þurfa ekki lengur á neyðarathvarfi að halda. Áfangaheimilið verður því viðbót við núverandi þjónustu neyðarathvarfs Samtaka um Kvennaathvarf, svokallað millistigshúsnæði. Þar munu konur og börn sem flúið hafa ofbeldi í nánu sambandi geta eignast eigið heimili á meðan þær koma aftur undir sig fótunum.
Verktaki byggingarinnar er Alverk ehf. Hönnuðir eru Þorleifur Eggertsson hjá Tendra arkitektum, Lota verkfræðistofa, Teiknistofan Storð og Trivium.