Varað við svikatilboðum um endurheimt fjár
Fram eru komin ný dæmi þar sem svikahrappar bjóða fórnarlömbum fjársvika sinna aðstoð undir fölsku flaggi og kynna sig sem samstarfsaðila Landsbankans. Hið rétta er að bankinn aðstoðar viðskiptavini við að endurheimta glatað fé en sú þjónusta er án endurgjalds. Þjónustan fæst aðeins hjá bankanum en er ekki boðin í samstarfi við önnur fyrirtæki.
Reynt að svíkja meira fé út úr fórnarlömbunum
Undanfarið hefur nokkuð verið um að Íslendingar glati fé vegna fjársvika á netinu. Síðla árs 2018 tók að bera á því að fjársvikarar hefðu samband við fólk sem þeir höfðu þegar svikið fé út úr og buðu aðstoð við að endurheimta hið glataða fé. Svikin fóru m.a. þannig fram að svikararnir sendu fórnarlömbum tölvupóst og sögðust hafa fengið upplýsingar um fjársvikin í tengslum við samstarf sitt við lögregluyfirvöld erlendis. Þá vísuðu þeir fórnarlömbunum á vefsíðu sem virkaði sannfærandi, a.m.k. við fyrstu sýn, þar sem finna mátti meiri upplýsingar um „aðstoðina“, sem var í raun ekkert annað en svikatilraun. Svikararnir lýstu vandaðri sérfræðiráðgjöf, víðfeðmu tengslaneti og góðum, áralöngum árangri af endurheimt þýfis og/eða gagna. Fyrir ráðgjöf og þjónustu átti reyndar að taka myndarlega þóknun.
Tilgangurinn með þessu öllu er að svíkja enn meira fé út úr fórnarlömbunum sem geta setið eftir með tvöfalt tjón. Þolendum fjársvika er bent á að hafa allan varann á þegar ókunnir aðilar, s.s. erlend fyrirtæki eða ráðgjafar, hafa samband og bjóða fram aðstoð um endurheimt fjár í kjölfar fjársvika.
Á Umræðunni er ítarleg og aðgengileg umfjöllun um nokkrar algengar tegundir netsvika og hvernig má verjast þeim.