S&P lækkar lánshæfismat Landsbankans í BBB með stöðugum horfum
Í rökstuðningi S&P er vísað til lækkunar í mati á horfum fyrir bankakerfið á Íslandi (e. industry risk) sem stafar af minni efnahagsumsvifum í kjölfar heimsfaraldurs Covid-19 sem leiðir til þess að grunnur að lánshæfiseinkunn (e. anchor) banka með starfsemi á Íslandi lækkar um eitt þrep. Stöðugar horfur í lánshæfismati bankans byggja á því mati S&P að bankinn standist afleiðingar efnahagslægðarinnar með því að viðhalda sterkri eiginfjárstöðu og góðri fjármögnunar- og lausafjárstöðu.
Í tilkynningunni kemur jafnframt fram að Landsbankinn njóti hærri markaðshlutdeildar og heldur meiri skilvirkni í rekstri en innlendir samkeppnisaðilar. Þá kemur fram að bankinn sé framarlega á sviði stafrænnar þróunar og standi framar mörgum öðrum evrópskum bönkum í undirbúningi vegna áhrifa tækniþróunar á bankaþjónustu.