Jafnréttisvísir: Mikilvæg innsýn í stöðu jafnréttismála
Jafnréttisvísirinn er stefnumótun og vitundarvakning í jafnréttismálum sem ætlað er að meta stöðu jafnréttismála innan fyrirtækja og stofnunum út frá ítarlegri greiningarvinnu. Í verkefninu felst heildstæð nálgun á jafnréttismál, stefnumótun og markmiðasetningu. Horft er til nokkurra lykilþátta í ferlinu eins og samskipta innan fyrirtækis og vinnuumhverfis, stefnu, launa, skipurits, fyrirmynda og fleira. Þannig gefur jafnréttisvísirinn mikilvæga innsýn í stöðu jafnréttismála og settar eru í gang aðgerðir með það að markmiði að bæta stöðuna. Við lítum svo á að jafnréttisvísirinn sé verkfæri fyrir fyrirtæki og stofnanir sem vilja ná raunverulegum árangri í jafnréttismálum.
Mikilvægt að æðstu stjórnendur leiði jafnréttisvinnuna
Það er mjög mikilvægt að alveg frá upphafi sé ljóst að æðstu stjórnendur leiði verkefnið til þess að leggja áherslu á mikilvægi þess og tryggja þátttöku alls starfsfólks. Það skiptir miklu máli að það sé ekki einungis þröngur hópur stjórnenda sem vinni að málinu og tilkynni síðan hvað hafi verið ákveðið. Jafnréttismál eru ekki afmarkað verkefni sem er bundið við tiltekið svið, það er viðfangsefni allra sem starfa hjá fyrirtækinu. Við reynum að gefa öllu starfsfólki kost á að taka þátt í vinnunni á einhverju stigi, t.d. með vinnustofum þar sem umræða og fræðsla á sér stað um margvísleg atriði og kallað er eftir hugmyndum að tækifærum til úrbóta. Landsbankinn, TM og Landsvirkjun eru nú aðilar af Jafnréttisvísinum.
Samræður um jafnréttismál mikilvægar
Það er mjög mikilvægt að reglulegar samræður um jafnréttismál eigi sér stað innan fyrirtækja. Það skiptir svo miklu máli að við höfum sameiginlegan skilning á viðfangsefninu og sýn á það hvernig við viljum hafa hlutina. Samræður eru líka besta leiðin til að auðvelda körlum og konum að setja sig í spor hvers annars og skilja hvert annað betur.
Ómeðvitaðir kynbundnir fordómar dregnir upp á yfirborðið
Í allri vinnunni sem farið er í hvað varðar Jafnréttisvísinn, koma oft upp á yfirborðið þættir í fyrirtækjamenningunni sem við höfum ekki leitt hugann að, t.d. í samskiptavenjum. Lögð er rík áhersla á að draga einmitt þessa þætti fram en hér má oft, með mjög einföldum hætti, innleiða breytingar til batnaðar. Þannig er leitast við að fá uppá yfirborðið þá ómeðvituðu kynbundnu fordóma sem oft leynast í menningu, umhverfi og skipulagi fyrirtækja. Þannig mótast betri vinnustaðir þar sem jafnt konum sem körlum líður vel og eru ánægðari í starfi.
Metoo-byltingin skiptir máli
Metoo-byltingin hefur skipt miklu máli í því að koma jafnréttismálum á dagskrá og valdefla konur, og karla, til að greina frá áreitni. Metoo hefur líka aukið til muna meðvitund fólks um það hvað teljist viðeigandi hegðun á vinnustað. Við höfum séð mörg dæmi á vinnustöðum þar sem karlar hafa tekið sig saman, sest niður og rætt sín á milli hvað þeir geti bætt, litið í eigin barm. Það er frábært en það má heldur ekki gleymast að þetta er samtal sem við verðum að eiga okkar á milli, karlar og konur, þannig að við getum í sameiningu búið til betri vinnustaðamenningu sem byggist á gagnkvæmum skilningi og gagnkvæmri virðingu hvert fyrir öðru. Því öll viljum við eflaust að kynin njóti jafnréttis og að konur fái framgang innan fyrirtækja til jafns við karla.
Landsbankinn varð á árinu 2018 aðili að að Jafnréttisvísi Capacent. Á myndinni eru Baldur G. Jónsson, mannauðsstjóri Landsbankans, Lilja. B Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, Þórey Vilhjálmsdóttir, ráðgjafi hjá Capacent, Steingrímur Sigurgeirsson, ráðgjafi hjá Capacent.
„Í Landsbankanum, sem og í samfélaginu öllu, hefur að undanförnu orðið mikil vitundarvakning í jafnréttismálum. Með samstarfinu við Capacent og beitingu Jafnréttisvísins fáum við aðstoð við að greina stöðuna ítarlega, móta skýr markmið og vera almennt meðvitaðri í öllum samskiptum í þeim tilgangi að byggja upp gott starfsumhverfi og jákvæða og uppbyggilega fyrirtækjamenningu. Höfuðáherslan í jafnréttismálum hjá Landsbankanum síðustu ár hefur verið að tryggja körlum og konum jöfn tækifæri og jöfn laun fyrir jafn verðmæt störf. Við höfum náð góðum árangri en Jafnréttisvísirinn hjálpar okkur að gera enn betur.“sagði Lilja B. Einarsdóttir, bankastjóri Landsbankans, við afhendingu Jafnréttisvísisins.