Upplýsingar um breytingar á framboði nýrra íbúðalána
Upplýsingar um breytingar á framboði nýrra íbúðalána
Í kjölfar dóms Hæstaréttar í vaxtamáli gegn Íslandsbanka frá 14. október 2025 hefur Landsbankinn gert breytingar á framboði nýrra íbúðalána.
Við vekjum sérstaka athygli á að þessar breytingar ná aðeins til nýrra íbúðalána og hafa engin áhrif á lántaka sem þegar eru með íbúðalán hjá bankanum.
Helstu breytingar eru eftirfarandi og nánari upplýsingar eru neðar á þessari síðu:
- Við bjóðum upp á nýjan möguleika sem er að festa vexti á óverðtryggðum íbúðalánum í 1 ár. Vextir á slíku láni eru nú frá 8,60% og er lánið án uppgreiðslugjalds.
- Áður var eingöngu hægt að festa vexti í 3 eða 5 ár.
- Með því að festa vexti í 1, 3 eða 5 ár fást bestu vextir bankans á íbúðalánum, sem eru frá 8,15%. Vextir taka mið af veðsetningarhlutfalli.
- Breytilegir vextir á nýjum óverðtryggðum íbúðalánum munu bera fast vaxtaálag ofan á stýrivexti Seðlabankans á hverjum tíma.
- Íbúðalán verður allt í einu láni og hætt verður með sérstök grunnlán auk viðbótarlána á hærri kjörum.
- Fyrstu kaupendur fá lánað fyrir allt að 85% af verðmæti eignar en aðrir 80%. Lánstími er allt að 40 ár.
- Verðtryggð íbúðalán verða eingöngu í boði fyrir fyrstu kaupendur. Þau verða veitt til 20 ára og verða á föstum vöxtum út lánstímann.
Við höfum boðið mjög samkeppnishæf kjör á íbúðalánum og framúrskarandi þjónustu í Landsbankanum um allt land. Við munum halda því áfram.
Vaxtagreiðsluþak verður í boði fyrir viðskiptavini sem lenda í tímabundnum greiðsluvanda, en með því er hluti af vaxtagreiðslum færður á höfuðstól lánsins.
Nánari upplýsingar um breytingarnar
Hægt að festa vexti á íbúðalánum í 1, 3 eða 5 ár
Nú bætist við sá möguleiki að festa vexti í 1 ár, en áður var hægt að festa vexti á óverðtryggðum íbúðalánum í 3 eða 5 ár. Þegar fastvaxtatíma er lokið er hægt að festa vextina aftur en annars færist lánið yfir á breytilega vexti, með föstu vaxtaálagi sem liggur fyrir við lántöku.
Vextir á fastvaxtatímabili eru misháir en þeir fara eftir því hversu hátt veðsetningarhlutfallið er. Hagstæðustu vextirnir eru í boði þegar hlutfallið er lægra en 55% og eru þeir nú frá 8,15% ef fest er til 5 ára en frá 8,60% ef vextir eru festir í 1 ár (m.v. 24.10.2025).
Lán á föstum vöxtum geta borið uppgreiðslugjald, sjá neðar.
Ekkert uppgreiðslugjald er á óverðtryggðu íbúðaláni með fasta vexti til 1 árs.
Uppgreiðslugjald ef vextir eru lægri
Lántaki sem festir vextina en vill síðan færa sig aftur yfir í breytilega vexti þarf að greiða upp lánið og endurfjármagna. Við það gæti þurft að greiða uppgreiðslugjald. Ef vextirnir sem eru í boði hjá bankanum þegar breytingin á sér stað eru jafnháir eða hærri en föstu vextirnir á láninu, þarf ekki að greiða uppgreiðslugjald. Ef föstu vextirnir sem eru í boði eru lægri þarf á hinn bóginn að greiða uppgreiðslugjald.
Uppgreiðslugjald á óverðtryggðum íbúðalánum á föstum vöxtum
Uppgreiðslugjald á óverðtryggðum lánum á föstum vöxtum getur aldrei verið hærra en 0,2% af fjárhæð endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir stendur af fastvaxtatímanum, en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur 4% af endurgreiðslu. Þannig er uppgreiðslugjald af láni með 5 ára fastvaxtatímabil að hámarki 1% af endurgreiðslu.
Uppgreiðslugjald á verðtryggðum íbúðalánum á föstum vöxtum
Uppgreiðslugjald á verðtryggðum lánum með föstum vöxtum út lánstímann getur aldrei verið hærra en 0,2% af heildarfjárhæð lánsins fyrir hvert ár sem eftir er af lánstímanum, en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur 4% af endurgreiðslu.
Eitt íbúðalán, í stað grunnláns og viðbótarláns
Íbúðalán verður allt í einu láni og hætt verður með sérstök grunnlán auk viðbótarlána á hærri kjörum. Áður buðum við upp á grunnlán upp að 70% af verðmæti eignar og viðbótarlán fyrir allt að 80% af verðmætinu en 85% fyrir fyrstu kaupendur. Vextir á grunnláni voru lægri en á viðbótarláninu. Við afnemum þessa skiptingu og veitum eitt íbúðalán fyrir allt að 80% af verðmæti eignar en 85% fyrir fyrstu kaupendur.
Hámarkslánstími óverðtryggðra íbúðalána verður 40 ár, en 20 ár fyrir verðtryggð íbúðalán fyrir fyrstu kaupendur.
Vextir og vaxtaálag á óverðtryggðum lánum á breytilegum vöxtum
Í eldri skilmálum bankans um breytingar á vöxtum íbúðalána var vísað til breytinga á meðal annars vöxtum Seðlabankans en einnig til vaxta á markaði og annarra fjármögnunarkjara bankans. Með þessu móti hafði bankinn svigrúm til að láta breytingar á stýrivöxtum, vöxtum á markaði og fjármögnunarkjörum bankans endurspeglast í útlánakjörum á hverjum tíma.
Með hliðsjón af dómi Hæstaréttar munu ný íbúðalán á breytilegum vöxtum bera breytilega grunnvexti, sem samsvara stýrivöxtum Seðlabanka Íslands á hverjum tíma, auk fasts vaxtaálags út líftímann. Vaxtaálagið getur tekið breytingum fyrir ný lán í framtíð en slíkar breytingar munu ekki hafa afturvirk áhrif.
Rétt er að taka fram að vextir nýrra óverðtryggðra lána á breytilegum vöxtum geta lægst numið ofangreindu föstu vaxtaálagi og myndar það einskonar vaxtagólf.
Kjör á óverðtryggðum íbúðalánum bankans eftir breytingu
Fastir vextir á óverðtryggðum íbúðalánum verða frá 8,15% en þá er miðað við lága veðsetningu og fasta vexti til 5 ára.
Fast vaxtaálag Landsbankans á óverðtryggðum íbúðalánum með breytilegum vöxtum er 2,5%. Stýrivextir eru nú 7,5% þannig vextir slíks láns í dag (m.v. 24.10.2025) eru samtals 10%. Ef stýrivextir lækka munu vextir lánsins lækka, en álagið helst óbreytt. Að loknu fastvaxtatímabili færast lánin á breytilega vexti með föstu vaxtaálagi út lánstímann sem liggur fyrir við lántöku. Viðskiptavinir geta þá aftur fest vexti kjósi þeir svo.
Breytingin hefur ekki áhrif á lán sem voru veitt fyrir þessa breytingu.
Verðtryggð lán fyrir fyrstu kaupendur
Verðtryggð íbúðalán verða einungis í boði fyrir fyrstu kaupendur, sem helst þurfa lága greiðslubyrði, og verða veitt til 20 ára.
Veðsetningarhlutfall fyrir fyrstu kaupendur getur verið allt að 85%. Ef veðsetningarhlutfall er lægra en 75% er boðið upp á lægra vaxtaþrep.
Lán á föstum vöxtum bera uppgreiðslugjald, sem má ekki fara yfir 0,2% af fjárhæð endurgreiðslu fyrir hvert heilt ár sem eftir er af fastvaxtatímanum, en þó aldrei hærri fjárhæð en nemur 4% af endurgreiðslu.
Landsbankinn hyggst að svo stöddu ekki bjóða ný verðtryggð íbúðalán á breytilegum vöxtum.
Breytingarnar hafa ekki áhrif á íbúðalán með eldri skilmálum
Þessar breytingar hafa ekki áhrif á eldri lán sem voru veitt fyrir ofangreindar breytingar.
Hvað með endurútreikninga á eldri lánum?
Að mati Landsbankans liggur ekki fyrir skýr niðurstaða Hæstaréttar um það hvort, og þá hvernig, beri að endurreikna eldri lán. Hæstiréttur á eftir að dæma í fleiri málum sem varða skilmála um breytilega vexti, þar af þremur málum sem hafa verið höfðuð gegn Landsbankanum.
Þessar upplýsingar voru birtar 24. október 2025 og verða uppfærðar ef þörf er á.

Leiðin þín að nýju heimili byrjar hér
Við lánum allt að 80% af kaupverði íbúðar en 85% til fyrstu kaupa. Við erum alltaf til staðar til að fara yfir fjármögnunarleiðirnar. Þú getur bæði pantað ráðgjöf í síma eða í útibúi þegar þér hentar.