Mundu eft­ir netör­ygg­inu - líka þeg­ar þú ert í fríi

Tilraunum til hvers kyns netsvika hefur fjölgað mikið og reynslan sýnir að þeim fjölgar á sumrin. Ástæðan er talin vera sú að netsvikarar vonast eftir því að þá sé fólk sé kærulausara og sé líklegra til að taka þátt í fölskum Facebook-leik, smella á hlekk í hugsunarleysi eða skoða ný „fjárfestingartækifæri“.
8. júlí 2022 - Landsbankinn

Veikasti hlekkurinn í vörnum gegn netsvikum erum við sjálf. Við viljum þess vegna vekja athygli á nokkrum góðum ráð um varnir gegn netsvikum.

Góð ráð gegn netsvikum

 • Farðu mjög varlega þegar þú færð tölvupóst, SMS eða skilaboð á samfélagsmiðlum sem innihalda hlekki. Ef þú áttir ekki von á skilaboðum frá viðkomandi aðila skaltu fara sérstaklega varlega.
 • Ekki samþykkja innskráningu með rafrænum skilríkjum nema þú sért í raun og veru að nota þau til að skrá þig inn.
 • Passaðu þig á fölskum leikjum á samfélagsmiðlum, s.s. á Facebook. Ef þú tekur þátt máttu búast við að fá skilaboð (t.d. á Messenger) um að þú hafir unnið og síðan er óskað eftir kortaupplýsingum til að hægt sé að leggja „vinninginn“ inn á kortið. Svikararnir geta þá notað upplýsingarnar til að taka út af kortinu þínu.
 • Algengt er að sendir séu falskir tölvupóstar eða SMS sem líta út fyrir að koma frá t.d. bönkum, flutningsfyrirtækjum eða streymisveitum á borð við Netflix eða Disney+. Ef smellt er á hlekkinn opnast fölsk síða þar sem reynt er að fá fólk til að gefa upp korta- eða bankaupplýsingar.
 • Passaðu þig á tilboðum um ýmis konar „fjárfestingartækifæri“ þar sem lofað er skjótum og öruggum gróða.
 • Aldrei leyfa ókunnugum að taka yfir tölvuna þína með forritum á borð við AnyDesk. Það er þekkt aðferð hjá svikurum.
 • Passaðu vel upp á notandanafnið og lykilorðið þitt fyrir netbankann og appið - aldrei deila þeim með öðrum. Þú skalt ekki heldur hleypa öðrum inn í netbankann þinn.
 • Lestu SMS með staðfestingu á Visa-greiðslum vel. Þegar þú notar Visa-kortið hjá vefverslunum sem eru með merkið „Verified by Visa“ færð þú sent SMS með einnota lykilorði (e. secure code). Þar koma líka fram upplýsingar um upphæð greiðslunnar, gjaldmiðil og nafn söluaðila. Eru allar þessar upplýsingar örugglega réttar?

Hvað á ég að gera ef ég verð þolandi svika?

 • Hafðu samband við okkur sem fyrst í síma 410 4000, með tölvupósti á landsbankinn@landsbankinn.is eða á netspjalli.
 • Ef kortinu eða kortanúmerinu þínu er stolið getur þú fryst það strax í Landsbankaappinu.
 • Utan afgreiðslutíma banka getur þú hringt í 525 2000, neyðarnúmer Rapyd sem er útgefandi Visa-korta.

Greinin var fyrst birt 21. júní 2021 og uppfærð 8. júlí 2022.

Þú gætir einnig haft áhuga á
4. maí 2018
Þekktu muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum
Líkt og falskir tölvupóstar geta fölsk smáskilaboð verið afar sannfærandi. Þess vegna er mikilvægt að þekkja megineinkenni falskra skilaboða, hvort sem þau koma sem SMS eða með öðrum hætti.
25. apríl 2017
Svik í gegnum tölvupóst og smáskilaboð
Algengt er að reynt sé að blekkja fólk með trúverðugum skilaboðum í tölvupósti sem líta út eins og þau séu frá lögmætum fyrirtækjum. Markmið skilaboðanna eru hins vegar að fá þig til að smella á slóð, hlaða niður hugbúnaði fjársvikara eða opna viðhengi. Þannig komast óprúttnir aðilar yfir upplýsingar eða fjármuni. Þessi aðferð nefnist vefveiðar (e. phishing).
20. des. 2016
Falsa fyrirmæli til að svíkja fé út úr fyrirtækjum
Tilraunum til að svíkja út fé úr fyrirtækjum með því að falsa tölvupósta og gefa fölsk fyrirmæli um greiðslur hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Svikahrapparnir undirbúa sig vel til að þeir geti sent trúverðug skilaboð í nafni stjórnenda.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur