Svik­ar­ar fara ekki í sum­ar­frí

Tilraunum til netsvika fjölgar yfirleitt á sumrin. Hugsanlega vonast svikararnir til að þegar fólk er í fríi sé það líklegra til að smella á hlekki í hugsunarleysi eða lesa ekki nægilega vel SMS-skilaboð eða tölvupóst áður en það bregst við.
21. júní 2021 - Landsbankinn

Ef þú gefur svikurum upp kreditkortanúmerið þitt eða aðgangsupplýsingar að netbanka getur þú tapað háum fjárhæðum – jafnvel öllu sparifénu þínu. Farðu varlega, beittu heilbrigðri skynsemi og taktu með fyrirvara öllum skilaboðum þar sem beðið er um að þú gerir eitthvað, s.s. smella á hlekk, skrá þig inn eða gefa upp greiðsluupplýsingar. Þetta á sérstaklega við ef þú áttir ekki frumkvæði að samskiptunum.

Hvað á ég að gera til að verjast svikum?

Hér fyrir neðan eru nokkur atriði sem þú skalt hafa í huga til að verjast svikatilraunum:

  1. Farðu mjög varlega þegar þú færð tölvupóst eða SMS-skilaboð sem innihalda hlekki.
  2. Ef þú áttir ekki von á skilaboðum frá viðkomandi aðila skaltu fara sérstaklega varlega. Ertu alveg viss um að skilaboðin séu raunveruleg?
  3. Fölsk smáskilaboð eða tölvupóstar geta verið afar sannfærandi í útliti. Textinn getur líka verið villulaus og á góðri íslensku (eða öðru tungumáli).
  4. Algeng leið til svika er að afrita raunverulegar vefsíður (t.d. netbanka). Svikasíðurnar geta litið nákvæmlega eins út og raunverulegar síður.
  5. Ef þú hefur smellt á hlekk sem færir þig yfir á vefsíðu eða app skaltu aldrei gefa upp aðgangsupplýsingar að netbanka, kreditkortaupplýsingar eða aðrar viðkvæmar upplýsingar. Þú skalt frekar fara inn á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis eða stofnunar eftir venjulegum leiðum og skrá þig inn þar.
  6. Bankar senda þér aldrei hlekki sem leiða inn á netbanka eða app þar sem þú þarft að skrá þig inn.
  7. Bankar hafa aldrei samband að fyrra bragði, t.d. með því að senda skilaboð, og biðja þig um að slá inn aðgangsupplýsingar að netbankanum, kreditkortanúmer eða annað slíkt.
  8. Svikarar stunda einnig að hringja í fólk til að blekkja það til að gefa upp kreditkortanúmer, aðgangsupplýsingar að netbönkum eða aðrar slíkar upplýsingar.
  9. Ef þú hefur gefið upp notendanafn og lykilorð á falskri síðu er mikilvægt að breyta lykilorðinu þínu strax.

Hvað á ég að gera ef ég verð fyrir svikum?

Ef þig grunar að þú hafir orðið fyrir svikum hafðu samband við viðskiptabankann þinn sem fyrst. Þú getur haft samband við Landsbankann í síma 410 4000, með því að senda okkur tölvupóst á landsbankinn@landsbankinn.is og með því að hafa samband á Messenger. Þú getur tilkynnt lögreglu um svikin með því að senda tölvupóst í netfangið cybercrime@lrh.is.

Ef kortinu eða kortanúmerinu þínu er stolið getur þú fryst það strax í appinu. Þú getur líka haft samband við okkur (sjá að ofan) eða hringt í Valitor í síma 525 2000.

Landsbankinn hefur birt fjölda fræðslugreina um varnir gegn netsvikum. Við mælum sérstaklega með þessum greinum til sumarlesturs:

Þekktu muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum

Svik í gegnum tölvupóst og smáskilaboð

Falsa fyrirmæli til að svíkja fé út úr fyrirtækjum

Þú gætir einnig haft áhuga á
4. maí 2018

Þekktu muninn á fölskum og raunverulegum skilaboðum

Líkt og falskir tölvupóstar geta fölsk smáskilaboð verið afar sannfærandi. Þess vegna er mikilvægt að þekkja megineinkenni falskra skilaboða, hvort sem þau koma sem SMS eða með öðrum hætti.
25. apríl 2017

Svik í gegnum tölvupóst og smáskilaboð

Algengt er að reynt sé að blekkja fólk með trúverðugum skilaboðum í tölvupósti sem líta út eins og þau séu frá lögmætum fyrirtækjum. Markmið skilaboðanna eru hins vegar að fá þig til að smella á slóð, hlaða niður hugbúnaði fjársvikara eða opna viðhengi. Þannig komast óprúttnir aðilar yfir upplýsingar eða fjármuni. Þessi aðferð nefnist vefveiðar (e. phishing).
20. des. 2016

Falsa fyrirmæli til að svíkja fé út úr fyrirtækjum

Tilraunum til að svíkja út fé úr fyrirtækjum með því að falsa tölvupósta og gefa fölsk fyrirmæli um greiðslur hefur fjölgað mikið undanfarin ár. Svikahrapparnir undirbúa sig vel til að þeir geti sent trúverðug skilaboð í nafni stjórnenda.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur