Skeið hins al­mátt­uga seðla­banka líð­ur und­ir lok

Arnaud Marès, aðalhagfræðingur í Evrópumálum hjá Citi-banka, hélt erindi á morgunfundi um nýja hagspá Landsbankans 17. október 2023.
18. október 2023

Yfirskrift erindisins var: Skeið hins almáttuga seðlabanka líður undir lok: Þjóðhagslegt umhverfi í Evrópu til skamms og meðallangs tíma. (e. The End of the Era of the Almighty Central Banker: the Macroeconomic Environment in Europe for the Short and Medium-term)

Megininntakið í fyrirlestri Marès var að hagkerfið væri orðið mun óstöðugra og seðlabönkum gengi verr að stuðla að efnahagslegu jafnvægi.

Lýðhyggja gegn alþjóðavæðingu

„Við lifum í tvöföldum skugga, bæði af faraldrinum og stríðinu í Úkraínu,“ sagði hann. Rætur breytinganna væru þó dýpri. Um miðjan síðasta áratug hefðu orðið markverðar breytingar og afleiðingarnar væru nú að koma fram. Bylgja lýðhyggju hefði brotist fram sem viðbragð við alþjóðavæðingu eða uppreisn þeirra sem teldu sig hafa borið skarðan hlut frá borði vegna hennar. Alþjóðavæðingin hefði haft mjög misjöfn áhrif. Víða um heim hefði kaupmáttur aukist og auður hinna ríku vaxið verulega. Alþjóðavæðingin hefði á hinn bóginn gert lítið fyrir verkafólk eða millistéttina í vestrænum löndum og Marès sagði að fyrir þessa hópa snúist lýðhyggjubylgjan að stórum hluta um að ná aftur stjórn á efnahagsþróuninni. Hún hefði haft margt neikvætt í för með sér á borð við Brexit „og ég hef ekki eitt einasta jákvætt orð að segja um Brexit,“ bætti hann við. Kjör Donald Trump í embætti forseta Bandaríkjanna væri angi af sama meiði. Á meðal jákvæðra afleiðinga væri áhersla á umhverfismál, en græna stefnan í Evrópu snerist einnig um að ná stjórn á efnahagsþróuninni.

Erindi Arnaud Marès

Eyðilegging á fjármagni

Marès ræddi um að meginbreytingarnar væru tvíþættar – aðra kenndi hann við aukna áherslu á umhverfismál og græn umskipti en hin snerist um breytingar í alþjóðasamskiptum.

Í tengslum við aukna áherslu á umhverfismál beindu bankar nú sjónum að umhverfisvænum fjárfestingum og grænum viðskiptum. Út frá þjóðhagslegu sjónarmiði væri í raun um að ræða eyðileggingu á fjármagni (e. destruction of capital). Þjóðir ætluðu – af góðum og gildum ástæðum – að hætta starfsemi sem talin væri skaðleg sjálfbæru lífi á jörðinni til framtíðar. Í þessu fælust miklar og í raun ótímabærar afskriftir. „Í staðinn ætlum við auðvitað að fjárfesta gríðarlega í grænum lausnum. En það er einmitt punkturinn minn. Fjárfesting í græna hagkerfinu kemur í staðinn fyrir fjármagn sem við ætlum að úrelda og í raun eyðileggja. Grænu umskiptin draga því úr framboði og stuðla um leið að hærra verði. Sú skoðun að grænu umskiptin ýti undir verðbólgu telst ekki lengur umdeild,“ sagði hann.

Vantraust í samskiptum að aukast

Hin meginbreytingin fælist í breytingum í alþjóðasamskiptum og gjaldfellingu trausts. Í stuttu máli vilja þjóðir ekki lengur treysta á að fá nauðsynlegar vörur og þjónustu frá öðrum þjóðum vegna vantrausts. Listinn yfir þær vörur og þjónustu sem taldar væru nauðsynlegar væri sífellt að lengjast og vantraust í samskiptum þjóða sífellt að aukast, samanber aukna spennu í samskiptum Bandaríkjanna og Evrópu annars vegar og Kína hins vegar. Staðan gagnvart Rússlandi væri annað dæmi.

Þessi staða hefði leitt til þess að þjóðir væru að endurhugsa aðfangakeðjur til að draga úr hæði á aðra og minnka líkur á að verða fyrir áföllum utan frá. Dæmi um þetta væru fjárfestingar Evrópuþjóða í nýjum orkuinnviðum á borð við hleðslustöðvar, ekki til að auka orkuframboð, heldur til að viðhalda því og draga úr hæði á rússneskt jarðgas. Í þessu fælist í raun einnig eyðilegging á fjármagni enda væri með þessu dregið úr framboði sem aftur stuðlar að verðbólgu.

Eingöngu verið treyst á peningastefnuna

Marès benti á að mun erfiðara væri fyrir seðlabanka að bregðast við miklum breytingum á framboði, svokölluðum framboðsskellum, heldur en breytingum á eftirspurn. Búast mætti við að vegna aukinnar spennu í alþjóðamálum myndi ófyrirséðum framboðsskellum fjölga á næstunni. Það væri frekar í verkahring ríkisfjármála en peningastefnu að bregðast við slíkum skellum með því að hafa áhrif á framboð með skattbreytingum, reglubreytingum og öðrum tækjum. „Vandinn er sá að undanfarið hefur stefnan verið sú að treysta nær eingöngu á peningastefnu til að stýra efnahagsmálum,“ sagði Marès.

Hann benti á að það væri munur á sjálfstæði seðlabanka og aðskilnaði seðlabanka. Það væri nefnilega ekki nóg fyrir seðlabanka að breyta peningastefnunni, heldur þyrftu peningastefnan og ríkisfjármálin að vinna saman. Það sem við þurftum væru aðgerðir í ríkisfjármálum sem styddu markmið peningastefnunnar. Erfitt yrði að auka þetta samstarf, enda hefði stefnan verið sú að seðlabankar ættu að sjá um að ná markmiðum peningastefnunnar upp á eigin spýtur, á meðan aðrar stofnanir ynnu að sínum eigin, skilgreindu markmiðum. Þá myndi uppgangur lýðhyggju gera ríkisstjórnum erfitt fyrir að grípa til viðeigandi og e.t.v. sársaukafullra aðgerða. „Það gæti orðið erfitt að útskýra fyrir fólki að það þurfi að draga úr neyslu til að hægt sé að auka fjárfestingar,“ sagði hann.

Marès lauk erindi sínu á að segja að á næstu 5, 10 eða 15 árum mætti búast við meiri og sveiflukenndari verðbólgu en áður. Til að hemja verðbólguna yrðu seðlabankar að hafa vexti hærri en ella og vextir myndu einnig verða sveiflukenndari. Þetta hefði meðal annars í för með sér hærra verðbólguálag á mörkuðum.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hagspá 2023
17. okt. 2023
Hagspá 2023-2026: Hagkerfi í leit að jafnvægi
Eftir að hafa ofhitnað í kjölfar Covid-faraldursins hefur hægt á hagkerfinu og ljóst að hagvöxtur verður töluvert minni í ár en í fyrra. Hátt vaxtastig hefur tekið að slá á eftirspurn, bæði einkaneyslu og fjárfestingu og útlit er fyrir að verðbólga hjaðni hægt og rólega á næstu mánuðum. Við teljum að Seðlabankinn hækki vexti ekki meira í bili en sjáum ekki fram á að vextir fari að lækka fyrr en á öðrum ársfjórðungi næsta árs. Við spáum því að stýrivextir verði komnir niður í 4,25% í lok árs 2026.
Hlaðvarp
19. okt. 2023
Spjall um spá: Hagkerfi í leit að jafnvægi
Hófstilltur hagvöxtur, háir vextir og hjaðnandi verðbólga. Þetta er á meðal þess sem einkennir efnahaginn næstu ár, samkvæmt nýrri hagspá Hagfræðideildar bankans. Í nýjasta þætti Umræðunnar ræða hagfræðingarnir Hildur Margrét Jóhannsdóttir og Hjalti Óskarsson efnahagshorfurnar og fara yfir það helsta úr spánni.
17. okt. 2023
Morgunfundur um hagspá til 2026 - upptökur
Hagspá Landsbankans til ársins 2026 var kynnt á morgunfundi í Silfurbergi Hörpu miðvikudaginn 17. október 2023 og í kjölfarið spunnust líflegar pallborðsumræður um verðbólgu, vexti og vinnumarkaðinn.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur