Ferðamannasumarið byrjar vel
![Flugvél](https://images.prismic.io/landsbankinn/e1391961-f110-41dc-ac25-5e13f760329c_Flugvel-loftmynd.jpg?fit=max&w=3840&rect=324,556,1099,618&q=50)
Brottfarir erlendra ferðamanna voru um 158 þúsund í maí sem gerir þennan maímánuð þann næststærsta á eftir maí árið 2018 þegar brottfarir voru 165 þúsund. Í síðasta mánuði voru brottfarirnar um 142 þúsund. Í nýjustu Þjóðhags- og verðbólguspá Hagfræðideildar spáðum við því að hingað kæmu 2,1 milljón ferðamenn en fjöldi síðustu mánaða bendir til þess að þeir gætu orðið þó nokkuð fleiri.
Bandaríkjamenn langfjölmennastir
Um 41 þúsund Bandaríkjamenn komu til landsins í maí, og áttu 25,7% af heildarfjölda brottfara. Tíu fjölmennustu þjóðernin áttu 69,3% hlutdeild í heildarfjölda ferðmanna. Í síðasta mánuði var hlutdeildin 72%, en eftir því sem nær dregur sumri verður samsetning ferðamanna fjölbreyttari. Pólverjar voru næststærsti hópurinn, eða um 15 þúsund, en ætla má að stór hluti þeirra séu búsettir hér á landi. Þá voru Frakkar þriðji fjölmennasti hópurinn með rúmlega 10 þúsund brottfarir og Þjóðverjar þar á eftir með rúmlega 9 þúsund brottfarir.
Lítil breyting í ferðalögum Íslendinga
Íslendingar fóru 62 þúsund ferðir um Keflavíkurflugvöll í maí, ef aðeins eru taldar brottfarir. Þetta er þriðji stærsti maímánuður þegar kemur að brottförum Íslendinga og ferðirnar eru álíkamargar og í maí í fyrra. Þó ferðavilji Íslendinga til útlanda sé töluverður, þá virðist hann ekki lengur vera að aukast með sama hætti og komur erlendra ferðamanna hingað.
Dvalarlengd ferðamanna lengri en fyrir faraldur
Hagstofan birtir gögn yfir skráðar gistinætur á Íslandi og áætlar auk þess fjölda óskráðra gistinótta. Tölur fyrir maí eru ekki komnar en séu skráðu og óskráðu gistinæturnar fram í apríl teknar saman eru gistinætur á hvern ferðmann fleiri en þær voru árin 2017 og 2018, en álíka margar og árin 2019 og 2022 sem bendir til þess að ferðamenn dvelji að meðaltali álíka lengi og þá. Árin sem faraldurinn stóð yfir eru ekki samanburðarhæf.
Bíleigubílum í umferð fjölgar
Bílaleigubílum í umferð heldur áfram að fjölga og þeir hafa aldrei verið fleiri. Ef fram heldur sem horfir og ferðamenn verða fleiri en 2,1 milljón þá veitir ekki af.
Fyrirvari
Innihald og form þessarar greiningar er unnið af starfsfólki Hagfræðideildar Landsbankans hf. (hagfraedideild@landsbankinn.is) og byggist á aðgengilegum opinberum upplýsingum á þeim tíma sem greiningin var unnin. Mat á þeim upplýsingum endurspeglar skoðanir starfsfólks Hagfræðideildar Landsbankans á þeim degi þegar greiningin er dagsett, en þær geta breyst án fyrirvara. Landsbankinn hf. og starfsfólk hans taka ekki ábyrgð á viðskiptum sem byggð eru á þeim upplýsingum og skoðunum sem hér eru settar fram, enda eru þær ekki veittar sem persónuleg ráðgjöf fyrir einstök viðskipti. Bent skal á að Landsbankinn hf. getur á hverjum tíma haft beinna eða óbeinna hagsmuna að gæta, ýmist sjálfur, dótturfélög hans eða fyrir hönd viðskiptavina, s.s. sem fjárfestir, lánardrottinn eða þjónustuaðili. Greiningar eru engu að síður unnar sjálfstætt af Hagfræðideild Landsbankans og innan Landsbankans eru í gildi reglur um aðskilnað starfssviða sem eru aðgengilegar á vef bankans.![Hlaðvarp](https://images.prismic.io/landsbankinn/a71b6363-993d-4068-ac65-875969d293b6_1440x1080-Hjalti-Maja.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,0,3000,2250&q=50)
![](https://images.prismic.io/landsbankinn/8df46a5c-0e97-4436-a8d2-7d1b697164fa_Hestar-i-haga-1500.jpg?fit=max&w=3840&rect=0,0,1335,1001&q=50)