Svanni held­ur áfram að styðja frum­kvöðl­ast­arf kvenna

Svanni – lánatryggingasjóður eflir konur í fyrirtækjarekstri og stuðlar þannig að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi. Vorúthlutun sjóðsins fór fram nýverið og hlutu fjögur spennandi frumkvöðlafyrirtæki fyrirgreiðslu. Landsbankinn er stoltur bakhjarl Svanna.
Svanni
10. júní 2021 - Landsbankinn

Svanni hefur það að markmiði að efla konur í fyrirtækjarekstri og auka aðgengi þeirra að fjármagni til að hrinda hugmyndum sínum í framkvæmd. Sjóðurinn er í eigu forsætisráðuneytis, atvinnu- og nýsköpunarráðuneytis og Reykjavíkurborgar og á í góðu samstarfi við Landsbankann, sem veitir lánin. Sjóðurinn veitir lánatryggingar til fyrirtækja í meirihlutaeigu kvenna og er liður í viðleitni stjórnvalda til að efla atvinnulíf og hvetja til nýsköpunar.

Úthlutun fer fram tvisvar á ári, og eru upphæðirnar á bilinu þrjár til tíu milljónir króna. Alls bárust sjóðnum 12 umsóknir fyrir þessa úthlutun og þar af voru fjórar samþykktar.

Svanni hefur nú þegar skipt sköpum fyrir fjölda fyrirtækja og skilað mikilli verðmætaaukningu. Tugir fyrirtækja hafa notið liðsinnis Svanna á leið sinni í átt að velgengni og sýnt er að þörfin á sjóði sem slíkum er mikil. Fyrirtækin sem fyrir valinu urðu að þessu sinni eru Fæðingarheimili Reykjavíkur, Justikal, Eylíf og FÓLK. Forsvarskonur þessara ólíku og áhugaverðu fyrirtækja eru á einu máli um að liðsinni Svanna sé þeim afar mikilvægt.

Frá vinstri: Sigríður A. Árnadóttir, Landsbankinn, Embla Ýr Guðmundsdóttir, Fæðingarheimili Reykjavíkur, Ólöf Rún Tryggvadóttir, Eylíf, Arnheiður K. Gísladóttir, Landsbankinn, Margrét Anna Einarsdóttir, Justikal, Ragna Sara Jónsdóttir, FÓLK og Guðrún Tinna Ólafsdóttir, formaður stjórnar Svanna -lánatryggingasjóðs kvenna.

Sjálfbær íslensk hönnun fyrir alþjóðlegan markað

„Við erum íslenskt hönnunarmerki sem þróar, markaðssetur og selur hönnun eftir íslenska hönnuði,“ segir Ragna Sara Jónsdóttir, stofnandi og eigandi FÓLK. „Ein leið til að útskýra hvað FÓLK gerir er að líkja fyrirtækinu við bókaforlag sem gefur út íslenska hönnun hér á landi og alþjóðlega. Fyrirtækið vinnur með hönnuðinum á þróunartímanum eins og ritstjóri, stjórnar framleiðslunni, markaðssetur og selur vörurnar á Íslandi og alþjóðlega. Framleiðslan sem er til sýnis og sölu í nýja pop-up rýminu okkar á Hafnartorgi er til dæmis gerð fyrir FÓLK á Íslandi, í Tékklandi, Póllandi og Ítalíu. Við höfum ávallt hugfast að við þurfum að hugsa okkar rekstur í alþjóðlegu samhengi og einnig til langs tíma. Dags daglega reynum við að halda kostnaði niðri eins og mögulegt er og að byggja upp hagkvæma ferla. Það er magnað hvað hægt er að spara mikinn tíma og peninga með góðum ferlum. Þá er mikilvægt í mínum huga að byggja upp þekkingu og halda vel utan um hana til að deila henni svo við séum fljótari að tileinka okkur nýjar aðferðir í síbreytilegum heimi.“

Hvaða þýðingu hefur lánveiting Svanna fyrir reksturinn?

„Hún hefur gríðarlega mikla þýðingu. Fyrirtæki eins og okkar, sem stundar vöruþróun, oft og tíðum með nýjum aðferðum og hráefnum, þarf fjármagn til að koma undir sig fótunum. Það er mjög jákvætt og mikilvæg traustsyfirlýsing að Landsbankinn og Svanni séu tilbúin að styðja okkur í að byggja upp vörur sem taka útgangspunkt í sjálfbærni og hringrás hráefna. Verkefnið fyrir heiminn er stórt og spennandi.“

Að sögn Rögnu Söru eru helstu áskoranir nýsköpunarfyrirtækja forgangsröðun verkefna. „Það þarf að vera þolinmóður og hugsa til langs tíma. Það tekur tíma í byrjun að byggja upp þekkingu og grunn en síðan ganga hlutirnir stöðugt hraðar fyrir sig. Þetta á til dæmis við um vöruþróun okkar þar sem það tók okkur 1-2 ár að koma með fyrstu vöruna en nú fyrir HönnunarMars náðum við að skapa átta nýjar vörur á nokkrum mánuðum. Vinnan verður stöðugt auðveldari og vöxturinn meiri en það þarf að sýna verkefninu þolinmæði í byrjun. Ég er mjög bjartsýn á framtíðina, ef okkur ber gæfa til þess að nota nýsköpun og hönnunarhugsun til að takast á við vandamál nútímans og nauðsynlegt að kvenkyns frumkvöðlar eigi þátt í því verkefni. Það að sterkir aðilar eins og Landsbankinn láni til nýsköpunar í gegnum verkefni eins og Svanna er mikilvægur þáttur í að styðja þessa þróun til betri framtíðar á Íslandi og alþjóðlega,“ segir hún að lokum.

Heilbrigði og vellíðan frá kynþroska til tíðahvarfa

„Hugmyndafræði Fæðingarheimilis Reykjavíkur byggir á því að konur geti á einum stað nálgast þá grunn- og stoðþjónustu sem er til þess fallin að hámarka heilbrigði og vellíðan þeirra allt frá kynþroska til tíðahvarfa. Samfelld þjónusta af þessu tagi er hvergi í boði á Íslandi í dag en er mikilvæg fyrir heilsu, góða upplifun og vellíðan móður og barns,“ segja Embla Ýr Guðmundsdóttir og Emma Marie Swift um fyrirtækið sem þær stofnuðu nýverið.

„Hér munum við veita samfellda og alhliða þjónustu fyrir konur á öllum aldri. Auk barneignarþjónustu munum við veita ráðgjöf tengda þungun og kynheilbrigði ásamt því að ávísa getnaðarvarnarlyfjum og veita ráðgjöf um tíðahvörf. Á Fæðingarheimilinu verður þverfaglegt teymi sérfræðinga og hjá okkur geta konur nálgast aðra mikilvæga stoðþjónustu svo sem sjúkraþjálfun, jóga, nudd, sálfræði- og fjölskylduráðgjöf. Stærsta áskorunin þessa dagana er að finna hentugt húsnæði en við vonumst til að ljúka því fyrir sumarið og geta tekið á móti okkar fyrstu skjólstæðingum fyrir lok árs. Lánið frá Svanna gerir okkur mögulegt að standsetja húsnæði sérsniðið að þörfum Fæðingarheimilisins. Þannig getum við hafið rekstur umtalsvert hraðar en ella og látið drauminn um Fæðingarheimilið rætast.“

Þær Embla Ýr og Emma Marie búa báðar yfir áralangri reynslu af ljósmóðurstörfum á ýmsum þjónustustigum - á hátæknisjúkrahúsi, fæðingarheimili, heilsugæslu og í heimahúsi. „Undanfarin ár höfum við jafnframt sinnt kennslu og rannsóknum við Háskóla Íslands þar sem áhersla okkar hefur verið á hvernig megi styrkja og bæta gæði þjónustu, upplifun og útkomu fæðinga. Þar sem niðurstöður rannsókna leiða skýrt í ljós að samfelld þjónusta ljósmæðra bæti þjónustu við konur - og fáir slíkir möguleikar hafa verið í boði á Íslandi - ákváðum við að láta verkin tala. Okkar markmið er að á Fæðingarheimili Reykjavíkur fái konur og fjölskyldur þeirra samfellda og persónulega þjónustu svo að þetta tímabil í lífi þeirra verði stórkostlega gefandi og magnað fyrir fjölskylduna alla.

Við vitum einnig að styrkur kvenna felst í samfélagi þeirra og þess vegna byggist hugmyndafræði okkar á því að á Fæðingarheimilinu verði til samfélag kvenna og fjölskyldna þeirra sem einkennist af trausti og virðingu. Fæðingarheimilið mun sinna sérstaklega þörfum viðkvæmra hópa og má þar t.d. nefna erlendar konur á Íslandi. Til þess að mæta þörfum þeirra verða öll námskeið og samveruhópar bæði á íslensku og ensku og svo munum við einnig bjóða upp á tækifæri fyrir erlendar konur til að kynnast og mynda hér samfélag sem styrkir þær og eflir.“

Hvað hafið þið að leiðarljósi við reksturinn?

Barneignarferlið er mikilvæg upplifun og tímamót sem við minnumst um ókomna tíð. Fæðingin er auk þess mjög persónulegur viðburður sem er mikilvægt að sinna í umhverfi þar sem konunni finnst hún vera örugg. Það er því markmið okkar að Fæðingarheimili Reykjavíkur bjóði upp á nútímalega og faglega barneignarþjónustu sem styður sérstaklega við félagslega og tilfinningalega aðlögun fjölskyldunnar að nýju hlutverki. Þar ætlum við að veita fræðslu sem styrkir og eflir verðandi og nýja foreldra. Á Fæðingarheimilinu verður einstakt samfélag fyrir konur og fjölskyldur þeirra sem einkennist af virðingu, upplýstu samþykki, trausti og samfelldri þjónustu; samfélag sem styður við þá hugsjón okkar að þetta tímabil eigi að vera stórkostlegt og gefandi. Markmið Fæðingarheimilisins er jafnframt að vera lifandi, hvetjandi og skemmtilegur vettvangur fyrir hverskyns hugmyndir og nýsköpun næstu kynslóðar ljósmæðra. Þess vegna mun Fæðingarheimilið starfa í nánu samstarfi við HÍ og veita nemendum í ljósmóður- og læknisfræði tækifæri til þess að kynnast samfelldri og heildrænni þjónustu og alhliða stuðningi við verðandi og nýja foreldra.“

Að lokum segjast þær Embla Ýr og Emma Marie vera þakklátar fyrir að hafa fengið til liðs við sig frábærar ljósmæður og öfluga stjórn sem styðji vel við bakið á þeim og deili með þeim þessari sýn á umönnun kvenna. „Teymið hefur unnið vel saman þessa fyrstu mánuði og hefur jákvæðni, frumkvæði og orka einkennt alla okkar vinnu. Við hvetjum alla til að fylgjast með verkefninu á vefnum okkar faedingarheimilid.is.“

Heilsuvörulína úr hreinum íslenskum hráefnum

„Frá upphafi hefur hugmyndin að baki Eylíf verið að setja saman í vörulínu hrein íslensk gæðahráefni, framleidd á Íslandi úr sjálfbærum auðlindum. Nafnið vísar í lífið á eyjunni okkar góðu, sjálfbæru hráefnin og eilífðina,“ segir Ólöf Rún Tryggvadóttir, stofnandi og eigandi Eylíf heilsuvara sem þróar, framleiðir og selur heilsuvörur í apótek, heilsuvöruverslanir, verslanir og í vefsölu á eylif.is.

Hráefnin koma víða að af landinu. Þar má nefna kalkþörunga frá Bíldudal, smáþörunga (Astaxanthin) frá Reykjanesbæ, kollagen frá Sauðárkróki, kítósan frá Siglufirði og handtíndar íslenskar jurtir frá hafnfirsku fjölskyldufyrirtæki. „Við útvistum öllum verkefnum til að geta haft aðeins 1-2 starfsmenn. Framleiðslan fer fram á Grenivík, Matís þróar og setur saman blöndurnar, Distica sér um dreifingu í verslanir og sölueftirlit er hjá Artasan. Samfélagsmiðlavinna fer fram hjá Sahara og grafík hjá Undireins. Bókhald og uppgjör er hjá Íslenskum endurskoðendum. Vefsíðan er hjá Basic markaðsstofu. Öllu er verkstýrt frá einu skrifborði í Sjávarklasanum. Þetta lágmarkar kostnað, og fyrirhugað er að hafa svona litla yfirbyggingu áfram, eða eins lengi og mögulegt er.“

Sala á Eylíf vörulínunni hófst í janúar 2020 og hefur gengið vonum framar. „Við byrjuðum með tvær vörutegundir í janúar 2020, sú þriðja kom á markað í október og í mars bættist sú fjórða við. Sú fimmta er komin vel á veg og stefnt er að því að markaðssetja hana í haust. Ég var ein að störfum frá haustinu 2018 þar til nú í mars, þegar ég réð konu til að sinna vöruþróun með ráðningasamning við VMST. Lítil yfirbygging er forsenda þess að komast á flug þar sem um er að ræða nýsköpunarfyrirtæki og því ekki úr miklu fjármagni að moða. Lánveiting Svanna hefur mjög mikla þýðingu því að þá getur fyrirtækið tekið á sig aukakostnað við vöruþróun án þess að vera á yfirdrætti. Ekki þarf þá heldur að bíða með ýmsar prófanir á efnum. Það léttir á öllu ferlinu við vöruþróun.“

Hvað hefur þú að leiðarljósi við reksturinn?

„Leiðarljósið er og verður að nýta þau gæðahráefni sem eru framleidd hér á Íslandi og auðvelda aðgengi almennings að þeim til heilsueflingar. Íslensk hráefni frá náttúrunni eru einstök og hafa margar rannsóknir verið gerðar á öllum þeim sem valin hafa verið í Eylíf vörulínuna. Stefnan hefur frá upphafi verið að bjóða vörurnar til sölu erlendis. Þess vegna eru vöruheitin á ensku, sem og allar upplýsingar á vörumiðanum. Hafist verður handa við útflutning á næsta ári þar sem við erum enn að slíta barnsskónum og fínpússa ýmislegt. Undirbúningur er þó hafinn og hefur Eylíf vörumerkið verið skráð í 30 löndum. Nú bíðum við eftir lokaskráningu í Bandaríkjunum. Við erum búin að stofna Amazon-aðgang en bíðum samþykkis.“

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar?

„Að láta allt ganga upp. Stundum hefur salan verið líflegri en við væntum og við höfum tvisvar lent í vöruvöntun, þar sem það tekur ákveðinn tíma að fá öll hráefnin í hús. Það var ákveðin áskorun að takast á við vörustjórnunina, þar sem sumir framleiðendur gefa sér 8-12 vikur í afhendingartíma á hráefni. Nú hefur þetta allt slípast til og höfum við kappkostað að gæta þess að nægt hráefni og nægar birgðir séu til staðar til að mæta mikilli sölu og eftirspurn. Mín reynsla liggur í sölu- og markaðsmálum en ekki í framleiðsluferlum, þannig að áskoranir hafa komið upp varðandi það ferli, en við erum með trausta og góða samstarfsaðila hjá Pharmarctica í Grenivík, sem hefur verið ómetanlegt.“

Að lokum minnir Ólöf á hversu mikilvægt það er að láta drauma sína rætast. „Ef maður býr yfir viðskiptahugmynd er um að gera að byrja að ræða við fólk, fá upplýsingar, gera áætlun og fá ráðgjöf. Gott er að hafa hugfast að það koma alltaf hindranir. Ef þú hefur nógu mikinn áhuga og eldmóð fyrir verkefninu mun ekkert stöðva þig. Það er gaman þegar vel gengur og það gengur vel þegar það er gaman.“

Sparnaður og verðmætasköpun innan dómskerfisins

Justikal er hugbúnaðarfyrirtæki sem sérhæfir sig í þróun á stafrænum lausnum sem byggja á rafrænum traustþjónustum. „Hugmyndin að Justikal kviknaði með tilkomu nýrrar reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins sem kallast eIDAS reglugerðin. Samkvæmt henni er dómstólum skylt að taka við gögnum á rafrænu formi. Í núverandi horfi gerir íslenska dómskerfið eingöngu ráð fyrir framlagningu gagna á pappírsformi. Justikal er hannað til þess að dómstólar og aðrir opinberir aðilar geti mætt þessum kröfum og tekið á móti, sannreynt og varðveitt m.a. rafrænt undirrituð gögn á rafrænu formi,“ segir Margrét Anna Einarsdóttir, hdl.

„Við þróun lausnar Justikal höfum haft að leiðarljósi að gæta fyllsta öryggis, uppfylla allar kröfur eIDAS reglugerðarinnar og hafa notendaupplifunina sem allra besta. Það skiptir okkur miklu máli að stuðla að jákvæðum umhverfisáhrifum, skapa þjóðhagslegan sparnað og veita framúrskarandi þjónustu. Í lausn Justikal felst ótvíræð innlend verðmætasköpun sem má skipta niður í fimm flokka: Í fyrsta lagi aukna afkastagetu dómstóla, í öðru lagi jákvæð umhverfisleg áhrif, í þriðja lagi tímasparnað lögmanna við framlagningu skjala, í fjórða lagi sparnað við varðveislu dómsgagna og í fimmta lagi annars konar verðmætaaukningu fyrir samfélagið, til að mynda skilvirkara og öruggara réttarkerfi. Samtals gæti lausn Justikal sparað aðilum réttarkerfisins u.þ.b. 3,3 milljarða króna á ársgrundvelli.“

Hvaða þýðingu hefur lánveiting Svanna fyrir reksturinn?

„Þetta er viðurkenning á hugmyndinni og viðskiptalegum markmiðum félagsins. Frumkvöðlar þurfa að leggja á sig gífurlega mikla vinnu til að byggja eitthvað frá grunni. Þess vegna er það mjög mikilvægt að sjóðir eins og Svanni, sem geta stutt félögin á mikilvægum tímum, séu starfræktir.“

Hverjar hafa verið helstu áskoranirnar við stofnun fyrirtækisins?

„Justikal mætti ekki miklum áskorunum við stofnun fyrirtækisins. Fyrirtækið hlaut styrkinn Vöxt frá Tækniþróunarsjóði árið 2018 til að þróa lausn Justikal og gerði sá styrkur okkur kleift að byggja lausnina. Það er hins vegar vissulega áskorun að koma lausn sem er þróuð fyrir opinbera þjónustu á markað.“

Að lokum bendir Margrét á að ljóst sé að gríðarleg verðmæti og mikil hagræðing séu fólgin í rafrænni málsmeðferð fyrir réttarkerfið og stjórnsýsluna. „Við vonumst til að geta boðið markaðnum lausn Justikal á næstu mánuðum.“

Umsóknarfrestur fyrir haustúthlutun Svanna – lánatryggingasjóðs kvenna er 15. september 2021.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Guðrún Tinna Ólafsdóttir
18. jan. 2021
Svanni veitir góðum hugmyndum kvenna brautargengi
 „Svanni eflir konur í fyrirtækjarekstri og gerir þeim kleift að framkvæma góðar hugmyndir. Þannig stuðlar hann að nýsköpun og blómlegu atvinnulífi,“ segir Guðrún Tinna Ólafsdóttir, stjórnarformaður Svanna - lánatryggingasjóðs kvenna. Landsbankinn er bakhjarl sjóðsins sem hefur opnað fyrir umsóknir.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur