Sjálfbærni er framtíðin – þrátt fyrir erfiða fæðingu
Þetta er fjórða greinin um tengsl sjálfbærni og fjármála eftir Ara Skúlason sem hafa birst hér á Umræðunni undanfarið.
Meginrökin á bak við aukið eftirlit eru tvö. Í fyrsta lagi að loftslagsbreytingar séu of stór áhættuþáttur til þess að leyfa fjármálakerfinu að eiga við hann með gömlum og hefðbundnum aðferðum. Í öðru lagi er mikil sannfæring fyrir því að fjárfestar og eigendur hlutabréfa og hlutdeildarskírteina í sjóðum vilji meiri upplýsingar um fyrirtæki og hafi sífellt meiri þörf og áhuga á því en áður að sjá alla myndina.
Æskilegt væri að aukið eftirlit og pressa frá því muni að lokum hjálpa fjármálamörkuðum að verðlauna fyrirtæki sem draga úr losun og minnka kolefnisspor sín í gegnum hærra eignaverð og lægri fjármagnskostnað.
Strangara eftirlit stuðlar að bættum langtímahagsmunum
Með því að koma á stöðlum og regluverki sem skuldbindur fyrirtæki til þess að viðurkenna afleiðingar gerða sinna (sem kannski eru óviljandi) ættu þau að hafa meiri hvata til þess að bæta sig. Því meiri þrýstingur í þá átt að gera upplýsingar nákvæmari og betri, því betri ætti staðan að vera fyrir langtímahagsmuni viðkomandi fyrirtækja og þá markaði sem þau starfa á.
Eftirlitsaðilar stefna að því að mælingar á áhættu ótengdri fjármálum verði jafn öruggar og mælingar á fjármálatengdri áhættu. Það á t.d. við um ESB sem hefur á síðustu árum beitt sér fyrir bættu eftirliti á þessu sviði, enda er stór hluti eigna sjálfbærnisjóða heimsins í Evrópu. Ráðamenn ESB hvetja til aukinna sjálfbærra fjárfestinga og fylgjast mjög grannt með þeim. Innan ESB er stefnt að því að ná fram upplýsingum um loftslagstengda áhættu fyrirtækja í núverandi og komandi starfsemi þeirra.
Þessi markaður hefur ekki verið undir miklu eftirliti fram til þessa, en þróunin er reyndar nokkuð hröð. Hvað gæði mælinga sem líta þarf eftir varðar má líta til fyrirtækjanna sem meta lánshæfi ( t.d. Moody‘s, og S&P), sem eiga sér langa (og misgóða) sögu við mat ríkja og fyrirtækja. Munurinn á mati sömu aðila á lánshæfi er yfirleitt nokkuð keimlíkt, og er fylgnin allt að 99%. Á sama tíma nær samsvarandi fylgni á svið UFS-mælinga varla 50%. Þessi samanburður sýnir að aukin viðleitni til eftirlits og endurskoðunar er nauðsynleg og getur einungis bætt ástandið.
Gamla góða Excel / Tölurnar tala
Til samanburðar má líka skoða ársreikningakerfi fyrirtækjanna, sem UFS-mælingum er reyndar ætlað að falla inn í. Ársuppgjör fyrirtækja eru mun skýrari að öllu leyti og þar er ekkert pláss fyrir siðfræðilegt mat og pólitísk áhrif. Umhverfi endurskoðunar hefur sýnt hversu verðmætt það er fyrir fjármálamarkaðinn að vinna í kerfi endurskoðaðra ársreikninga sem allir treysta og sýna hvernig fyrirtæki eru rekin (einhverjir hnökrar komu reyndar upp í kringum fjármálakreppuna). Upplýsingagjöf á sviði sjálfbærni ætti að reyna að fylgja svipuðum línum.
Flokkunarkerfi valkosta líkt og ESB hefur komið á skipti miklu máli til þess að auðvelda fjárfestum og fjármálaráðgjöfum störf sín við að aðstoða fjárfesta við val á sjálfbærum fjárfestingarkostum. Flokkunarkerfinu er ætlað að varpa ljósi á hvað sé sjálfbær vara og þar skipta fleiri þættir en þeir umhverfislegu líka máli, t.d. félagsmál og stjórnarhættir.
Trúverðugleikinn mun aukast
Sumir telja að það sé þörf á því að sundurliða UFS-hugtakið. Sem regnhlíf yfir umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti sé það of vítt og hljómi meira eins og prédikun en hreyfiafl. Fjárfestingar á grundvelli sjálfbærni munu þó ekki hverfa þar sem aukið eftirlit og endurskoðunarstarf mun líklega auka trúverðugleika þeirra. Sama gildir um ákveðnari vinnubrögð í kringum loforð um stöðvun losunar. Fjárfestar munu halda áfram að hafa fleiri áherslur í kringum fjárfestingar sínar en einungis ávöxtun þannig að það er engin ástæða til annars en að ætla að samþætting loftslagsmála og fjárfestinga haldi áfram að vera gagnleg.