Fjár­mála­heim­ur­inn tók hressi­lega á móti UFS

Fjárfestingar sem byggja á tengslum við umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS, e. ESG) hafa aukist ótrúlega mikið á tiltölulega stuttum tíma. Helst sú þróun auðvitað í hendur við aukinn skilning á loftslagsvánni og brýna nauðsyn til þess að ná árangri þar.
Landslag
29. nóvember 2022

Þetta er önnur greinin af fjórum um tengsl sjálfbærni og fjármála eftir Ara Skúlason sem birtast hér á Umræðunni.

Í tengslum við þessa þróun kom fram aukinn áhugi meðal fjárfesta á því að fá fleira jákvætt út úr fjárfestingum en fjárhagslegan arð. Þarna var einkum um yngri aldurshópa að ræða.

Eins og ég fjallaði um í fyrri grein um tengsl sjálfbærni og fjármála hafa áhyggjur af grænþvotti aukist. Ef fjárfestar telja sjálfbæra kosti ekki vera trúverðuga er hætta á að áhugi á sjálfbærum fjármálum minnki. En um leið hefur umræða um hættu á grænþvotti orðið til þess að dæmi eru um að fjármálafyrirtæki hiki við að bjóða upp á sjálfbæra kosti. Um þetta var m.a. rætt á morgunfundi IcelandSIF sem haldinn var mánudaginn 21. nóvember 2022. Yfirskrift fundarins var: Grænþvottur – Er allt vænt sem vel er grænt? Þar kom fram hjá Hugo Gallagher, aðstoðarframkvæmdastjóra EuroSIF og forstöðumanni stefnumótunar og ráðgjafar, að ástæðan væri sú að með því að bjóða upp á sjálfbæra kosti þyrftu fyrirtækin að undirgangast strangt regluverk og aðhald, bæði frá eftirlitsaðilum en ekki síður frá fjölmiðlum og almenningi. Hættan á orðsporstjóni eða sektum ef fjárfestingarnar stæðust ekki kröfur væri af sumum talin of mikil.

Það eru því tvær hliðar á þessum peningi, annars vegar þörf fyrir betri reglur, samræmingu og eftirlit, en hins vegar er hætta á að gengið verði of langt í þessum efnum þannig að áhuginn á að bjóða upp á sjálfbærar lausnir minnki.

Hægt er að nálgast upptöku af fundi IcelandSIF hér

Aukin hætta á grænþvotti samfara auknu framboði

Áhuginn á sjálfbærum fjármálum hefur vissulega aukist og sjóða- og eignastýringarfyrirtækin hafa unnið vel úr þessum áhuga. Það gildir ekki síst um stóru eignastýringarhúsin eins og BlackRock, State Street Global Advisors og Vanguard. Þessi fyrirtæki eru það stór að UFS-tengdar fjárfestingar eru óverulegur hluti eigna þeirra, en þau eru engu að síður stór á UFS-markaðnum. Því er málum svo komið að starfsemi sem í upphafi var hrundið af stað af hugsjónafólki um siðrænar fjárfestingar hefur verið yfirtekin af stærstu eignastýringarhúsum heimsins.

Á grundvelli aukins áhuga á grænum fjárfestingum hefur þessum fyrirtækjum tekist að innheimta hærri gjöld fyrir UFS-tengdar fjárfestingar en fyrir þær hefðbundnu. Samhliða halda fyrirtækin því iðulega fram að UFS-sjóðir nái að jafnaði betri ávöxtun en aðrir sjóðir, þótt slíkar staðhæfingar byggi oft á hæpnum grunni.

Eitt af markmiðum þessara fyrirtækja er að fá ungt fólk sem hefur áhuga á grænum fjárfestingum í viðskipti. Með þessari starfsemi hefur þeim líka tekist að hægja á þróun í átt til sílækkandi þóknana við stýringu sjóða. Rannsóknir Morningstar hafa þannig sýnt að þóknanir sem eignastýringarfyrirtæki taka eru hærri fyrir sjóði sem tengjast sjálfbærni og UFS en þau taka fyrir hefðbundna sjóði. Í umfjöllun The Economist var því haldið fram að sókn þessara fyrirtækja eftir hærri þóknunum og betri afkomu skapi aukna hættu á grænþvotti með þeim hætti að áhersla á UFS-þætti í kynningum og auglýsingum sé meiri en efni standa til.

Eru grænar fjárfestingar í raun arðbærari?

Það er erfitt að sýna fram á að UFS-tengdar fjárfestingar gefi alltaf meira af sér en hefðbundir sjóðir. UFS-sjóðum hefur gengið vel á síðustu árum, en það er mikið til vegna þess að þeir hafa fjárfest mikið í vaxtarfyrirtækjum eins og stóru tæknifyrirtækjunum, t.d. Apple, Microsoft, Alphabet og Amazon. Hærra vaxtastig og stríðið í Úkraínu hafa haft mjög neikvæð áhrif á þessa sjóði á þessu ári. Þó að núverandi orkuskortur í Evrópu hafi undirstrikað þörf fyrir aukna hreina orku hafa hlutabréf í fyrirtækjum á sviði jarðefnaeldsneytis hækkað mun meira en í hreinum orkufyrirtækjum. Staðan hefur því breyst og nánast snúist við upp á síðkastið.

Skortur á skilgreiningum

Á síðustu árum hefur líka verið erfitt að sjá mun á milli hefðbundinna sjóða og þeirra sem eru sagðir byggja á sjálfbærni. Í fyrra kom fram reglugerð frá Evrópusambandinu um upplýsingagjöf þar sem sjóðum var gert að flokka sig á þrjá vegu miðað við metnað þeirra hvað varðar sjálfbærni. Lægsti flokkurinn (6. grein) er fyrir venjulega sjóði. Sá næsti (8. grein) er fyrir sjóði með ákveðna UFS-eiginleika. Sjóðir í flokki 8 hafa flestir áhuga á að ná flokkun í hæsta flokknum (9. grein) sem eru fyrir sjóði þar sem UFS er meginatriðið. Það hefur því verið mikil viðleitni innan sjóða í 8. grein að endurskilgreina sig til þess að uppfylla skilyrði til þess að komast í efsta flokkinn. Í því sambandi skiptir miklu máli að vita hvort þær breytingar sem sjóðirnir gera til þess að hækka um flokk séu raunverulegar eða ekki.

Það eru því ekki skýr skil á milli hefðbundinna sjóða og þeirra sem byggja á tengingum við UFS. Til þess að gera myndina stöðugri gætu eignastýringarhúsin búið til sjóði með betur skilgreind fjárfestingarsvið, loftslagssjóði fyrir þá sem vilja stuðla að minni losun gróðurhúsalofttegunda, félagslega sjóði fyrir þá sem vilja fjárfesta í mannauði og félagsmálum og stjórnarháttasjóði fyrir þá sem vilja bæta stjórnun og stjórnarhætti. Ef vilji er til þess að bjóða upp á sjóði sem snúast fyrst og fremst um sjálfbærni mætti markaðssetja þá sem áhrifasjóði.

Villta vestrið þarfnast betra eftirlits og regluverks

Eins og áður segir hafa stóru eignastýringarhúsin í heiminum komið inn á vettvang félagslegra fjárfestinga með öflugum hætti og hafa haft mikið að segja um þróun mála á þessum markaði sem hefur stundum verið líkt við villta vestrið á síðustu árum. Þróunin hefur verið hröð og dálítið villt. Eins og fram kom hér að framan hefur þessum fyrirtækjum tekist að innheimta hærri þóknanir og afla sér meiri viðskipta en ella á grunni fullyrðinga um að árangur félagslegra fjárfestinga sé meiri og betri en af öðrum möguleikum. Myndin er því miður ekki alltaf raunsönn og þessi nýi heimur þarfnast mun betra eftirlits og regluverks til þess að losna við stimpil villta vestursins.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Landslag
18. nóv. 2022
Það vantar betri gögn um tengsl sjálfbærni og fjármála
Með því að beina fjármagni í atvinnugreinar og fyrirtæki sem hafa jákvæð áhrif á loftslagsvandann eða a.m.k. síður neikvæð, getur fjármálageirinn stuðlað að miklum breytingum til hins betra. En er fjármálageirinn að standa sig?
Landslag
8. des. 2022
Mikilvægi mælinga á sjálfbærni og hegðun fyrirtækja
Hugmyndin á bak við einkunnagjöf um umhverfismál, félagslega þætti og stjórnarhætti (UFS) er að mæla hversu vel fyrirtæki standa gagnvart annarri áhættu en fjármálaáhættu þannig að einkunnin gæti haft áhrif á verðlagningu fyrirtækisins. Þannig getur árangur fjárfestinga verið háður því hvernig UFS er mælt.
Landslag
15. des. 2022
Sjálfbærni er framtíðin – þrátt fyrir erfiða fæðingu
Eftirlit með fjárfestingum sem tengjast umhverfismálum, félagslegum þáttum og stjórnarháttum (UFS, e. ESG) er að aukast um allan heim. Það gildir jafnt um Bandaríkin, Evrópusambandið og alþjóðlegu samtökin IFRS sem fást við reikningsskilastaðla.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur