Ís­land langt frá lofts­lags­mark­mið­um

Ísland hefur ásamt Noregi og Evrópusambandinu sett sér markmið um 55% samdrátt heildarlosunar gróðurhúsalofttegunda fyrir árið 2030, miðað við árið 2005 sem upprunalega miðaðist við 1990. Auk þess skal kolefnishlutleysi náð árið 2040. En hvernig gengur? Og hvernig spilar kolefnisjöfnun þar inn í?
10. nóvember 2022

Á grafinu hér að neðan sjáum við að Ísland er mjög mikill eftirbátur hinna ríkjanna að samkomulaginu í að draga úr losun. Þvert á móti hefur Íslandi tekist að auka losun um 22,5% árið 2020 miðað við grunnárið 1990. Aukningu í útblæstri á undanförnum árum má að stærstum hluta rekja til aukinnar ferðaþjónustu. Samdrátturinn sem varð á árunum 2019-2020 má síðan rekja til samdráttar í greininni.

Vissulega hefur dregið verulega úr losun frá árinu 2018 en nýútgefnar tölur Hagstofunnar sýndu að losun hefur aftur aukist árið 2021, eins og fjallað var um í hagsjá Hagfræðideildar Landsbankans. Nágrannaþjóðum okkar hefur tekist betur til en Evrópusambandið hefur t.a.m. minnkað losun sína um 32% og Bretland um 49%. Á heildina litið er þó langt í land, sérstaklega hjá Íslandi.

Kolefnisjöfnun er ekki að það sama og kolefnisjöfnun

Til að sporna gegn loftslagsbreytingum og hlýnun jarðar þurfum við fyrst og fremst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Leiðin til vistvænna lífs er m.a. sú að draga úr óþarfa neyslu og velja vistvæna, en um leið hagkvæma neyslusamsetningu, endurvinna eftir fremsta megni úrganginn sem eftir verður, spara orku, minnka matarsóun og velja vistvænni samgöngumáta. Flest þekkjum við þær aðferðir og leiðir sem beita má til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Þegar ekki er lengur hægt að draga úr losun með hefðbundnum leiðum hefur gjarnan verið gripið til þess ráðs að „kolefnisjafna“ neyslu eða rekstur.

Kolefnisjöfnun felst í því að jafna út losun koltvísýrings (CO2) eða annarra gróðurhúsalofttegunda (mælt í CO2 ígildum) með því að draga úr losun þessara lofttegunda annars staðar í aðfangakeðjunni. Þannig má segja að kolefnisjöfnun felist í að einstaklingur eða fyrirtæki bæti upp eigið kolefnisfótspor með því að fjarlægja viðlíka magn gróðurhúsalofttegunda úr andrúmsloftinu eða komi í veg fyrir að sama losun gróðurhúsalofttegunda eigi sér stað hjá öðrum. Þetta gera einstaklingar og fyrirtæki með því að leggja verkefnum sem hafa þessi áhrif til fjármagn. Sem dæmi má nefna að Landsbankinn kolefnisjafnar losun frá beinum rekstri sem ekki var hægt að koma í veg fyrir með kaupum á vottuðum kolefniseiningum þar sem binding hafði þegar átt sér stað.

Kolefniseiningar þurfa að vera vottaðar ef þær eru keyptar í þeim tilgangi að kolefnisjafna útblástur einstaklinga, opinberra aðila eða fyrirtækja. Vottun samkvæmt staðli Alþjóðasamtaka seljenda kolefnisvottorða eininga (ICROA) er talin vera trúverðugasta trygging á vottun kolefniseininga sem fáanleg er í dag.[1] Vert er að taka fram að hingað til hafa ýmis íslensk fyrirtæki boðið upp á kolefnisjöfnun en ekkert þeirra býður upp á vottaðar kolefniseiningar samkvæmt ICROA-staðli.

Hvað þýðir að binding hafi þegar átt sér stað?

Fjögur til fimm tré geta bundið alla losun af flugferð sem losar 500 kg af koltvísýringi (eins og til Kaupamannahafnar og til baka) og þar með kolefnisjafnað neysluna. Þeir útreikningar miðast þó við fullvaxta tré, ekki tré sem er gróðursett núna. Það tekur tré áratugi að vaxa og ná þroska til að binda losunina í þessu dæmi á meðan koltvísýringinum eftir flugferðina er sleppt út í andrúmsloftið samstundis. Þannig er mikilvægt að árétta að kolefnisjöfnun á sér ekki stað þegar tré eru gróðursett heldur þegar trén eru orðin fullvaxta - þá fyrst er hægt að tala um kolefnisjöfnun. Vegna þessara tímatengdu áhrifa skiptir höfuðmáli að ganga úr skugga um að fjármögnun á kolefnisjöfnunarverkefnum leiði til þess að koltvísýringurinn sé tekinn úr umferð strax en ekki eftir áratugi.

Í því ljósi er skýr munur á kolefniseiningum í bið og varanlegum kolefniseiningum en munurinn er sá að fyrrnefndu einingarnar geta kolefnisjafnað neyslu í framtíð á meðan varanlegar einingar kolefnisjafna strax.

Gæðatrygging og gegnsæi á heimavelli

Nýverið birtu Íslenskir staðlar nýja tækniforskrift um kolefnisjöfnun sem hefur verið í vinnslu í þónokkurn tíma. Ástæða útgáfu þessarar tækniforskriftar er ákall hagsmunaaðila um að komið væri á kerfi um kolefnisjöfnun þar sem yfirlýsingar fyrirtækja um kolefnisjöfnun þóttu ótrúverðugar og í raun óraunhæfar. Með nýrri tækniforskrift geta fyrirtæki kolefnisjafnað þann hluta rekstrar sem ekki er hægt að hindra að losi gróðurhúsalofttegundir og fengið óháða vottun á ferlið sjálft. Með skrefum sem þessum er ljóst að gagnsæi og trúverðugleiki kolefnisjöfnunar eykst.

Ábyrg kolefnisjöfnun er allra hagur

Eins og sést á grafinu að ofan á Ísland langt í land með að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Það er algjört lykilatriði að tryggja að íslensk kolefnisverkefni geti staðist alþjóðlegar kröfur og að einstaklingar og sérstaklega fyrirtæki stundi ábyrga kolefnisjöfnun. Fleiri aðilar hafa sótt um alþjóðlega vottaðar einingar og verður spennandi að fylgjast með gangi máli á því sviði. Með því móti á sér stað fjárfestingar í nýsköpun og atvinnuuppbyggingu, með auknum hagvexti og velsæld fyrir komandi kynslóðir.

Árni Páll Árnason starfar í sjálfbærniteymi Landsbankans.

1 Til dæmis samkvæmt leiðbeiningum Umhverfisstofnunar.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Vindmyllur og raflínur
8. nóv. 2022
Loftslagsráðstefnan - blendnar hugmyndir um árangur
Um þessar mundir sitja leiðtogar heimsins saman í Egyptalandi og ræða saman um loftslagsmál. Á sama tíma í fyrra horfðu allir til Glasgow og COP26 fundarins.
31. okt. 2022
Losun gróðurhúsalofttegunda komin á sama stig og fyrir faraldur
Losun gróðurhúsalofttegunda jókst um 3,4% á árinu 2021 eftir verulega minnkun næstu tvö ár þar á undan. Samkvæmt tölum Hagstofu Íslands var heildarlosun hagkerfisins 2021 þó um 21% minni en á árinu 2018.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur