Hreyst­ineist­inn kveikt­ur hjá krökk­un­um

„Tilgangur Skólahreysti var að kveikja aftur þennan hreystineista sem okkur fannst vera að deyja út,“ segir Andrés Guðmundsson, sem stofnaði keppnina með eiginkonu sinni, Láru B. Helgdóttur, árið 2005. Skólahreysti öðlaðist fljótt miklar vinsældir meðal krakkanna og síðustu tíu árin hafa um 110 af 120 skólum á landinu tekið þátt í keppninni.
5. maí 2021 - Landsbankinn

Hugsjón þeirra hjóna fólst í því að hvetja krakka til þess að vinna saman í alhliða íþróttakeppni. „Við vildum búa til keppni þar sem strákar og stelpur gætu unnið saman í jafnvægi, skipt á milli sín greinum og gert þetta saman á allan hátt. Ég segi það og stend við það að okkur hefur tekist að kveikja þennan neista hjá alveg fullt af krökkum á Íslandi.“

Skólahreysti er liðakeppni milli grunnskóla landsins. Hvert lið samanstendur af tveimur stelpum og tveimur strákum úr níunda og/eða tíunda bekk. Keppt er í æfingum þar sem keppendur vinna að mestu með eigin líkama, svo sem í armbeygjum, upphífingum og hraðaþraut. Keppnin verður haldin í sautjánda skipti í maí 2021. Undankeppnir eru svæðisbundnar um allt land og úrslitakeppnin fer svo fram í Laugardalshöll.

Andrés leggur jafnframt áherslu á þá athyglisverðu staðreynd að um 10% keppenda í úrslitum Skólahreysti á hverju ári koma ekki úr skipulögðu íþróttastarfi. „Þetta eru krakkar sem koma inn til íþróttakennarans og segjast vilja taka þátt í Skólahreysti og byrja að æfa sig.“

Keppendur á heimsmælikvarða

Andrés er smiður og hannar þrautirnar sjálfur. „Við erum sífellt að leita nýrra leiða til að bæta og styrkja keppnina. Þrautirnar eru hannaðar út frá hugmyndinni um alhliða hreysti. Við erum svo miklir fullkomnunarsinnar, þetta þarf allt að vera pörfekt,“ segir Andrés léttur í lund.

Um sjö hundruð keppendur taka þátt á hverju ári og Andrés segir þau hjónin afar ánægð að sjá marga fyrrverandi keppendur í Skólahreysti ná í fremstu röð á heimsvísu. „Við erum auðvitað mjög stolt af því að fá að vinna með þessum krökkum. Við eigum keppendur á heimsmælikvarða í flestöllum íþróttagreinum.“

Landsbankinn hefur verið aðalbakhjarl Skólahreysti frá árinu 2014.

Þú gætir einnig haft áhuga á
18. júní 2020
Háttvísi skiptir máli
Háttvísiverðlaun Landsbankans og KSÍ eru ný verðlaun sem standa mótshöldurum knattspyrnumóta yngri flokka til boða í sumar. Með verðlaununum viljum við verðlauna háttvísi og heiðarlega framkomu allra sem að mótum koma. Á þetta fyrst og fremst við leikmenn, en ekki síður þjálfara, foreldra, áhorfendur og aðra aðstandendur.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur