Veik­ari króna stuðl­ar að verð­bólgu og dreg­ur úr lík­um á frek­ari vaxta­lækk­un­um

Verðbólga hefur aukist nokkuð síðan í janúar 2020. Í janúar var verðbólga 1,7% en var komin í 3,5% í september. Það er mesta verðbólga síðan í maí 2019 en þá var verðbólgan 3,6%.
Bananar í verslun
20. október 2020 - Hagfræðideild

Aukin verðbólga á árinu skýrist fyrst og fremst af gengisáhrifum. Þannig hefur framlag innfluttra vara aukist úr 0,3 prósentustigum í janúar í 1,9 prósentustig í september.

Framlag þjónustu hefur á hinn bóginn lækkað úr 0,6 prósentustigum í janúar í 0,4 prósentustig í september.

Framlag húsnæðiskostnaðar er svipað og í janúar.

Framlag bensíns er aftur á móti til lækkunar, en heimsmarkaðsverð á bensíni hefur lækkað töluvert á árinu.

Verðbólga að mestu leyti innan vikmarka frá ársbyrjun 2013

Þrátt fyrir þessa hækkun á verðbólgunni frá því í janúar er hún enn innan vikmarka 2,5% verðbólgumarkmiðs Seðlabanka Íslands (+/- 1,5%). Verðbólgan hefur að langmestu leyti haldist innan vikmarka frá ársbyrjun 2013.

Gerum ráð fyrir að krónan standi nokkurn veginn í stað það sem eftir lifir árs og á næsta ári

Í spánni sem Hagfræðideild gaf út í maí á þessu ári gerðum við ráð fyrir að evran stæði í 160 krónum í lok árs 2020. Hún er núna í kringum 162 krónur. Í þessari spá gerum við ráð fyrir að hún verði á svipuðum stað og hún er nú í lok árs 2020. Í þjóðhagsspá Hagfræðideildar er reiknað með að þróun Covid-19-faraldursins verði í grófum dráttum þannig að almennu hjarðónæmi verði náð á Íslandi og helstu viðskiptalöndum okkar á þriðja ársfjórðungi 2021. Þetta mun hafa tvíþætt áhrif á krónuna. Í fyrsta lagi ætti innstreymi erlendra ferðamanna að aukast aftur með tilsvarandi gjaldeyristekjum. Í öðru lagi ætti það að skila sér í aukinni bjartsýni á gengi krónunnar, en væntingar hafa jafnan töluverð áhrif á gengi gjaldmiðla. Gangi þetta eftir gerum við ráð fyrir að krónan standi nokkurn veginn í stað árið 2021 en styrkist nokkuð árin 2022 og 2023.

Áhrif af veikingu krónunnar fjara út þegar líður á næsta ár

Við gerum nú ráð fyrir að verðbólga fari hæst í 4% í upphafi næsta árs og verði einkum knúin af veikingu krónunnar það sem af er þessu ári. Forsenda fyrir hjöðnun verðbólgunnar á næsta ári er að gengi krónunnar verði tiltölulega stöðugt. Gangi það eftir er útlit fyrir að verðbólgan lækki hratt í ljósi grunnáhrifa frá fyrra ári og að stór hluti verðbólgunnar nú sé hækkun á innfluttum vörum. Þrátt fyrir mikinn framleiðsluslaka í hagkerfinu er töluverður kostnaðarþrýstingur framundan vegna kjarasamningsbundinna launahækkana. Því má búast við að verðbólga verði lítillega yfir markmiði á seinni hluta spátímans.

Óbreyttir stýrivextir út þetta ár og næsta

Ef verðbólga væri nær markmiði mætti færa góð rök fyrir frekari vaxtalækkunum. Það verður hins vegar að teljast ólíklegt að stýrivextir verði lækkaðir frekar á meðan verðbólga er nokkuð yfir markmiði. Hækkun vaxta til skamms tíma er einnig verulega ólíkleg, enda gríðarlegur framleiðsluslaki í hagkerfinu um þessar mundir sem endurspeglast m.a. í háu atvinnuleysi. Við teljum því að peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands muni halda vöxtum óbreyttum út þetta ár og næsta.

Búast má við að það dragi úr framleiðsluslakanum þegar líður á spátímabilið, að vaxtahækkunarferli hefjist á síðari árshelmingi 2022 og að raunstýrivextir verða aftur jákvæðir um mitt ár 2023.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Fjallganga
20. okt. 2020
Byrjar að létta til haustið 2021
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna áhrifa af Covid-19. Óvissa um efnahagshorfurnar er enn mjög mikil.
Alþingishúsið
20. okt. 2020
Ríkissjóður hleypur undir bagga
Ríkissjóður hefur á síðustu mánuðum tekið á sig veruleg útgjöld og skuldbindingar vegna Covid-19-faraldursins. Skuldir A-hluta ríkissjóðs aukast samtals um rúmlega 600 milljarða króna árin 2020 og 2021.
20. okt. 2020
Atvinnuvegafjárfesting nær fyrri styrk árið 2023
Í síðustu uppsveiflu náði atvinnuvegafjárfesting hámarki árið 2017. Síðan dróst hún saman um 11,4% árið 2018 og 18% 2019.
Fjölbýlishús
20. okt. 2020
Fasteignamarkaður gefur lítið eftir en hægir á framboði
Íbúðauppbygging hér á landi hefur verið mjög sveiflukennd síðustu ár, bæði hvað magn og tegund íbúða varðar. Gert er ráð fyrir því að íbúðafjárfesting dragist saman um 16% í ár en aukist svo um 2-5% árlega á næstu árum.
Fjölskylda við matarborð
20. okt. 2020
Meiri áhrif á vinnumarkað en í fyrri kreppum
Áhrif samdráttar í efnahagslífinu hafa verið mikil á vinnumarkaðnum á þessu ári. Atvinnuleysi hefur aukist, starfandi fólki á vinnumarkaði hefur fækkað, dregið hefur úr atvinnuþátttöku, vinnutími hefur styst og fjöldi vinnustunda hefur dregist saman.
20. okt. 2020
Vöxturinn ræðst af fjölda ferðamanna
Covid-19-faraldurinn mun fyrst og fremst koma niður á útflutningi landsins í gegnum áhrifin sem faraldurinn hefur á ferðaþjónustuna. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur