At­vinnu­vega­fjár­fest­ing nær fyrri styrk árið 2023

Í síðustu uppsveiflu náði atvinnuvegafjárfesting hámarki árið 2017. Síðan dróst hún saman um 11,4% árið 2018 og 18% 2019.
20. október 2020 - Hagfræðideild

Á fyrri hluta árs 2020 dróst atvinnuvegafjárfesting saman um 5% borið saman við sama tímabil í fyrra. Samdráttinn í atvinnuvegafjárfestingu síðustu tvö ár má fyrst og fremst rekja til samdráttar í almennri atvinnuvegafjárfestingu en sala flugvéla úr landi á síðasta ári hafði þó einnig töluverð áhrif.

Mat stjórnenda fyrirtækja á núverandi efnahagsástandi ekki verra síðan í september 2010

Einkenni núverandi niðursveiflu er að hún er fyrst og fremst bundin við eina atvinnugrein, ferðaþjónustuna. Vissulega er lítils háttar samdráttur í sumum öðrum atvinnugreinum en hann er ekki nándar nærri sá sami og í ferðaþjónustunni. Óvissan er á hinn bóginn mjög mikil og hafa væntingar stjórnenda fyrirtækja til efnahagslífsins hrunið á síðustu fjórðungum.

Væntingavísitala Gallup mældist 78 stig í mars borið saman við 135 stig í desember. Vísitalan er þannig uppsett að við gildið 100 er hlutfall jákvæðra og neikvæðra svara jafnt. Við gildið 200 eru allir svarendur jákvæðir en við 0 stig eru allir neikvæðir. Í júní hrundi vísitalan niður í 2 stig og var svipuð í september. Svo lágt hefur vísitalan ekki farið síðan í september 2010. Væntingar stjórnenda til næstu 6 mánaða hafa sveiflast óvenjumikið á síðustu fjórðungum sem er eðlilegt í þeirri miklu óvissu sem nú ríkir. Fréttir af faraldrinum hér heima og erlendis hafa mikil áhrif á væntingar og munu þær væntanlega halda áfram að sveiflast á næstu fjórðungum. Nú í september var stig væntinga í 75 borið saman við 120 í júní og 49 í mars. Það ríkti því meiri bjartsýni í september en í mars en meiri bjartsýni í júní en í september.

Útlit fyrir að fyrirtækin dragi úr fjárfestingum í ár en spáð hóflegum vexti næstu þrjú árin

Heilt yfir gerum við ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting muni dragast saman um 16,9% á þessu ári og skýrist það fyrst og fremst af 17% samdrætti í almennri atvinnuvegafjárfestingu. Á síðasta ári nam atvinnuvegafjárfesting samtals 328 mö.kr. Við gerum ráð fyrir að hún verði 273 ma.kr. á þessu ári og dragist því saman um 55 ma.kr. Við gerum ráð fyrir lítils háttar viðsnúningi á næsta ári og að tvö síðustu ár spátímabilsins verði einnig jákvæð. Árin 2021-2023 gerum við ráð fyrir að vöxtur atvinnuvegafjárfestingar verði á bilinu 5,7-7,8% og að umfang atvinnuvegafjárfestingar nái því að verða lítillega hærra árið 2023 en það var í fyrra. Á þessu ári gerum við ráð fyrir að atvinnuvegafjárfesting sem hlutfall af landsframleiðslu verði tæp 7% og að hún fari hæst upp í 8% á spátímabilinu árið 2023. Til samanburðar er meðaltalið á bilinu 1997-2019 8,5%.

Lokun Rio Tinto gæti haft neikvæð áhrif á fjárfestinguna

Óvissuþættir í spánni snúa m.a. að því að hversu miklu marki væntingar og mat á núverandi stöðu muni hafa á fjárfestingu. Heilt yfir er ástand flestra atvinnugreina ágætt, miðað við þær aðstæður sem faraldurinn hefur skapað, og veiking krónunnar hefur stutt við útflutningsgreinarnar. Veiking krónu hefur aftur á móti haft letjandi áhrif á fjárfestingu sögulega séð enda stór hluti hennar fluttur inn í landið. Á þessu ári búumst við við þó nokkurri veikingu krónunnar en að leitnin verði síðan til styrkingar það sem eftir lifir spátímabilsins. Það ætti að styðja við frekari fjárfestingu. Einn af meginóvissuþáttum í spánni um atvinnuvegafjárfestingu snýr að álveri Rio Tinto í Straumsvík. Rekstur þess hefur gengið illa síðustu ár og hefur Rio Tinto hótað því að loka álverinu takist ekki að semja við Landsvirkjun um að lækka raforkuverð. Verði af lokuninni reiknast það í þjóðhagsreikningum sem neikvæð fjárfesting og hefur þar með umtalsverð áhrif á atvinnuvegafjárfestingu til lækkunar.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Fjallganga
20. okt. 2020
Byrjar að létta til haustið 2021
Hagfræðideild Landsbankans gerir ráð fyrir að landsframleiðsla dragist saman um 8,5% á árinu 2020 vegna áhrifa af Covid-19. Óvissa um efnahagshorfurnar er enn mjög mikil.
Alþingishúsið
20. okt. 2020
Ríkissjóður hleypur undir bagga
Ríkissjóður hefur á síðustu mánuðum tekið á sig veruleg útgjöld og skuldbindingar vegna Covid-19-faraldursins. Skuldir A-hluta ríkissjóðs aukast samtals um rúmlega 600 milljarða króna árin 2020 og 2021.
Fjölbýlishús
20. okt. 2020
Fasteignamarkaður gefur lítið eftir en hægir á framboði
Íbúðauppbygging hér á landi hefur verið mjög sveiflukennd síðustu ár, bæði hvað magn og tegund íbúða varðar. Gert er ráð fyrir því að íbúðafjárfesting dragist saman um 16% í ár en aukist svo um 2-5% árlega á næstu árum.
Bananar í verslun
20. okt. 2020
Veikari króna stuðlar að verðbólgu og dregur úr líkum á frekari vaxtalækkunum
Verðbólga hefur aukist nokkuð síðan í janúar 2020. Í janúar var verðbólga 1,7% en var komin í 3,5% í september. Það er mesta verðbólga síðan í maí 2019 en þá var verðbólgan 3,6%.
Fjölskylda við matarborð
20. okt. 2020
Meiri áhrif á vinnumarkað en í fyrri kreppum
Áhrif samdráttar í efnahagslífinu hafa verið mikil á vinnumarkaðnum á þessu ári. Atvinnuleysi hefur aukist, starfandi fólki á vinnumarkaði hefur fækkað, dregið hefur úr atvinnuþátttöku, vinnutími hefur styst og fjöldi vinnustunda hefur dregist saman.
20. okt. 2020
Vöxturinn ræðst af fjölda ferðamanna
Covid-19-faraldurinn mun fyrst og fremst koma niður á útflutningi landsins í gegnum áhrifin sem faraldurinn hefur á ferðaþjónustuna. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur