Fréttir

Langt yfir eig­in­fjár­kröf­um eft­ir kaup

Austurbakki
17. apríl 2024

Vegna ítrekaðra ummæla frá Bankasýslu ríkisins um störf og ákvarðanir bankaráðs Landsbankans vill bankaráðið koma eftirfarandi á framfæri:

Ýjað hefur verið að því að sú leið sem var valin við fjármögnun bankans á kaupum á TM hafi verið valin til að komast hjá því að leita samþykkis hluthafafundar. Það er fjarri sanni og í því felast aðdróttanir í garð bankaráðs.

Viðheldur arðgreiðslugetu

Staðreyndirnar eru þessar: Landsbankinn greiðir fyrir TM með handbæru fé og sem mótvægisaðgerð hyggst bankinn gefa út víkjandi skuldabréf. Sú leið var valin vegna þess að hún er til þess fallin að viðhalda getu bankans til að greiða reglulegar arðgreiðslur til framtíðar, í samræmi við markmið eigandastefnu ríkisins. Þessi leið var talin hagstæðust fyrir bankann og eigendur hans. Ekki var þörf á útgáfu nýs hlutafjár, enda verða eiginfjárhlutföll bankans vel yfir lögbundnum mörkum og markmiðum bankans.

Hefði Landsbankinn ætlað sér að greiða fyrir TM með útgáfu nýs hlutafjár, hefði þurft samþykki hluthafafundar. Íslandsbanki staðfesti á aðalfundi sínum að tilboð bankans í TM gerði ráð fyrir hlutafjáraukningu. Í fundargerð aðalfundar Íslandsbanka kemur fram að „tilboð bankans í TM tryggingar hf. hafi verið gert með þeim fyrirvara að hluthafafundur Íslandsbanka samþykki útgáfu nýs hlutafjár til greiðslu kaupverðs“.

Landsbankinn taldi hagstæðast að greiða með handbæru fé og gefa í kjölfarið út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 13,5 milljarðar króna sem greiðist upp eftir fimm ár, en ekki með því að auka hlutafé. Þá má minna á að í mars 2024 gáfum við út víkjandi skuldabréf að fjárhæð 15 milljarða króna sem eykur umfram eiginfjárgrunn um sömu fjárhæð.

Vel yfir eiginfjárkröfum eftir kaup

Líkt og rakið er í greinargerð bankaráðs Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 22. mars sl. er eiginfjárbinding Landsbankans vegna kaupanna á TM um 18,7 milljarðar króna. Eiginfjárhlutfall bankans fyrir kaupin er 23,6% og eiginfjárkrafan á bankann er 20,7%. Áhrif kaupanna eru lækkun um 1,5 prósentustig og eftir kaupin yrði eiginfjárhlutfallið 22,1%. Mótvægisaðgerðir hækka hlutfallið aftur í 23,1%. Viðmið bankans er að vera ávallt yfir lágmarkskröfu. Staðan er því sú að eftir kaup TM og með eða án mótvægisaðgerða yrði bankinn alltaf vel yfir eiginfjárkröfum.

Í samræmi við eigandastefnu ríkisins

Líkt og fram kemur í fyrrnefndri greinargerð bankaráðs frá 22. mars þá átti bankaráð, frá miðju ári 2023, frumkvæði að því að upplýsa Bankasýsluna um áhuga bankans á að kaupa TM. Þann 20. desember 2023, sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í félagið, var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM. Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt.

Bankaráð ítrekar að það uppfyllti upplýsingaskyldu sína gagnvart Bankasýslunni og að kaupin á TM eru í samræmi við eigandastefnu ríkisins. Kaupin voru ítarlega undirbúin, þau eru góð fyrir bankann og í þeim felast mörg tækifæri.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Austurbakki
12. apríl 2024
Yfirlýsing frá bankaráði Landsbankans
Líkt og fram kemur í greinargerð bankaráðs Landsbankans til Bankasýslu ríkisins frá 22. mars sl. þá átti bankaráð, frá miðju ári 2023, frumkvæði að því að upplýsa Bankasýsluna um áhuga bankans á að kaupa TM. Þann 20. desember 2023, sama dag og bankinn gerði óskuldbindandi tilboð í félagið, var Bankasýslan upplýst í símtali um að bankinn væri þátttakandi í söluferli TM. Bankasýslan setti aldrei fram athugasemdir eða óskaði eftir frekari upplýsingum eða gögnum fyrr en eftir að tilboð bankans hafði verið samþykkt.
Austurbakki
22. mars 2024
Bankasýslan var upplýst um áform Landsbankans um að kaupa TM
Bankaráð Landsbankans hefur svarað bréfi Bankasýslu ríkisins frá 18. mars sl. þar sem óskað er eftir tilteknum upplýsingum um kaup bankans á TM tryggingum.
Austurbakki
17. mars 2024
Tilboð Landsbankans í TM samþykkt
Landsbankinn og Kvika banki hafa komist að samkomulagi um að hefja einkaviðræður um kaup Landsbankans á TM tryggingum hf. („TM“) á grundvelli kauptilboðs sem bankinn lagði fram í allt hlutafé félagsins þann 15. mars sl. Möguleg kaup eru m.a. háð niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og samþykki Samkeppniseftirlitsins og fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands.
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur