Eignarhlutur Landsbankans í Keahótelum ehf. til sölu

Eign­ar­hlut­ur Lands­bank­ans í Kea­hót­el­um ehf. til sölu

Hömlur fyrirtæki ehf., dótturfélag Landsbankans, býður til sölu 35% eignarhlut í hótelkeðjunni Keahótel ehf. Söluferlið fer fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og er opið öllum fjárfestum sem uppfylla ákveðin skilyrði fyrir þátttöku í söluferlinu, svo sem um fjárhagslega getu.

Keahótel er ein stærsta hótelkeðja Íslands. Innan keðjunnar eru tíu hótel með 940 herbergjum og eru hótelin í Reykjavík, Akureyri, Grímsnesi, Vík og Siglufirði.

Áhugasamir fjárfestar geta haft samband við Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans með því að senda tölvupóst á netfangið keahotels@landsbankinn.is. Þá má nálgast stutta sölukynningu, trúnaðaryfirlýsingu, upplýsingaform um fjárfesti og aðra söluskilmála, ásamt mati á hagsmunaárekstrum hér að neðan undir tengd skjöl.

Fjárfestar sem undirritað hafa trúnaðaryfirlýsingu og uppfylla ákveðin skilyrði fyrir þátttöku í söluferlinu fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með ítarlegum kynningargögnum um fyrirtækið og gera tilboð á grundvelli þeirra. Eingöngu verður tekið við tilboðum á sérstöku tilboðsformi og samkvæmt þeim skilmálum sem þar koma fram.

Tilboðsform má nálgast hjá umsjónaraðila söluferlisins, Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Tilboðsfrestur er til kl. 16.00, miðvikudaginn 20. desember 2023.

Nánar um söluferlið og fyrirkomulag sölunnar

Upplýsingagjöf í tengslum við söluferlið verður tvískipt. Annars vegar verða birtar upplýsingar á vef Landsbankans, sem allir hafa aðgang að. Hins vegar munu fjárfestar, sem skilað hafa inn trúnaðaryfirlýsingu og uppfylla ákveðin skilyrði, fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi. Þar gefst aðgangur að ítarlegri fjárfestakynningu með helstu upplýsingum um Keahótel ásamt frekari gögnum.

Seljandi áskilur sér rétt til að samþykkja einstök eða öll tilboð sem berast og jafnframt til að hafna einstökum eða öllum tilboðum. Gildir það um tilboðin í heild eða að hluta og án tillits til verðs þeirra. Afstaða til tilboðanna þarf ekki að byggja á sérstökum rökstuðningi og ber seljanda ekki að veita upplýsingar þar að lútandi.

Seljandi áskilur sér rétt til að breyta, hætta við eða fresta söluferlinu hvenær sem er án sérstaks rökstuðnings. Seljanda ber ekki skylda til að bæta fjárfesti tjón eða kostnað sem hann kann að verða fyrir vegna þátttöku sinnar í söluferlinu, vegna þess að hætt hafi verið við það eða því frestað.

Hagsmunaárekstrar

Landsbankinn hefur greint hugsanlega hagsmunaárekstra vegna sölunnar og gert ráðstafanir til að takmarka þá eins og kostur er.

  • Hömlur fyrirtæki ehf., dótturfélag Landsbankans, er eigandi þeirra hluta í Keahótelum ehf. sem boðnir eru til sölu og umsjónaraðili sölunnar er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Fjárfestum er bent á að afla sér óháðrar ráðgjafar.
  • Fyrirtækjasvið Landsbankans er lánveitandi Keahótela. Fyrirtækjasvið Landsbankans kann að hafa yfir að ráða ítarlegri upplýsingum um rekstur félagsins en gerðar hafa verið opinberar hluthöfum þess. Fyrirtækjasvið er aðskilið frá Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans í samræmi við stefnu bankans um hagsmunaárekstra, sbr. 3. þátt reglugerðar ESB nr. 2017/565, er varðar skipulagskröfur og rekstrarskilyrði verðbréfafyrirtækja.
  • Í stjórn Keahótela er einn óháður stjórnarmaður tilnefndur af Hömlum fyrirtæki ehf.
  • Fyrirtækjasvið Landsbankans er lánveitandi til annarra ferðaþjónustufyrirtækja.

Komdu í hóp ánægðra viðskiptavina

Það tekur aðeins örfáar mínútur að fá aðgang að netbanka og appi, stofna reikning og fá kort.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur