Opið söluferli á Greiðslumiðlun Íslands

Opið sölu­ferli á Greiðslumiðl­un Ís­lands

Landsbankinn hf., Bál ehf. og Solvent ehf., sem eru eigendur að öllu hlutafé í Greiðslumiðlun Íslands ehf. (GMÍ), hafa ákveðið að bjóða hluti sína til sölu í opnu söluferli.

GMÍ sérhæfir sig í lausnum sem tengjast greiðslum, innheimtu, kröfustýringu og lánaumsýslu. Félagið á rætur að rekja til ársins 1980 þegar Lögheimtan tók til starfa. Lykilvörumerki eru Motus í innheimtu og kröfustýringu, Lögheimtan í löginnheimtu, Pacta í lögfræðiþjónustu og Pei í greiðslulausnum.

Nánar um söluferlið og fyrirkomulag sölunnar

Söluferlið fer fram í samræmi við stefnu Landsbankans um sölu eigna og er opið öllum fjárfestum sem uppfylla skilyrði seljenda fyrir þátttöku í söluferlinu, svo sem um fjárhagslega getu.

Eignarhald framangreindra aðila skiptist svo niður að Landsbankinn hf. á 47,9% hlut og Bál ehf. og Solvent ehf. eiga samtals 52,1% hlut í GMÍ (framangreindir hluthafar eru sameiginlega hér eftir nefndir „seljendur“).

Seljendur hafa ráðið Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans og ARMA Advisory (sameiginlega hér eftir nefndir „ráðgjafar“) sem umsjónaraðila við framkvæmd á söluferlinu. Áhugasamir fjárfestar geta haft samband við ráðgjafana með því að senda tölvupóst á netfangið gmi@landsbankinn.is.

Undir liðnum tengd skjöl hér fyrir neðan eru hlekkir á eftirfarandi skjöl:  (1) einblöðungur um GMÍ, (2) trúnaðaryfirlýsing og (3) upplýsingaform um fjárfesti. Fjárfestar sem hafa áhuga á að taka þátt í söluferlinu skulu skila inn undirritaðri trúnaðaryfirlýsingu og útfylltu og undirrituðu upplýsingaformi um fjárfesti til ráðgjafanna á áðurnefnt netfang,  gmi@landsbankinn.is. Fjárfestar sem hafa undirritað trúnaðaryfirlýsingu og uppfylla skilyrði seljenda til að taka þátt í söluferlinu, fá aðgang að rafrænu gagnaherbergi með frekari kynningargögnum um GMÍ.

Rétt er að geta þess að eingöngu verður tekið við tilboðum á sérstöku tilboðsformi og samkvæmt þeim skilmálum sem þar koma fram sem ráðgjafar munu deila með fjárfestum sem taka þátt í söluferlinu. Áætlaður tilboðsfrestur til að skila inn óskuldbindandi tilboði er til kl. 16.00, föstudaginn 20. desember 2024.  

Vakin er sérstök athygli á að seljendur áskilja sér rétt til að samþykkja eða hafna einstökum eða öllum tilboðum sem berast. Gildir það um tilboðin í heild eða að hluta og án tillits til tilboðsfjárhæðar. Afstaða til tilboðanna þarf ekki að byggja á sérstökum rökstuðningi og ber seljendum ekki að veita upplýsingar þar að lútandi. Seljendur áskilja sér einnig rétt til að breyta, hætta við eða fresta söluferlinu hvenær sem er án sérstaks rökstuðnings. Seljendum ber jafnframt ekki skylda til að bæta fjárfesti tjón eða kostnað sem hann kann að verða fyrir vegna þátttöku sinnar í söluferlinu, vegna þess að hætt hafi verið við það eða því frestað.

Um hugsanlega hagsmunaárekstra Landsbankans

Landsbankinn hf. hefur greint hugsanlega hagsmunaárekstra og eru þeir helstu eftirfarandi:

  • Landsbankinn hf. er eigandi þeirra hluta í GMÍ sem boðnir eru til sölu og annar ráðgjafinn við söluna er Fyrirtækjaráðgjöf Landsbankans. Fjárfestum er bent á að afla sér óháðrar ráðgjafar.
  • Landsbankinn hf. og GMÍ hafa gert með sér þjónustusamning þar sem aðilar veita hvor öðrum tiltekna þjónustu.
  • Tveir af fimm stjórnarmönnum GMÍ eru stjórnendur hjá Landsbankanum hf.

Komdu í hóp ánægðra viðskiptavina

Það tekur aðeins örfáar mínútur að fá aðgang að netbanka og appi, stofna reikning og fá kort.

Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur