Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Andlát og dánarbú

Fólk að ganga við Helgafell

Leið­um þig í gegn­um ferl­ið

Hjá okk­ur færðu að­stoð og upp­lýs­ing­ar um með­ferð dán­ar­búa.

Hver eru fyrstu skrefin?

Við andlát verður til sérstakur lögaðili, dánarbú, sem tekur við réttindum og skyldum hins látna.

Skráning á andláti
Andlát er tilkynnt til sýslumanns í því umdæmi sem hinn látni átti lögheimili. Sýslumaður móttekur dánarvottorð og tilkynnir Þjóðskrá um andlát. Þjóðskrá skráir einstaklinginn látinn.
Dánarbú
Umboð sem hinn látni hafði veitt öðrum falla niður, sem og aðgangur að netbanka. Sýslumaður fer með forræði á dánarbúi frá andláti og þar til skipti hefjast.
Umboð og aðgangur
Sýslumaður gefur út heimildir til upplýsingaöflunar og greiðslu útfararkostnaðar og síðar leyfi til frágangs á dánarbúum.

Heimildir frá sýslumanni

Eftir að sýslumanni hefur verið tilkynnt um andlát fær aðstandandi bréf í pósthólf á Ísland.is með nánari leiðbeiningum og eftirfarandi skjölum:

  • Vottorð um tilkynningu andláts.
  • Heimild til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbús (ef viðkomandi er erfingi).
  • Heimild til að greiða útfararkostnað af reikningum hins látna.

Til þess að bankanum sé heimilt að veita aðstandendum upplýsingar og afgreiða dánarbúið á annan hátt þurfa heimildir eða leyfi sýslumanns að liggja fyrir.

hl

Upplýsingar og greiðsla útfararkostnaðar

Aðstandendur sem óska eftir upplýsingum hjá bankanum um eigna- og skuldastöðu þurfa að framvísa „Heimild til að afla upplýsinga um fjárhag dánarbús“. Heimildin nær eingöngu til upplýsinga um eigna- og skuldastöðu hins látna á dánardegi.

Aðstandendur geta einnig óskað eftir greiðslu útfararkostnaðar af bankareikningum hins látna gegn framvísun „Heimildar til að greiða útfararkostnaðar af reikningum hins látna“ og með því að leggja fram reikninga. Til þess að óska eftir upplýsingum eða afgreiðslu er hægt að hafa samband með því að senda tölvupóst á neðangreint netfang.

Sjálfvirk upplýsingagjöf

Síðan í febrúar 2025 hefur Landsbankinn miðlað upplýsingum um stöðu eigna og skulda hins látna á dánardegi sjálfvirkt til sýslumanns. Upplýsingarnar eru síðan forskráðar í rafrænar umsóknir og skýrslur sem erfingjar þurfa að fylla út og skila í tengslum við skipti á dánarbúum. Umræddar upplýsingar um stöðu eigna og skulda frá Landsbankanum birtast ekki sjálfkrafa í pósthólfi erfingja á Ísland.is en sýslumaður getur sent viðkomandi þær sé þess óskað.

Skipti á dánarbúi

Erfingjar þurfa að taka afstöðu til þess í hvaða farveg skipti á dánarbúi eigi að fara. Eftir því sem við á gefur sýslumaður út leyfi til einkaskipta, búsetuleyfi eða staðfestingu á eignaleysi, eða héraðsdómur úrskurðar um opinber skipti.

Leyfi til einkaskipta
Ef erfingjar fá leyfi til einkaskipta annast þeir skiptin sjálfir og mega ráðstafa eignum búsins. Séu margir erfingjar þarf samþykki allra fyrir ráðstöfun eigna, nema ef allir hafa veitt einum eða fleiri umboð til að koma fram fyrir hönd dánarbúsins.
Búsetuleyfi
Ef eftirlifandi maki fær leyfi til setu í óskiptu búi tekur hann persónulega ábyrgð á öllum skuldbindingum dánarbúsins. Eftirlifandi maki má ráðstafa eignum dánarbúsins sem þær séu hans eigin.
Opinber skipti
Þegar ekki er hægt að ljúka skiptum með öðrum hætti, eða erfingjar óska þess, skipar héraðsdómur skiptastjóra sem fer með forræði dánarbúsins og hefur einn leyfi til að ráðstafa hagsmunum og svara fyrir skyldur þess.
Eignaleysi
Dánarbú er lýst eignalaust ef hinn látni átti ekki eignir umfram útfararkostnað á dánardegi. Sýslumaður gefur út staðfestingu á eignaleysi. Sá sem lýsti yfir eignaleysi fær allar eignir dánarbúsins framseldar til að greiða útfararkostnað.
Debetkort í farsíma

Innlán og útlán

Við andlát er greiðslukortum lokað fyrir greiðslum, öðrum en boðgreiðslum. Þeir sem fara með forræði dánarbús hafa heimild til að ráðstafa innlánum og gera viðeigandi ráðstafanir varðandi útlán. Beingreiðslur og reglubundnar millifærslur eru felldar niður og greiðsluþjónustu lokað, í samráði við þá sem fara með forræði dánarbús.

Verðbréf

Sá sem hefur heimild til að ráðstafa eignum dánarbús getur jafnframt ráðstafað verðbréfaeignum þess. Ýmist er hægt að selja þær eða færa yfir á erfingja. Erfingjar sem taka við verðbréfaeignum þurfa að eiga vörslureikning.

Séreignarsparnaður

Séreignarsparnaður erfist að fullu og skiptist á milli lögerfingja samkvæmt reglum hjúskapar- og erfðalaga. Ef lögerfingjar eru ekki til staðar rennur séreign til dánarbús. Viðbótarlífeyrissparnaður, frjáls séreign, bundin séreign og tilgreind séreign verður að erfðaséreign á kennitölu lögerfingja sem er alltaf laus til útgreiðslu. Hvorki er reiknaður erfðafjárskattur né fjármagnstekjuskattur af erfðaséreign en greiddur er tekjuskattur við útgreiðslu.

Geymsluhólf

Bankinn upplýsir erfingja um hvort dánarbú sé skráð fyrir geymsluhólfi. Sá sem hefur forræði á dánarbúi, gegn framvísun heimildar þess efnis, er heimilt að fá aðgang að geymsluhólfi.

Frágangur mála og nánari upplýsingar

Þegar um einkaskipti á dánarbúi er að ræða þarf að ljúka skiptum innan þess frests sem sýslumaður hefur veitt erfingjum. Erfingjar þurfa að huga að nauðsynlegum ráðstöfunum og gott er að ljúka frágangi gagnvart bankanum, m.a. loka bankareikningum og gera ráðstafanir vegna skulda, innan sama frests. Þegar skiptum er lokið þurfa erfingjar að koma í sameiningu fram við ráðstöfun eigna gagnvart bankanum. Þegar dánarbú hefur verið lýst eignalaust eða maki hefur fengið leyfi til setu í óskiptu búi þarf einnig að huga að nauðsynlegum ráðstöfunum sem fyrst.

Sýslumaður veitir nánari upplýsingar um frágang og lok skipta. Einnig má nálgast upplýsingar á Ísland.is um erfðamál og dánarbú.

Algengar spurningar

Komdu í hóp ánægðra viðskiptavina

Það tekur aðeins örfáar mínútur að fá aðgang að netbanka og appi, stofna reikning og fá kort.