Sala eigna

Stefna Landsbankans um sölu eigna

1. Gildissvið

Stefna Landsbankans um sölu eigna (hér eftir „stefnan“ eða „stefna þessi“) gildir fyrir Landsbankann hf. (hér eftir nefndur „Landsbankinn“ eða „bankinn“). Stefnan nær til sölu allra eigna í eigu bankans. Stefnan nær jafnframt til sölu fullnustueigna, hvort sem slíkar eignir eru í eigu Landsbankans eða í eigu dótturfélags bankans.

2. Markmið

Markmið stefnunnar er að leggja grunn að vönduðum innri stjórnarháttum bankans um sölu eigna og takmarka rekstraráhættu og orðsporsáhættu sem sala eigna getur falið í sér. Stefnunni er ætlað að stuðla að gagnsæi og trúverðugleika við sölu eigna og efla þannig traust til bankans. Stefnunni er jafnframt ætlað að hámarka endurheimtur krafna við sölu fullnustueigna.

3. Ákvörðun um sölu

Ákvörðun um að selja eign skal tekin í ljósi viðskiptalegra markmiða bankans á hverjum tíma og að teknu tilliti til markaðsaðstæðna. Áður en tekin er ákvörðun um að selja eign skal liggja fyrir hvernig meðferð sölunnar skuli hagað. Sölumeðferðin skal vera í samræmi við stefnu þessa.

4. Almenn sjónarmið um sölu eigna

Sala eigna fer fram á viðskiptalegum forsendum þannig að sanngjarnt verð fáist fyrir eignirnar. Salan skal hafa hagsmuni bankans og dótturfélaga að leiðarljósi og vera í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði, sbr. 19. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

5. Meginregla um opið söluferli

Það er meginregla að selja eignir í opnu söluferli. Með opnu söluferli er í stefnu þessari átt við ferli þar sem bankinn veitir upplýsingar um að tiltekin eign sé til sölu þannig að fleiri en einum hugsanlegum kaupanda sem uppfyllir tiltekin skilyrði er gefinn kostur á að gera kauptilboð í eignina á jafnræðisgrundvelli í samræmi við nánar tilgreindar forsendur.

Verðbréf og aðrir fjármálagerningar sem teknir hafa verið til viðskipta á markaði skulu seldir á markaði og telst slík sala fela í sér opið söluferli í skilningi stefnu þessarar.

6. Frávik frá meginreglunni um opið söluferli

Hægt er að víkja frá meginreglunni um opið söluferli ef talið er að slíkt ferli brjóti gegn lögvörðum hagsmunum bankans eða að viðskiptalegir annmarkar séu á því að viðhafa opið söluferli. Með viðskiptalegum annmörkum er t.d. átt við einkaleyfi eða samning viðkomandi fyrirtækis við birgja eða vörumerkjaeigendur, ákvæði í hluthafasamningi eða samþykktum, svo sem forkaupsréttarákvæði, sjónarmið annarra eigenda, kröfuhafa eða eigenda viðskiptaleyfa eða þegar verðmæti eignar er það lítið að það réttlæti ekki kostnað við opið söluferli

Frávik frá meginreglunni um opið söluferli skal vera rökstutt og skráð.

Frávik frá meginreglunni um opið söluferli skal jafnframt vera háð samþykki bankaráðs. Bankaráð getur veitt bankastjóra almenna heimild til þess að samþykkja frávik frá meginreglunni þegar verðmæti eignar er undir tilteknum mörkum.

7. Mikilvægar eignir

Mikilvægar eignir í skilningi stefnu þessarar teljast eftirfarandi eignir:

 • Allar eignir þar sem eftirfarandi aðstæður eru fyrir hendi:
  1. Sala eignar er talin þess eðlis að hún feli í sér sérstaka orðsporsáhættu, eins og nánar er kveðið á um í stefnu Landsbankans um orðsporsáhættu.
  2. Meðeigandi eða kaupandi er talinn skapa sérstaka áhættu, eins og nánar er kveðið á um í stefnu Landsbankans um orðsporsáhættu.
 • Fasteignir og fasteignaréttindi sem að mati bankans eru að verðmæti kr. 300.000.000 eða meira.
 • Lausafjármunir sem að mati bankans eru að verðmæti kr. 100.000.000 eða meira.
 • Hlutabréf, og aðrir eignarhlutir eða réttindi í fyrirtækjum, sem ekki hafa verið tekin til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði í EES-ríki, og uppfylla eitt eða fleiri eftirfarandi skilyrða:
  1. Virði seldra eignarhluta í viðkomandi fyrirtæki er að mati bankans að verðmæti kr. 100.000.000 eða meira.
  2. Seldir eignarhlutar samsvara 20% eða meira af heildareignarhlutum í viðkomandi fyrirtæki og eru að mati bankans að verðmæti kr. 20.000.000 eða meira.
  3. Efnahagur eða rekstur viðkomandi fyrirtækis er að mati bankans sérstaklega flókinn.
  4. Verulegt ójafnvægi er á milli upplýsinga sem aðilar (kaupandi eða seljandi) hafa um eignina að því er varðar fjárhagstöðu og framtíðarhorfur viðkomandi fyrirtækis.

Eign telst vera mikilvæg ef eitt eða fleiri skilyrði hér að framan eru fyrir hendi.

Söluferli fyrir mikilvægar eignir skal vera ítarlegra en söluferli fyrir eignir sem ekki teljast mikilvægar. Í verklagsreglum skal kveðið á um viðbótarkröfur varðandi söluferli fyrir mikilvægar eignir.

Sala allra mikilvægra eigna skal háð sérstöku og skriflegu mati á orðsporsáhættu.

Sala allra mikilvægra eigna skal háð samþykki bankaráðs að fenginni tillögu Áhættu- og fjármálanefndar.

8. Verklagsreglur

Á grundvelli stefnu þessarar skal Áhættu– og fjármálanefnd setja skráðar verklagsreglur um sölu allra helstu flokka eigna.

Í verlagsreglunum skal kveðið á um eftirfarandi:

 • Innri stjórnarhættir fyrir sölu eigna.
 • Skilgreining á söluferli fyrir einstaka eignaflokka, þ.m.t. fasteignir, lausafé og eignarhluti í fyrirtækjum.
 • Skilgreining á opnu söluferli fyrir hvern eignaflokk og að teknu tilliti til eðli viðkomandi eignar.
 • Leiðbeiningar um mat á orðsporsáhættu við ákvörðun um sölu og söluferli á grundvelli stefnu Landsbankans um orðsporsáhættu.
 • Kröfur um sýnileika og gagnsæi varðandi upplýsingar á vefsíðu bankans og aðrar auglýsingar um eignir til sölu.
 • Leiðbeiningar um hvenær afla skuli verðmats og áreiðanleikakönnunar ytri aðila við sölu á mikilvægum eignum.

9. Fullnustueignir

Fullnustueignir eru eignir sem Landsbankinn leysir til sín frá einstaklingum, fyrirtækjum eða öðrum lögaðilum til að tryggja fullnustu krafna. Slík fullnusta er eðlilegur þáttur í starfsemi viðskiptabanka. Stefnt skal að því að selja fullnustueignir eins fljótt og unnt er að teknu tilliti til markaðsaðstæðna.

Framkvæmd Landsbankans við sölu fullnustueigna er í samræmi við 22. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki, en þar kemur m.a. fram að fullnustueignir skuli seldar jafnskjótt og hagkvæmt er. Framkvæmdin tekur jafnframt mið af þeim sjónarmiðum sem Samkeppniseftirlitið hefur beint til fjármálafyrirtækja vegna yfirtöku á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri, þ. á m. þeim tilmælum sem fram koma í áliti Samkeppniseftirlitsins nr. 3/2008, ákvarðanir banka og stjórnvalda um framtíð fyrirtækja, frá 12. nóvember 2008 og umræðuskjali Samkeppniseftirlitsins nr. 2/2009 um banka og endurskipulagningu fyrirtækja.

Stefna þessi og verklagsreglur sem settar eru á grundvelli hennar skulu gilda um sölu fullnustueigna, hvort sem slíkar eignir eru í eigu Landsbankans eða í eigu dótturfélags bankans.

10. Skýrslugjöf

Árlega skal birta skýrslu á vefsíðu bankans þar sem veittar eru samandregnar upplýsingar um (a) eignir sem eru til sölu, (b) eignir sem seldar hafa verið á liðnum 12 mánuðum og (c) samandregnar upplýsingar um frávik frá meginreglunni um opið söluferli á liðnum 12 mánuðum.

11. Innra eftirlit

Stefna þessi og verklagsreglur sem settar eru á grundvelli hennar skulu vera áhættumiðað og taka mið af þriggja þrepa eftirlitslíkaninu (e. three lines of defense).
Regluvarsla skal hafa eftirlit með framkvæmd þessarar stefnu og gerir grein fyrir því í skýrslu sinni til bankastjóra og bankaráðs.

Prentvæn útgáfa

Stefna um sölu eigna