Húsnæðismál Landsbankans

17. maí 2017

Landsbankinn hefur lengi haft hug á að koma miðlægri starfsemi undir eitt þak, enda eru núverandi húsakynni í miðborg Reykjavíkur óhentug og óhagkvæm. Höfuðstöðvar bankans í Kvosinni eru nú í 13 húsum en aðeins fjögur þeirra eru í eigu bankans. Stór hluti þessa húsnæðis nýtist afar illa. Auk þessa rekur bankinn miðlæga starfsemi í Borgartúni og Álfabakka og er með geymslur og aðra starfsemi á þremur stöðum til viðbótar.

Markmiðið með flutningum í nýtt hús er að ná fram hagræðingu, auka skilvirkni og mæta kröfum um breytt vinnulag í fjármálaþjónustu.

Minna húsnæði en áður var gert ráð fyrir

Með flutningi í nýtt húsnæði mun starfsemi sem í dag fer fram á um 21.000 m2 rúmast á um 10.000 m2. Þetta er umtalsvert minna húsnæði en áður var gert ráð fyrir. Það sem einkum skýrir minni húsnæðisþörf er að ákveðið hefur verið að í nýju húsi verði svokölluð verkefnamiðuð vinnuaðstaða sem þýðir m.a. að starfsfólk geti fært sig til eftir því sem verkefni krefjast. Ekki er raunhæfur möguleiki á að taka upp slíkt vinnulag í núverandi húsakynnum.

Brýnt er að finna lausn á húsnæðismálum bankans því talið er að árlegur sparnaður við að flytja í nýtt hús nemi um 500 milljónum króna á ári.

Höfuðstöðvar Landsbankans
Starfsemi Landsbankans í húsunum sem sjást á myndinni hér fyrir ofan mun færast undir eitt þak í nýju húsi. Einnig verður hægt að loka einni geymslu bankans á höfuðborgarsvæðinu en bankinn verður þar áfram með eina geymslu.

Ýmsir kostir í húsnæðismálum skoðaðir

Landsbankinn keypti árið 2014 lóð við Austurhöfn í Reykjavík með það í huga að þar risi nýtt hús fyrir höfuðstöðvar bankans. Í kjölfar gagnrýni var áformum um hönnunarsamkeppni frestað sumarið 2015 og ákveðið að fara yfir fram komin sjónarmið.

Undanfarið hefur bankinn skoðað ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið KPMG. Þeir þættir sem horft var til í mati KPMG á mismunandi staðarvalkostum voru hagkvæmni, verðgildi hússins til framtíðar, samgöngur, staðsetning, skipulagsmál, sveigjanleiki húsnæðis og þjónusta og mannlíf í nágrenninu. Fjölbreytt starfsemi bankans gerir það að verkum að bankinn telur þörf á að vera með starfsemi sína miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Meðal kosta sem voru sérstaklega skoðaðir voru lóðir í grennd við Borgartún, Kringlu og Smáralind. Niðurstaðan var að Austurhöfn er ákjósanlegasti kosturinn þegar tekið er tillit til allra ofangreindra atriða.

Verðmætustu hlutar hússins á neðri hæðum seldir eða leigðir út

Lóðarverðmæti í Austurhöfn er mikið en það á fyrst og fremst við um þann hluta byggingarinnar sem er ætlaður fyrir aðra þjónustu og verslun á neðri hæðum hússins. Byggingaréttur á lóðinni er 16.500 m2, þar af 2.000 m2 í kjallara. Bankinn ætlar að nýta 10.000 m2, eða um 60% hússins, en selja eða leigja frá sér 6.500 m2, þ.m.t. verðmætustu hluta hússins á neðri hæðum. Starfsemi bankans verður einkum á efri hæðum hússins en samkvæmt mati sem fasteignasala gerði fyrir bankann er fermetraverð á efri hæðunum sambærilegt við fermetraverð í skrifstofuhúsnæði á öðrum góðum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Byggingin býður upp á að efri hæðirnar verði hannaðar að þörfum Landsbankans og styðji við breytt vinnulag og verkefnamiðaða vinnuaðstöðu. Húsnæðið verður hannað með það í huga að hægt verði að aðlaga það að breytingum á starfsemi bankans.

Lóðin er tilbúin og engin óvissa um skipulagsmál

Lóðin við Austurhöfn er tilbúin til framkvæmda og engin óvissa er um skipulagsmál á svæðinu.

Samkvæmt mati Mannvits verkfræðistofu er kostnaður við að reisa 16.500 m2 hús tæpir 9 milljarðar króna, að lóðarverði meðtöldu. Að teknu tilliti til þess að bankinn mun selja og/eða leigja 6.500 m2 er gert ráð fyrir að kostnaður bankans við þann hluta hússins sem hann mun nýta verði um 5,5 milljarðar króna. Á móti kæmi söluverðmæti þeirra fasteigna sem bankinn getur selt við flutningana.

Bankinn mun leggja mikla áherslu á að kostnaður fari ekki fram úr áætlunum og mun leita aðstoðar ytri aðila við að stýra framkvæmdum.