Eignarhald

Í árslok 2019 átti ríkissjóður Íslands 98,2% eignarhlut í Landsbankanum. Landsbankinn átti sjálfur 1,56% hlut. Aðrir hluthafar áttu samtals 0,24% hlut.

Eignarhald


 

Nánar um eignarhald Landsbankans

Landsbankinn hf. var stofnaður þann 7. október 2008. Bankinn tók yfir innlendar eignir Landsbanka Íslands hf. til að tryggja eðlilega bankastarfsemi og öryggi innstæðna á Íslandi. Stofnefnahagsreikningur Landsbankans var gefinn út í desember 2009 og samið um uppgjör Landsbankans (NBI hf., nú Landsbankinn hf.) og Landsbanka Íslands hf. (nú LBI hf.).

Í kjölfarið eignaðist ríkissjóður Íslands 81,333% hlut í bankanum og Landskil ehf., dótturfélag Landsbanka Íslands hf., eignaðist 18,667% útgefins hlutafjár sem var 24 ma. kr. 

Breyting varð á eignarhaldi Landsbankans frá og með 11. apríl 2013. Þá var 16,67% hlutur í eigu Landskila fyrir hönd slitastjórnar LBI hf. færður yfir til íslenska ríkisins og 2% eignarhlutur til Landsbankans hf. í samræmi við samkomulagið frá 2009. Þeim eignarhluta er færður var á Landsbankann fylgdu þau skilyrði að honum skyldi dreift til starfsmanna. Þann 30. september 2013 var hluta þeirrar eignar dreift til um 1400 núverandi og fyrrverandi starfsmanna Landsbankans.

Þann 29. mars 2015 tók Fjármálaeftirlitið ákvörðun um samruna Landsbankans og Sparisjóðs Vestmannaeyja og þann 4. september 2015 var samruni Landsbankans og Sparisjóðs Norðurlands samþykktur. Við þessa samruna fengu fyrrum stofnfjáreigendur sparisjóðanna hluti í Landsbankanum, þ.m.t. ríkissjóður sem átti stóran hluta stofnfjár sjóðanna. Við samrunana eignuðust fyrrum stofnfjáreigendur, aðrir en ríkið, hlut sem nemur um 0,11% af hlutafé Landsbankans.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhluti ríkissjóðs í Landsbankanum.