Sáttir Landsbankans

Landsbankinn, dótturfélög og Samkeppniseftirlitið hafa gert með sér nokkrar sáttir vegna yfirtöku bankans og/eða dótturfélaga bankans á fyrirtækjum í samkeppnisrekstri. Allar yfirtökurnar eiga það sameiginlegt að vera liður í fullnustuaðgerðum eða annars konar skuldaskilum.

Innri endurskoðandi Landsbankans, sem ráðinn er af Bankaráði, hefur eftirlit, í samstarfi við lögfræðideild Landsbankans, með ákvörðunarorðum sátta sem Samkeppniseftirlitið hefur gert við bankann og dótturfélög hans.

Innri endurskoðandi Landsbankans skilar í samvinnu við lögfræðideild tvisvar á ári skýrslu um hvernig fylgt er eftir ákvörðunarorðum Samkeppniseftirlitsins. Í þessum skýrslum er greinargóð lýsing hvernig uppfylltar eru þær kvaðir sem hvert og eitt fyrirtæki sem getið er hér að neðan hefur undirgengist. Til dæmis er haft náið eftirlit með viðskiptum tengdra aðila, hagsmunaárekstrum sem kunna að koma upp og öðrum samskiptum á milli bankans og yfirtekinna félaga.

Ákvörðunarorð sátta Samkeppniseftirlitsins eru aðgengileg á vef stofnunarinnar. Tilgangur sáttanna er að takmarka vandamál á samkeppnismarkaði sem geta falist í eignarhaldi fjármálafyrirtækja í fyrirtækjum í óskyldum rekstri. Helstu kvaðir sem eru lagðar á yfirtöku Landsbankans og dótturfélaga eru:

  • Selja skal yfirtekin fyrirtæki eins fljótt og hægt er
  • Skipa skal óháða stjórnarmenn
  • Tryggja þarf sjálfstæði og aðskilnað fyrirtækjanna gagnvart bankanum.
  • Tryggja skal aðskilnað á milli yfirtekinna fyrirtækja í eigu samstæðu bankans.
  • Setja verður fyrirtækjum eðlilega arðsemiskröfu.
  • Birta verður upplýsingar um fyrirtækin og rekstur þeirra.

Ábendingar um hvers konar vankanta á eftirfylgni með sáttunum má senda á netfangið logfraediradgjof@landsbankinn.is.

Til að tryggja að ákvörðunum Samkeppniseftirlitsins verði framfylgt mun Landsbankinn gæta þess að réttar upplýsingar séu birtar á heimasíðu bankans í samræmi við gildandi ákvarðanir. Þá mun bankinn sjá til þess að virkt samstarf sé með þeim eftirlitsaðila sem Landsbankinn felur að hafa eftirlit með að ákvarðanir Samkeppniseftirlitsins verði framfylgt og lögfræðideild bankans, auk þess sem gætt verður þess að öðrum skilyrðum ákvarðananna verði framfylgt með því að tryggja að viðeigandi aðilum innan bankans, svo sem framkvæmdastjórum, bankastjóra og e.a. einstaka starfsmönnum, sé kynnt efni ákvarðananna og að þeir ferlar séu við lýði sem tryggi að ákvörðununum verði sem best framfylgt.

Landsbankinn hefur jafnframt markað samstæðunni stefnu um sölu fullnustueigna sem tekur mið af sjónarmiðum Samkeppniseftirlitsins og stefnu bankans um samfélagslega ábyrgð. Stefna Landsbankans um sölu fullnustueigna er ætlað að tryggja opið og gagnsætt söluferli fullnustueigna sem og takmarka eins og kostur er þann tíma sem bankinn eða dótturfélög hans fara með eignarhald í eignum sem eru ótengdar kjarnastarfsemi bankans.


Undanþágubeiðni vegna starfsemi Reiknistofu bankanna hf. og samruni við Teris

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 14/2012

Samkeppniseftirlitið hefur nú lokið rannsókn á tveimur málum er varða Reiknistofu bankanna. Í öðru málinu var framtíðarstarfsemi Reiknistofunnar og sameiginlegt eignarhald fjármálafyrirtækja á henni til skoðunar. Í hinu málinu voru kaup Reiknistofu bankanna á Teris (upplýsingafyrirtæki sparisjóðanna) til athugunar.

Reiknistofa bankanna og allir eigendur hennar, m.a. Landsbankinn, hafa gert sátt við Samkeppniseftirlitið um lyktir þessara mála. Með henni undirgangast þessir aðilar ítarleg skilyrði sem tryggja eiga virkari samkeppni á fjármálamarkaði. Jafnframt eiga skilyrðin að tryggja að önnur upplýsingatæknifyrirtæki geti boðið fjármálafyrirtækjum þjónustu sína í samkeppni við Reiknistofu bankanna.


Breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 8/2015

Sátt var gerð við Samkeppniseftirlitið þann 15. desember 2014 um breytingar á skipulagi og framkvæmd á greiðslukortamarkaði. Með sáttinni viðurkenndi Landsbankinn að tiltekin framkvæmd á greiðslukortamarkaði hafi ekki verið í samræmi við 10. gr. samkeppnislaga og 53. gr. EES-samningsins og var fallist á greiðslu sektar að fjárhæð 450 milljónir króna og á að ráðast í tilteknar aðgerðir sem væru til þess fallnar að efla samkeppni á greiðslukortamarkaði. Aðgerðirnar fela m.a. í sér að sett verður hámark á svokölluð milligjöld einstaklingskorta en þau greiða færsluhirðar til kortaútgefenda og er þeim ætlað m.a. að standa undir kostnaði útgefanda vegna ábyrgða á greiðslum, fjármögnunar úttekta, kortasvika og vöruþróunar. Milligjöld munu lækka í kjölfar sáttarinnar og það ætti að leiða til lægra vöruverðs. Þá er í sáttinni gert ráð fyrir því að Landsbankinn eigi ekki eignarhluti í Borgun og Valitor með öðrum viðskiptabönkum.


Framsal Glitnis hf. á 95% hlutafjár Íslandsbanka hf. til ríkissjóðs Íslands

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 9/2016

Eftir yfirtöku Ríkissjóðs Íslands á hlut Glitnis hf. í Íslandsbanka hf. fer Bankasýsla ríkisins með allan eignarhlut í bankanum, jafnframt því sem Bankasýslan fer með 98,2% eignarhlut í Landsbankanum, 13% hlut í Arion banka, 49,5% hlut í Sparisjóði Austurlands. Yfirtaka ríkissjóðs á Íslandsbanka leiðir til þess að 65-70% af innlánastarfsemi í landinu verður undir yfirráðum sama aðila, auk þess sem Íslandsbanki og Landsbankinn hafa saman mjög sterka stöðu á fleiri mikilvægðum undirmörkuðum fjármálaþjónustu. Yfirráð sama aðila yfir tveimur keppinautum með svo sterka stöðu eru að öllu jöfnu talin til þess fallin að raska samkeppni með alvarlegum hætti. Í hinu sameiginlega eignarhaldi felst hætta á því að starfsemi bankanna verði samræmd, beint eða óbeint, með skaðlegum hætti fyrir viðskiptavini og samfélagið. 

Stjórnvöld, Landsbankinn og Íslandsbanki skuldbundu sig með sátt við Samkeppniseftirlitið til að fylgja reglum og grípa til aðgerða sem stuðla að því að bankarnir verði reknir sem sjálfstæðir keppinautar. Þannig verður gripið til ráðstafana sem ætlað er að koma í veg fyrir að hið sameiginlega eignarhald hafi skaðleg áhrif á samkeppni.

Aðgerðir til að efla samkeppni í almennri viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 22/2017

Landsbankinn gerði tvíhliða sátt við Samkeppniseftirlitið þann 12. júní 2017 um aðgerðir til að efla samkeppni á viðskiptabankamarkaði og lok rannsóknar Samkeppniseftirlitsins varðandi kvörtun MP banka hf. og Byrs hf. frá árinu 2010 um skilmála íbúðalána (Íbúðalánamálið) og kvörtun MP banka hf. frá árinu 2012 um skilmála viðskiptabankanna þriggja til fyrirtækja (Uppgreiðslugjaldamálið).

Sáttinni miðar að því að örva samkeppni á sviði almennrar viðskiptabankaþjónustu við einstaklinga og lítil fyrirtæki með aðgerðum sem ætlað er að draga almennt úr skiptikostnaði í fjármálaþjónustu, ýta undir virkara aðhald einstaklinga og smærri fyrirtækja á því sviði, og vinna gegn aðstæðum sem ýtt gætu undir þögla samhæfingu á viðskiptabankamarkaði.

Með sáttinni varð Landsbankinn fyrstur stóru viðskiptabankanna þriggja til að fallast á þær samkeppnislega jákvæðu aðgerðir sem kveðið er á um í sáttinni og ljúka þar með útistandandi málum hjá Samkeppniseftirlitinu. Í ákvörðuninni var tekið fram að bankinn hafði sýnt umtalsvert frumkvæði og lagt ýmislegt uppbyggilegt að mörkum til útfærslu einstakra greina án fyrirvara um að aðrir samkeppnisaðilar þyrftu að fallast á hliðstæðar aðgerðir og hann.

Undanþága vegna stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers

Ákvörðun Samkeppniseftirlitsins nr. 46/2017

Samkeppniseftirlitið veitti Landsbankanum, Íslandsbanka, Arion banka og Seðlabankanum undanþágu á grundvelli 15. gr. samkeppnislaga til stofnunar og reksturs sameiginlegs seðlavers með Arion banka, Íslandsbanka og Seðlabankanum gegn ákveðnum skilyrðum sem fram koma í sáttinni.

Starfsemi seðlavers felst í megindráttum í því að taka við seðlum og mynt frá útibúum, hraðbönkum og öðrum starfsstöðvum viðskiptabanka og sparisjóða, telja og skrá reiðufé, varðveita það, dreifa því til baka til útibúa, hraðbanka og annarra starfsstöðva og koma því, eftir atvikum, til geymslu í Seðlabankanum.

Meginrökin fyrir stofnun og rekstri sameiginlegs seðlavers felast í því að samrekstur á þessu sviði getur leitt til töluverðs kostnaðarsparnaðar samanborið við að reka hvert seðlaver með aðskildum hætti hjá hverjum banka fyrir sig. Jafnframt gæti sameiginlegt seðlaver verið betur í stakk búið til að uppfylla öryggiskröfur.

Skilyrðum sáttarinnar er m.a. ætlað að tryggja að sameiginlegt seðlaver verði rekið með sjálfstæðum hætti, tryggja jafnt aðgengi allra bærra aðila að hinu sameiginlega félagi, tryggja að verðlagning félagsins miðist eingöngu við þörfina fyrir að viðhalda starfseminni, vinna gegn því að starfsemi félagsins skerði samkeppni á milli eigenda félagsins (stóru viðskiptabankanna þriggja) á markaði fyrir almenna viðskiptabankaþjónustu og tryggja að sú hagræðing sem leiðir af samrekstrinum viðhaldist til framtíðar.

Framangreind undanþága byggir á 15. gr. samkeppnislaga, en samkvæmt henni getur Samkeppniseftirlitið veitt undanþágu frá banni laganna við samkeppnishamlandi samstarfi fyrirtækja, að tilteknum skilyrðum uppfylltum.