Fréttir

- Samfélagsmál

Holtaskóli bar sigur úr býtum í Skólahreysti

Holtaskóli fagnar sigri.

Holtaskóli úr Reykjanesbæ er sigurvegari Skólahreysti, hreystikeppni grunnskólanna, árið 2016 eftir spennandi og skemmtilega úrslitakeppni í Laugardalshöll miðvikudaginn 20. apríl. Þetta er fimmti sigur Holtaskóla í Skólahreysti á síðustu sex árum en skólar af Suðurnesjum hafa nú unnið sjö keppnir í röð.

Síðuskóli á Akureyri tryggði sér annað sætið og silfur með glæsilegum árangri og Stóru-Vogaskóli úr Vogum varð í þriðja sæti og fékk bronsið. Keppnin var afar jöfn en fimm skólar unnu hver sína þraut. Tólf skólar af öllu landinu unnu sér keppnisrétt í úrslitum en yfir 100 skólar hófu keppni í ár. Stemningin var engu lík í Höllinni en keppnin var sýnd í beinni útsendingu á RÚV. Landsbankinn er stoltur bakhjarl Skólahreysti og bankinn færði skólunum og keppendum vegleg verðlaun.

Nýtt Íslandsmet og Íslandsmetsjöfnun

Keppnin í ár hófst með látum þegar Hjálmar Óli Jóhannsson úr Egilsstaðaskóla gerði flestar upphífingar og setti glæsilegt Íslandsmet í þrautinni. Hann tók 61 upphífingu en fyrra met var 57 stykki.

Katla Björk Ketilsdóttir úr Holtaskóla sigraði armbeygjukeppnina með 54 armbeygjur og kom Holtaskóla í forystu snemma leiks. Hólmsteinn Skorri Hallgrímsson úr Laugalækjarskóla tók 52 dýfur og vann þrautina eftir jafna og spennandi keppni. Helena Gísladóttir úr Stóru-Vogaskóla stóð sig best í Hreystigreip og náði glæsilegum tíma með því að hanga í 5.32 mínútur.

Í hraðaþrautinni jafnaði Síðuskóli Íslandsmetið með því að fara þrautina á 2.05 mínútum. Það voru þau Embla Dögg Sævarsdóttir og Raguel Pino Alexandersson sem kepptu fyrir Síðuskóla.

Siðurlið Holtaskóla skipa Elsa Albertsdóttir og Stefán Pétursson (hraðaþraut), Katla Björk Ketilsdóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Halldór Berg Halldórsson (upphífingar og dýfur).

Silfurlið Síðuskóla skipa Embla Dögg Sævarsdóttir og Raguel Pino Alexandersson (hraðaþraut), Ágústa Dröfn Pétursdóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Elmar Blær Hlynsson (upphífingar og dýfur).

Bronslið Stóru-Vogaskóla skipa Eydís Ósk Símonardóttir og Gunnlaugur Atli Kristinsson (hraðaþraut), Helena Gísladóttir (armbeygjur og hreystigreip) og Phatsakorn Lomain (upphífingar og dýfur).

Aðrir skólar í úrslitum í ár voru Árskóli á Sauðarkróki, Egilsstaðaskóli, Grundaskóli á Akranesi, Grunnskólinn á Ísafirði, Hagaskóli, Kelduskóli og Laugalækjarskóli frá Reykjavík, Hvolsskóli á Hvolsvelli og Lindaskóli úr Kópavogi.

Landsbankinn óskar keppendum og skólum þeirra til hamingju með frábæran árangur í vetur.

Nánari upplýsingar og myndir frá Skólahreysti 2016

Samfélagsmál - 19. júní 2020 11:17

„Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ í útibúum Landsbankans

Þann 17. júní fengu landsmenn bréf með yfirskriftinni „Takk fyrir að vera til fyrirmyndar“ sent í aldreifingu með Morgunblaðinu. Fleiri eintök er m.a. hægt að nálgast í útibúum Landsbankans um allt land.


Nánar

Samfélagsmál - 02. júní 2020 11:17

Lindaskóli varði titilinn í Skólahreysti

Lindaskóli í Kópavogi sigraði Skólahreysti 2020 og vann þar með keppnina annað árið í röð. Úrslitakeppnin fór fram í Laugardalshöll laugardaginn 30. maí og var æsispennandi allt til enda.


Nánar