Fréttir

- Samfélagsmál

Þrjár milljónir til 36 verkefna úr Menningarnæturpotti

Þremur milljónum króna var í gær veitt úr Menningarnæturpotti Landsbankans til 36 verkefna og viðburða sem fram fara á Menningarnótt. Menningarnæturpottur er samstarfsverkefni Landsbankans og Höfuðborgarstofu en bankinn hefur verið máttarstólpi Menningarnætur frá upphafi.

Tilgangurinn með pottinum er að veita marga en hóflega styrki til einstaklinga og hópa sem vilja skipuleggja frumlega og áhugaverða viðburði á Menningarnótt. Allur fjárstuðningur Landsbankans vegna samstarfssamnings bankans við Reykjavíkurborg um Menningarnótt rennur beint til listamanna og hópa sem koma fram á hátíðinni. Við úthlutun styrkja í ár var kastljósinu meðal annars beint að viðburðum á Hverfisgötu og nágrenni en um helmingur viðburðanna sem styrktir voru falla undir þann flokk.

Þetta er í fimmta sinn sem styrkjum er veitt úr Menningarnæturpottinum. Alls bárust um 200 umsóknir í ár en aldrei hafa fleiri umsóknir borist. Starfshópur á vegum Höfuðborgarstofu valdi styrkþegana.

Landsbankinn mun til viðbótar við þessa styrki verða með árvissa menningardagskrá í útibúi sínu í Austurstræti á Menningarnótt.

Gakktu í bæinn

Menningarnótt verður haldin í nítjánda sinn laugardaginn 23. ágúst næstkomandi. Viðburðir af öllum toga verða haldnir á torgum og götum, í húsasundum og görðum, í galleríum, verslunum, menningarstofnunum og heimahúsum og munu fylla miðborgina lífi. Þema Menningarnætur í ár er „Gakktu í bæinn“ og vísar til þeirrar gömlu íslensku venju að bjóða gesti velkomna og gera vel við þá. Í lok Menningarnætur verður að vanda vegleg flugeldasýning.

Höfuðborgarstofa sér um skipulagningu Menningarnætur en samstarfsaðilar eru Landsbankinn og Vodafone.

Fulltrúar allra þeirra verkefna sem hlutu styrk úr Menningarnæturpotti Landsbankans í ár.

Menningarnæturpottur 2014 – styrkþegar

Styrkir að upphæð 200.000 kr.

 • Laufey Jónsdóttir: Gakktu í bæinn – Innsetning á litríkum ævintýrahurðum á Hverfisgötu sem hvetja fólk til grandskoða Hverfisgötuna í leit að nýrri upplifun.

Styrkir að upphæð 150.000 kr.

 • Hits&Tits – Tvíeykið Hits & Tits stendur fyrir óvenjulegu útikarókí á Bernhöftstorfunni þar sem gleðin skiptir meira máli en söngurinn.
 • Spessi og mótorhjólatöffararnir – Helstu töffarar landsins rokka saman í Tryggvagötunni. Þar verða einnig öll helstu sérsmíðuðu mótorhjól landsins til sýnis.
 • Berglind Jóna Hlynsdóttir – Hljóðinnsetning og myndverk í klukkunni á Lækjartorgi.
 • FALK – Gjörninga- og hljóðlistahátíð á Vitatorgi.
Styrkir að upphæð 100.000 kr.
 • Mengi – Blönduð myndlistar- og tónlistardagskrá í Mengi.
 • Tómas R. Einarsson – Salsamafían kennir einföld salsaspor í Bíó Paradís og Mafíuband Tómasar R. Einarssonar spilar fyrir dansi.
 • Skuggamyndir frá Býsans – Seiðandi tónleikar með balkantónlist á Cafe Haiti.
 • Áskell Harðarson – Veisla fyrir augu og eyru á tveggja ára afmæli Borgar með lifandi og metnaðarfullum raftónlistarflutningi í bland við plötusnúða.
 • Listvinafélag Hallgrímskirkju: Sálmafoss – Kórar, einsöngvarar, organistar, jazztónlistarfólk og raftónlistarfólk heldur uppi maraþontónleikum í Hallgrímskirkju.
 • Tangófélagið – Tangófélagið gleður gesti með tangódansi á götum úti sem hefst á Bergstaðastræti fyrir framan Kramhúsið.
 • Samtök um danshús – Dansveisla í Dansverkstæðinu; Krakkayoga, fjölskyldu Lunch Beat og Beyonce dansar.
 • Shalala: Raddir Reykjavíkur – Boðið verður upp á tilbrigði við baðmenningu Íslendinga.
 • Ragnar Ísleifur Bragason – Leiklistargjörningur í Fornbókaversluninni Bókinni á Hverfisgötu.
 • Bandalag íslenskra skáta – Skátagleði í Hljómskálagarði þar sem gestum gefst kostur á að kynnast ævintýrum skátastarfsins.
 • Jan Sjöberg – Vegglistaverk unnið á Hverfisgötu sérstaklega fyrir Menningarnótt.
Styrkir að upphæð 50.000 kr.
 • Tríó Reynis – Tríó Reynis Sigurðssonar flytur jazzskotna tónlist úr ýmsum áttum m.a. lög sem tengjast Reykjavík, sænsk alþýðulög og franska slagara.
 • Árni Heimir Ingólfsson: Töfraheimur sembalsins – Sembaltónleikar í Hannesarholti.
 • Guðrún Árný Karlsdóttir: Bjartir tónar – Guðrún Árný syngur eigin lög ásamt vel völdum dægurperlum í Dómkirkjunni ásamt strengjaleikurum.
 • Guðbjörg Guðmundsdóttir: Gargandi snilld! – Gagnvirk kóræfing á Hverfisgötu með þátttöku vegfarenda.
 • Garðveisla Þóru – Þóra Andrésdóttir býður gestum heim í garðinn sinn þar sem ungir og svo reyndari tónlistarmenn og spila fjölbreytta tónlist.
 • Pamela De Sensi: In Kontra – Pamela frumflytur nýtt tónverk, Nautilus, fyrir kontrabassa, bassa og alt-flautur eftir Steingrím Þórhallsson í Listasafni Íslands.
 • Örn Alexandersson: Í Hallormsstaðaskógi – Dagskrá byggð á dægurlögum sem voru vinsæl um miðbik síðustu aldar og eru enn í dag.
 • Fjögur ung leikskáld – Fjögur skáld skrifa fjögur leikverk sem leiklesin verða í Bíó Paradís.
 • Projekt Polska – Pólskt leikverk „Játningar atvinnulauss leikara“ eftir rithöfundinn og leikarann Marcin Zarzeczny flutt í Þjóðleikhúsinu.
 • Reykjavik Dance Festival Folk – Reykjavík Dance Festival og Body/Mind Festival í Varsjá, Póllandi, tvinna saman myndlist, tónlist og dansi í listrænu samtali.
 • Gallerý Brumm – Óskir gestanna ráða þegar ljóðin verða samin í Gallerý Brumm á Menningarnótt.
 • Íslensk grafík - Átján félagar Boston Printmakers verða paraðir saman við íslenska félaga sína á verkstæði grafíkfélagsins og afraksturinn sýndur á Menningarnótt.
 • Ívar Glói Gunnarsson og hópur myndlistarmanna – Átta ungir listamenn setja upp myndalistasýningu í Safnahúsinu við Hverfisgötu.
 • Petra Bender: Coventina – Ljósmyndir úr náttúru Íslands eftir Írisi Dögg Einarsdóttur og Petru Bender prýða götuhorn og krossgötur á Hverfisgötu.
 • Eygló Benediktsdóttir: Líf/Leaf – Gestum boðið að rita nafn á postulínslauf, hengja upp í tré, og fela móðurjörð verndun á viðkomandi.
 • Lókal leiklistarhátíð – Lókal, alþjóðleg leiklistarhátíð býður upp á óhefðbundið leikrit fyrir börn í formi leiðsagnar um borgina.
 • Assitej Ísland: Loikka on tour – Assitej býður upp á dansmyndir í Bíó Paradís sem unnar hafa verið af íslenskum ungmennum. 
 • Félag heyrnarlausra: Fljúgandi hendur – Gestum boðið inn í heim íslenska táknmálsins með söng, ljóðalestri, leiklist og samskiptum á táknmáli.
 • Menningarmiðstöðin Kyndiklefinn – Halla Himintungl og Sigga Kling með spádóma, galdra og gjörninga í Kyndiklefanum, menningarmiðstöð á Hverfisgötu.
 • Eva Guðrún Gunnbjörnsdóttir: Greftrun orðsins – Sett verður á svið minningarathöfn þar sem orðið „Eyðni“ verður greftrað og kvatt.

Forsíða - 19. maí 2020 09:27

Landsbankinn leiðandi í Evrópu samkvæmt mælingu Sustainalytics

Landsbankinn fær enn betri einkunn en áður í nýju UFS-áhættumati frá Sustainalytics og lækkar úr 17,5 niður í 13,5 stig á skala sem nær upp í 100. Landsbankinn er nú í 2. sæti af 382 bönkum sem fyrirtækið hefur mælt í Evrópu.


Nánar

Samfélagsmál - 27. mars 2020 13:00

Samfélagsskýrsla Landsbankans aðgengileg á netinu

Samfélagsskýrsla Landsbankans fyrir árið 2019 er nú aðgengileg á vef bankans. Í skýrslunni er fjallað ítarlega um samfélagsábyrgð bankans og áhrif starfseminnar á umhverfi og samfélag.


Nánar