Samtímauppgjör

Samtímauppgjör í innheimtuþjónustu

Samtímauppgjör lýsir sér þannig að þegar skuldari greiðir kröfu, skiptist greiðslan strax í tvo eða fleiri hluta og peningarnir rata strax til síns heima í stað þess að kröfuhafi bíði eftir uppgjöri síðar frá innheimtufyrirtæki. Kröfuhafinn fær sinn hluta strax inn á sinn bankareikning (gjarnan höfuðstól að viðbættum dráttarvöxtum) 

og innheimtufyrirtækið það sem því ber á sinn bankareikning (t.d. innheimtukostnað).

Þess ber að geta að jafnvel þó samtímauppgjör sé ekki notað, færist kröfugreiðslan samt strax á bankareikning viðtakanda.

 

Hvernig er þetta stillt?

Samtímauppgjöri er komið á af starfsfólki Landsbankans að beiðni kröfuhafa og í samráði við hann og viðkomandi innheimtufyrirtæki. Stillingin er skilgreind fyrir hverja innheimtuþjónustu (innheimtuauðkenni) óháð innheimtufyrirtæki. Þannig getur kröfuhafi haft margar leikreglur í gangi hverju sinni sem hámarkar sveigjanleika kerfisins. Til dæmis geta sumar kröfur verið í samtímauppgjöri og aðrar ekki.

Einnig má skipta höfuðstólsgreiðslunni, allt upp í fjóra hluta. Sérhver hluti fer á aðskilinn bankareikning, jafnvel í eigu ólíkra kennitalna og skiptingin getur ýmist verið grundvölluð á fastri fjárhæð eða prósentuhlutfalli. Þannig getur t.d. fyrsta skipting verið byggð á fastri fjárhæð, önnur skipting á hlutfalli og þriðja skipting á fastri fjárhæð.

 

Svæðin sem setja má í samtímauppgjör

 • Höfuðstóll
 • Dráttarvextir
 • Tilkynningargjald
 • Annar kostnaður
 • Vanskilakostnaður
 • Annar vanskilakostnaður
 • Vanskila- og annar vanskilakostnaður saman
 • Öll ofantalin svæði saman

Ráðstafanir í bókhaldskerfi

Samtímauppgjör hefur raunar ekkert með B2B að gera en samt er ástæða til að gera þessari þjónustu stuttlega skil. Einkum vegna þess að kröfugreiðslusvarið inniheldur öll svæði greiðslunnar, óháð því hvort notandinn á fullt tilkall til einstakra svæða. Þess vegna þarf að bregðast við í bókhaldskerfinu og gera viðeigandi ráðstafanir um leið og samtímauppgjöri er komið á.

Það er stillingaratriði í byrjun hvort samtímauppgjörið á við fruminnheimtu eingöngu, milliinnheimtu eingöngu eða bæði innheimtustigin. Þá er alltaf hægt að breyta uppsetningunni síðar og aðlaga hana nánar að þörfum og breytilegum aðstæðum kröfuhafa.

Allar nánari upplýsingar og ráðgjöf veita sérfræðingar bankans í síma 410 9099 og í netfanginu fyrirtaeki@landsbankinn.is.

 

 

Dæmi

Ímyndum okkur tilvik þar sem annar kostnaður ratar til innheimtufyrirtækis og öll önnur svæði til kröfuhafa.Við innlestur kröfugreiðslna mun bankinn skila kröfuhafanum heildargreiðsluupplýsingum, þ.m.t. öðrum kostnaði sem innheimtufyrirtækið fékk. Að óbreyttu mun uppgjörið ekki stemma við yfirlit bankareikninga. Þá þarf kerfisstjóri eða þjónustuaðili bókhaldskerfisins (hugbúnaðarfyrirtæki) að gera breytingar á viðkomandi innheimtuþjónustu í bókhaldskerfinu þannig að annar kostnaður er sjálfkrafa dreginn frá heildarfjárhæð greiðslu.

Um meðhöndlun fjármagnstekjuskatts í samtímauppgjöri

Fjármagnstekjuskattur (FMTSK) er reiknaður af dráttarvöxtum eingöngu. Almennt gildir að bankinn heldur eftir FMTSK af öllum greiddum kröfum nema þær séu komnar til milliinnheimtu og farnar að 

bera svonefnt MI auðkenni; þá skilar milliinnheimtufyrirtækið skattinum til ríksins. Þetta er þó ekki algilt þegar samtímauppgjör er annars vegar.

Áhrifum samtímauppgjörs á skattalega meðhöndlun greiðslna má lýsa eins og eftirfarandi:

Samtímauppgjör í fruminnheimtu

 • Í samtímauppgjöri í fruminnheimtu er hægt að skipta mörgum svæðum og bankinn heldur eftir FMTSK af þeim skattskyldu liðum sem fara til kröfuhafa.
 • Eigi þessir sömu liðir að fara til innheimtufyrirtækis er FMTSK ekki haldið eftir í bankanum.

Samtímauppgjör í milliinnheimtu

 • Í samtímauppgjöri í milliinnheimtu er eingöngu notast við eitt svæði, sem nefnt er Annar vanskilakostnaður.
 • Þá er bankareikningur innheimtufyrirtækisins tengdur við svæðið Annar vanskilakostnaður og innheimtufyrirtækinu ber að halda eftir FMTSK af gjöldum þess svæðis.
 • Bankinn heldur eftir öðrum skatti.