Fréttir

05. desember 2014 10:57

Bætt þjónusta við hlutagreiðslur í Kröfupotti

Í nóvember tóku gildi tvær breytingar í Kröfupotti RB varðandi svonefndar innborganir, einnig nefndar hlutagreiðslur. Breytingarnar eru til þess fallnar að bæta vöruframboð bankans og innheimtuaðila:

 • Lækka má höfuðstól krafna eftir að innborgun á sér stað.
 • Innborgun krafna er heimil á frum- og milliinnheimtustigi óháð aukaráðstöfun.

Fjallað er um hvorutveggja að neðan. Hvorki er þörf á aukalegri réttindastjórnun í B2B, né nýjum skeytum til að njóta uppfærslunnar.

Breytingarnar endurspegla áherslu Landsbankans á eflingu rafrænna samskiptaleiða og aukna sjálfsafgreiðslu viðskiptavina, auk þess að hafa í för með sér hagræði fyrir greiðendur, kröfuhafa og milliinnheimtufyrirtæki. Með auknu þjónustustigi bankans til innheimtufyrirtækja verða þau sjálfstæðari í daglegum rekstri. Síðast en ekki síst batnar frammistaða allra aðila gagnvart greiðanda kröfunnar því hann sér rétta stöðu kröfunnar flestum stundum.


Lækkun höfuðstóls eftir innborgun

Tilgangurinn er að koma í veg fyrir að fella þurfi kröfu niður og stofna nýja þegar greiðsla berst fram hjá Kröfupotti eða þegar kröfuhafi og greiðandi hafa samið um að höfuðstóll skuli lækkaður. Áður var einungis hægt að lækka höfuðstól þegar engin innborgun hafði átt sér stað.

Hér er verið að bæta samningastöðu allra málaðila, þannig að kröfuhafi eða innheimtuaðili fyrir hans hönd geti á auðveldari hátt samið við greiðanda um greiðsluáætlun gegn eigin tilslökun á höfuðstólsfjárhæð þó að fyrri innborganir hafi átt sér stað. Þá þarf síður að fella niður kröfuna og stofna nýja, með óþæginda- og umsýslukostnaði hjá öllum málsaðilum, greiðandanum þar á meðal. Fyrri leið, að fella niður kröfuna og stofna nýja í staðinn, kallaði á handvirkt utanumhald kröfuhafa og innheimtuaðila og þar af leiðandi aukna villuhættu.

Nánar um virknina:

 1. Ekki er hægt að lækka höfuðstól kröfu í sömu fjárhæð eða lægri en greitt hefur verið inn á kröfuna.

  Dæmi 1
  Ef krafa er kr. 10.000 og kr. 2.000 greiddar inn á höfuðstól þá er ekki hægt að lækka höfuðstól niður í kr. 2.000 eða minna.

  Dæmi 2
  Ef krafa er upphaflega að fjárhæð kr. 10.000 og búið er að greiða inn á höfuðstól kr. 6.000 þá eru eftirstöðvar kr. 4.000. Samið er um að lækka kröfuna um kr. 2.000, þá skal nýr höfuðstóll vera að fjárhæð kr. 8.000.

  Nýr lækkaður höfuðstóll er samtals innborgaður höfuðstóll + eftirstöðvar höfuðstóls.

 2. Dráttarvextir reiknast á breyttan höfuðstól frá gjalddaga eða síðustu innborgun.

 3. Hafi innborgun ekki dugað til að greiða áfallna dráttarvexti að fullu haldast þeir inni við lækkun höfuðstóls en dráttarvextir eru reiknaðir af nýjum höfuðstól frá síðasta innborgunardegi.

 4. Til að losna við að greiða áfallna dráttarvexti þarf að breyta kröfunni í dráttarvaxtareglu sem reiknar ekki dráttarvexti. Eigi að falla frá eftirstöðvum dráttarvaxta sem urðu eftir við síðustu innborgun er það gert með því að breyta dráttarvaxtareglu í reglu sem reiknar ekki dráttarvexti.

 5. Ekki er hægt að bakfæra greiðslu sem er greidd fyrir lækkun höfuðstóls.

Innborgun (hlutagreiðsla) heimil óháð aukaráðstöfun, bæði í frum- og milliinnheimtu

Tilgangurinn er að auka hagræði við notkun innheimtukerfisins gagnvart greiðanda og kröfuhafa. Áður gilti að innborgun var aðeins heimil í fruminnheimtu þegar aukaráðstöfun var ekki til staðar – og í milliinnheimtu þegar aukaráðstöfun var til staðar.

Á nýju reglunni eru tvær undantekningar. Innborgun er leyfð á öllum kröfum nema:

 • Gengiskröfum og
 • Kröfum með fasta fjárhæð í aukaráðstöfun

Áfram gildir líkt og áður, að ef banna á innborganir á einhverjar aðrar kröfur verður að setja þá merkingu á kröfurnar.

Fréttasafn


B2B - 24. mars 2020 10:48

Breyting á dráttarvaxtareglum

Miðvikudaginn 25. mars verður gerð breyting á dráttarvaxtareglum og samhliða verður þeim fækkað úr tólf í sjö.


Nánar