Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur

Frið­heim­ar: Að flétta sam­an land­bún­að og ferða­þjón­ustu

Hjónin á Friðheimum áttu sér ung þann draum að flytja í sveit, rækta tómata og vera í hestamennsku. Þau flétta saman ferðaþjónustu og landbúnað með góðum árangri og segja gæðin vera lykilatriðið. Vetrarmánuðirnir eru orðnir þéttbókaðir en búist er við allt að 160.000 gestum í ár.
18. september 2017

„Í grunninn eru Friðheimar gömul garðyrkjustöð sem var stofnuð árið 1946. Þegar við hjónin lukum okkar námi gengum við með þá hugmynd í maganum að flytja upp í sveit og rækta tómata og vera með hesta. Við vorum bara svo lánsöm að detta niður á þennan yndislega stað,“ segir Knútur Rafn Ármann, garðyrkjubóndi á Friðheimum.

Knútur og eiginkona hans, Helena Hermundardóttir, keyptu Friðheima árið 1995 og búa þar ásamt börnum sínum fimm sem öll hafa tekið virkan þátt í búskapnum. Knútur er búfræðingur frá Hólum og Helena garðyrkjufræðingur frá Reykjum en draumur þeirra var að flétta saman garðyrkju og hestamennsku.

„Þegar við komum á Friðheima hafði enginn búið þar í fjögur eða fimm ár. Staðurinn hafði staðið í eyði og var í mikilli niðurníðslu, en þetta var tilvalinn staður fyrir unga krakka til að hefja sinn búskap. Við vorum ekki nema 25 ára gömul,“ segir Knútur. Í Friðheimum eru ræktaðir tómatar allt árið um kring í raflýstum gróðurhúsum. Þar eru einnig ræktaðar gúrkur, stunduð hrossarækt og ferðamönnum er boðið upp á hestasýningu.

Rætt við ábúendur á Friðheimum.

„Svo tókum við risaskref fyrir átta árum síðan þegar við ákváðum að opna hjá okkur búið, og bjóða gestum að koma hér heim. Bæði til að kynnast íslenska hestinum og eins líka til að koma hingað inn í gróðurhúsið og kynnast íslenskri ylrækt sem er mjög skemmtilegt að segja frá og kynna. Við héldum að þetta yrði svona lítil sæt hliðarbúgrein en þetta er nú orðið stærsti hluti rekstrarins. Árið 2008, þegar við opnuðum búið, fengum við 900 gesti og ég var svo stoltur hvað margir komu og heimsóttu okkur það árið. Í ár gerum við hinsvegar ráð fyrir að gestirnir verði um 150-160.000,“ segir Knútur.

Ísland kjörland til ylræktar

Viðskiptavinirnir koma frá öllum heimshornum, bæði í skipulögðum hópum og svo geta gestir komið inn af götunni. Gestastofa er í miðju gróðurhúsi þar sem tekið er á móti hópum í kynningu og gestir geta gætt sér á tómatsúpu og nýbökuðu brauði innan um tómatplönturnar.

„Ferðamennirnir hafa mikinn áhuga á að vita hvernig hægt sé að rækta tómata allan ársins hring á þessu kalda landi. Við útskýrum fyrir þeim hvað sé svona sérstakt við íslenska tómata en þar eru gæðin númer eitt tvö og þrjú. Við vökvum tómatana með frábæru íslensku lindarvatni sem skiptir miklu máli því tómatar eru 92% vatn. Norðlæg lega eyjunnar þýðir að það eru ekki mörg meindýr sem herja á okkur. Við notumst því við svokallaðar lífrænar varnir og notum góða flugu á móti slæmri flugu. Svo erum við mjög nálægt markaðnum þannig að tómatarnir, sem við týndum hérna í morgun, verða komnir í verslanir seinni partinn eða í fyrramálið, sem gerir það að verkum að við getum leyft þeim að þroskast eða roðna á plöntunum og þannig verða þeir bragðmeiri,“ segir Knútur.

Hann bendir á að tæknin sem notuð er við ylræktina veki einnig athygli ferðamanna. „Það eru stýritölvur í öllum gróðurhúsunum sem tengdar eru veðurstöð upp á þaki sem aftur tengist móðurtölvu. Hún er tengd internetinu og ég get farið inn í hana með símanum mínum og stýrt öllu því sem þarf að gera. Þannig að með dyggri aðstoð tækninnar og náttúrunnar getum við búið til fullkominn dag fyrir plönturnar okkar, alla daga ársins. Þar með skila þær okkur hámarksgæðum í aldinin sem gerir Ísland að kjörlandi til ylræktar. Og þetta finnst mörgum ferðamönnum ótrúlega áhugavert og gaman að sjá. Þeir eru mjög upprifnir af því hvernig við erum að nýta okkar orku á jákvæðan og uppbyggilegan hátt.“

Þéttbókað allan veturinn

Knútur segir að miklar breytingar hafi átt sér stað í ferðaþjónustunni frá því að þau opnuðu gróðurhúsin 2008. „Það hafa orðið rosalegar breytingar undanfarin þrjú til fjögur ár því veturinn er að koma svo sterkur inn. Veitingastaðurinn er orðinn þéttbókaður í frá nóvember fram í mars. Það er orðin raunin. Ég held að ástæðan sé sú að það er bara eitthvað svo áhugvert við þessa fléttu ferðaþjónustunnar og landbúnaðarins. Fólk hefur svo mikinn áhuga að sjá hvaðan maturinn kemur, hvernig hann verður til og þessari matarupplifun sem við höfum verið að leika okkur með síðustu ár. Þetta gerir það að verkum að reksturinn er auðvitað auðveldari, við getum haft heilsársmannskap, sem gerir þjálfun auðveldari. Og svo gefur þetta okkur íbúunum hér upp í sveit miklu fleiri tækifæri.

Hugsaðu þér að við erum 100 kílómetra frá Reykjavík í þessari litlu sveit þar sem búa 1000 manns. Og það eru sex veitingastaðir opnir yfir vetrartímann sem við getum heimsótt þegar við ætlum að gera okkur dagamun. Þannig að þetta eru líka ótrúlega flottar breytingar fyrir íbúa landsins,“ segir Knútur.

Íslendingar stækkandi hópur

Það kom þeim hjónum skemmtilega á óvart hversu margir Íslendingar sækja Friðheima heim. Margir komi aftur og aftur. „Við erum alltaf að fá fleiri og fleiri Íslendinga til okkar og það er rosalega gaman að upplifa það hvað landsmenn hafa mikinn áhuga á að sjá hvað við erum að gera. Ég held að þeir Íslendingar sem heimsækja okkur hugsi aðeins öðruvísi næst þegar þeir fara út í búð að kaupa í matinn. Þá hugsa þeir meira um hvaðan maturinn er því það skiptir svo rosalega miklu máli hvað við látum ofan í okkur og að við vitum hvaðan varan kemur.“

Fjöldanum fylgja margar áskoranir

Knútur bendir á að vöxturinn í ferðaþjónustunni hafi verið gríðarlega mikill undanfarin ár. Hann dáist að því hvernig margir einyrkjar og frumkvöðlar takast á við þetta stóra verkefni og hafa gert það mjög vel. „Því þetta eru virkilega stórar áskoranir á hverju ári ef þú ert að taka á móti 20-30% fleiri gestum. Það er auðvitað krefjandi verkefni. Flestir ferðaþjónustuaðilar hafa átt fullt í fangi með að taka á móti fjöldanum og mér finnst greinin í heild hafa staðið sig alveg ótrúlega vel. Auðvitað er ýmislegt sem má laga og mikið af því snýr að hinu opinbera. En hvað okkar fyrirtæki varðar þá er í sjálfu sér ekkert markmið hjá okkur að taka við fleiri gestum. Við ætlum okkur ekkert að stækka og stækka og erum sátt við þá stærð sem við erum í. Við viljum frekar vera fullbókuð og ætlum okkur ekki að gleypa heiminn,“ segir Knútur.

Í sumar voru 49 manns að vinna í Friðheimum og í vetur verða þar 35 að störfum. Knútur og Helena hafa leitast við að hafa einstaklinga frá mörgum löndum í starfshópnum þannig að hópurinn tali mörg tungumál. Húsnæðisskortur er eitt helsta vandamálið við vöxt fyrirtækja í sveitinni að sögn Knúts. Fyrirtækið á 11 íbúðir fyrir starfsfólk sem ekki býr í sveitinni. Mikilvægt sé að búa vel að starfsfólki þar sem verðmæti fyrirtækis felast í mannauðnum.

Vill jákvæðari umræðu og betri samvinnu við hið opinbera

Knútur bendir á að umræðan um ferðaþjónustuna sé oft á tíðum alltof neikvæð og því þurfi að breyta. Ferðaþjónustuaðilar þurfi að hjálpast að við að tala jákvætt um greinina út á við og opna augu fólks fyrir því hvað er hægt að gera. „Ég myndi einnig vilja sjá þær breytingar að hið opinbera stígi miklu sterkar inn og vinni betur með greininni. Það særir mann svolítið að sjá hvernig ráðamenn tala um greinina út á við. Að það sé kominn tími til að greinin fari að skaffa eitthvað í þjóðarbúið þegar greinin er nú þegar að skaffa um 90 milljarða á ári. Mér finnst skipta miklu máli að við séum að byggja greinina upp saman.

Iðulega er rætt um að menn vilja eitthvað annað en stóriðjuna og ferðaþjónustan er virkilega þetta „eitthvað annað.“ Á mörgum stöðum út um allt land eru veitingastaðir opnir allt árið í krafti ferðaþjónustunnar og okkar fallega land er orðið blómlegra vegna uppgangs ferðaþjónustunnar. Við þurfum öll að hlúa að því og hið opinbera þarf að vanda sig meira,“ segir Knútur.

Knútur bendir á að ýmsu sé auðvelt að breyta og nefnir komugjöldin í því samhengi. „Ef hið opinbera myndi ákveða að taka komugjöld af öllum farþegum og allur sá sjóður yrði settur í uppbyggingu á vegakerfinu. Þetta yrði sameiginlegt átak ferðaþjónustunnar og okkar landsmanna því við borgum komugjöld líka ef við förum eitthvað erlendis. Þannig væri hægt að byggja upp innviðina fyrir okkur Íslendinga og ferðamennina jafnhliða. Svona einfalda tillögu ætti að vera hægt að framkvæma einn, tveir og þrír,“ segir Knútur.

Fínt að hægja aðeins á

Knútur telur að þróunin verði í þá átt að það hægist á þessari aukningu í komu ferðamanna. „Ég tel að það sé í raun hollt fyrir greinina að við séum ekki alltaf að horfa fram á 20-30% aukningu. Það er fínt að hægja aðeins á. En mér finnst fyndið þegar verið er að tala um greinina sem einhverja bólu. Þetta er engin bóla og eitthvað sem springur. Þetta er flott atvinnugrein, og margir búnir að leggja gríðarlega mikið á sig til að byggja hana upp. Það eru margir mjög flottir aðilar á markaðnum, margt hægt að gera og mörg tækifæri liggja í greininni þannig að mér finnst framtíðin mjög björt. En auðvitað þurfum við öllsömul að vanda okkur og gera þetta vel. Á meðan við gerum það vill fólk heimsækja okkur.“