Góð ráð um korta­notk­un í út­lönd­um

Greiðslukortasérfræðingur hjá Landsbankanum mælir með því að fólk greiði með snertilausum hætti, annað hvort með Apple Pay, kortaappinu eða með því að nota snertilausa virkni greiðslukorta. Þannig minnki hætta á að óviðkomandi sjái PIN-númerið.
Litríkir bolir á fataslá
18. júní 2019

Gyða Gunnarsdóttir, greiðslukortasérfræðingur hjá  Landsbankanum, segir að sem fyrr sé mikilvægasta spurningin sem hún spyrji sjálfa  sig áður en hún leggur í ferðalag þessi: Er ég með vegabréfið og Visakortið?  Farsíminn verði þó sífellt mikilvægari, sérstaklega eftir að hægt varð að nota  símann til að greiða fyrir vörur og þjónustu með því að nota snertilausar greiðsluleiðir,  s.s. Apple Pay eða kortaapp Landsbankans (fyrir Android-síma).

Farsíminn er þarfaþing

„Í kerfum bankans sjáum við að fólk notar mikið farsíma og úr til að greiða, ýmist með Apple Pay, kortaappinu, Garmin Pay eða Fitbit Pay. Þessar greiðsluleiðir er hægt að nota í mörgum löndum. Ég mæli með að fólk nýti sér greiðslur með síma eða úri eða snertilausa virkni greiðslukorta. Þar með fækkar skiptunum sem óviðkomandi getur fylgst með innslætti PIN-númers og það dregur úr hættu á að verða fórnarlamb svikahrappa,“ segir Gyða. Eftir að Covid-19-faraldurinn skall vilji líka fleiri greiða með snertilausum hætti til að draga úr líkum á smiti og sumar verslanir og veitingastaðir taki eingöngu við snertilausum greiðslum.

Síminn henti ekki bara vel til að greiða fyrir vörur og þjónustu. „Það er ótrúlega þægilegt að hafa aðgang að  Landsbankaappinu í símanum, þar  er hægt að hækka og lækka yfirdrátt og úttektarheimildir á kreditkortum, fylgjast með færslum,  frysta kort sem týnast og enduropna þau ef þau finnast.“

Notar debetkortið til að taka út reiðufé

Gyða mælir með því að taka með bæði kredit- og debetkort til útlanda. Það á ekki síst við þegar farið er til landa þar sem minni hefð er fyrir kortanotkun. Debetkortið notar hún yfirleitt til að taka reiðufé út úr hraðbönkum því það ber lægri úttektarþóknun. Lágmarksþóknun allra korta vegna erlendrar úttektar reiðufjár úr hraðbönkum er 800 kr. Það þýðir þá að ef fjárhæðin sem tekin er út er hærri en 30.000 kr. borgar sig að nota debetkortið fremur en kreditkortið. Ef upphæðin er lægri kemur út á eitt hvort notað er debet- eða kreditkort. Kreditkortið notar hún aftur á móti í verslunum og á veitingahúsum því ekki eru innheimt færslugjöld af kreditkortum.

Gyða mælir líka yfirleitt með því að fólk taki með sér gjaldeyri en það er misjafnt eftir löndum hversu mikið er hæfilegt.

Ef þú ert viss um að komast auðveldlega í hraðbanka er sennilega ekki þörf á að vera með mikinn gjaldeyri meðferðis og yfirleitt er hvort sem er öruggara og þægilegra að nota greiðslukort eða símann til að greiða á staðnum. Það þarf að hafa í huga að ef peningarnir glatast eða þeim er stolið, þá fást engar bætur. Ef þú á hinn bóginn týnir korti má frysta það strax í Landsbankaappinu og verja sig þar með gegn tjóni. Síðan getur þú opnað kortið aftur þegar það finnst.

Vert að vita

Hér fyrir neðan er listi yfir atriði sem gott er að  hafa í huga um kortanotkun áður en lagt er af stað í ferðalag til útlanda.

Er ég með næga úttektarheimild fyrir ferðina?

Ef ekki, þá er hægt að breyta heimild kreditkorta í Landsbankaappinu. Gott er að athuga áður en farið er hversu mikið svigrúm er til að hækka heimildina sjálfur eða hvort það þurfi að hringja í Þjónustuver eða fara í útibú.

Mörg hótel, og ekki síst bílaleigur, gera kröfu um að gestir og leigutakar leggi fram kreditkort sem tryggingu og geta tekið frá heimild og haldið henni meðan á ferð stendur.

Hvenær þarf að greiða kortareikninginn?

Það skiptir auðvitað höfuðmáli að reikningurinn lendi ekki í vanskilum. Í Landsbankaappinu er mjög auðvelt að fylgjast með kortafærslum og hversu mikið er til ráðstöfunar á kortinu.

PIN-ið á minnið

Við komumst hvorki lönd né strönd ef PIN-ið gleymist. Í Landsbankaappinu og netbankanum er hægt að fletta upp PIN-inu.

Passaðu upp á PIN-ið

Skúrkar stunda það að fylgjast með þegar fólk slær inn PIN-númer, stela í kjölfarið kortunum og versla svo eins mikið og hægt er, áður en korthafi nær að bregðast við. Á þeirri stundu er jafnvel búið að fullnýta heimildina og korthafi situr eftir með sárt ennið og oft á tíðum tjónið, þar sem færslurnar voru staðfestar með PIN.

PIN við endurgreiðslu

Ef söluaðili ætlar að endurgreiða eða leggja inn á kort með posa og biður um innslátt á PIN, þá skal fara sérstaklega varlega og tryggja að um endurgreiðslu sé að ræða áður en PIN er slegið inn. Þessi aðferð er þekkt en frekar óalgeng.

Læst PIN

Ef rangt PIN er slegið of oft inn, þá læsist PIN-ið. Ef þetta gerist þegar korthafi er staddur í útlöndum er í flestum tilvikum hægt að aflæsa því með því að fara í hraðbanka og taka út reiðufé. Gott er að miða við lágmarks úttektarfjárhæð að virði 10-15 þúsund íslenskar krónur.

Reiðufjárúttektir eru takmarkaðar

Reiðufjárúttektir erlendis eru takmarkaðar, bæði tími milli úttekta og hámarksupphæðir á sólarhring. Erlendis þurfa að lágmarki þrjár klukkustundir að líða á milli úttekta og er það hluti af áhættuvernd kortanna. Hraðbankaúttektir og gjaldkeraúttektir eru settar undir sama hatt þannig að þær reiknast saman inn í hámark dagsins. Gott er að kynna sér reglur bankans svo minni hætta sé á að lenda í óþægindum.

Staðsetning hraðbanka

Ef mögulegt er, þá er best að velja hraðbanka sem staðsettir eru á öruggum stöðum, s.s. við banka eða inni í banka, en forðast frekar hraðbanka sem standa stakir ef mögulegt er.

Kostnaður

Af reiðufjárúttektum erlendis með greiðslukortum greiðast þóknanir samkvæmt verðskrá bankans. Upplýsingar um Visa-gengið má finna á vef bankans.

Erlend úttekt í íslenskum krónum

Fólk sem er á ferðalögum erlendis er oft spurt hvort það vilji greiða færsluna í sínum eigin gjaldmiðli, í stað gjaldmiðils viðkomandi lands. Alla jafna er dýrara fyrir korthafa að samþykkja erlendu úttektina í íslenskum krónum en mörgum þykir þessi möguleiki þó þægilegur. Fjallað er um þetta í pistli hér á Umræðunni frá árinu 2015.

Takmörkun snertilausra færslna

Takmörkun snertilausra færslna með greiðslukorti er sú sama og á innlendum færslum nema að í viðkomandi landi séu strangari reglur, þá gilda þær. Engar sérstakar fjárhæðartakmarkanir eru á greiðslum með síma eða úri, umfram þær sem gilda um kortið sem er tengt við.

Tryggingavernd kreditkorta

Mismunandi er hversu víðtæk tryggingavernd fylgir kreditkortunum og fyrir brottför er gott að renna yfir skilmála tryggingafélagsins Varðar, sem tryggir korthafa Landsbankans. Korthafar sem eru með innifaldar bílaleigutryggingar í kortunum sínum ættu að kynna sér vel yfir hvað þær ná og hvaða löndum þær gilda ekki. Korthafar þurfa ekki að hafa greitt ferðakostnað, fargjald eða gistingu til að virkja hefðbundnar kortatryggingar.

Greiðsluvernd og endurkröfuréttur

Önnur mikilvæg vernd sem kortin veita eru svo greiðsluverndin og endurkröfurétturinn. Þegar verslanir og þjónustuaðilar geta af einhverjum ástæðum ekki staðið við afhendingu á vörum eða þjónustu getur þetta skipt verulegu máli.

Kortaþjónusta allan sólarhringinn

Korthafar Landsbankans njóta sólarhringsþjónustu. Eftir lokun Þjónustuvers Landsbankans tekur neyðarþjónusta Valitor við í síma 525-2000. Hægt er að hafa samband við Þjónustuver Landsbankans í s. 410 4000, með því að senda tölvupóst á netfangið landsbankinn@landsbankinn.is eða með því að senda skilaboð á Facebook.

Greinin var uppfærð 13. ágúst 2019 og 29. júní 2020.

Þú gætir einnig haft áhuga á
11. jan. 2022

Hvað þýða öll þessi fjármálaorð?

Áður en við förum að lesa okkur til um íbúðakaup eða mætum á fund með fjármálaráðgjafa getur verið gott að skoða hugtökin sem við munum lesa og heyra í samtalinu. Þannig getum við verið viss um að hafa þá undirstöðu sem við þurfum til að byggja skilning og taka raunverulega upplýstar ákvarðanir.
5. jan. 2022

Fimm leiðir til að setja sér fjárhagsleg markmið

Fjárhagsleg markmiðasetning er oft grunnurinn að því að önnur markmið geti orðið að veruleika. Hér á eftir fara nokkur ráð um hvernig gott er að bera sig að þegar þú setur þér fjárhagsleg markmið.
14. des. 2021

Valgreiðslur í netbankanum – hvaðan koma þær og til hvers eru þær?

Valgreiðslur (valkröfur) eru reikningar sem ekki þarf að greiða. Þær eru gjarnan stofnaðar af félagasamtökum eða stofnunum og oft í þeim tilgangi að afla styrkja til góðra málefna. Í appinu og netbankanum er hægt að fela valgreiðslur eða eyða þeim (og auðvitað greiða þær, ef vilji er til þess). Um þetta og aðra eiginleika valgreiðslna fjallar þessi grein.
14. okt. 2021

Þú getur byggt upp séreign með skyldulífeyrissparnaðinum

Í hugum margra er lítill munur á lífeyrissjóðum og þeirri þjónustu sem þeir bjóða upp á. Sú er þó ekki raunin og liggur munurinn m.a. í því að sumir lífeyrissjóðir bjóða fólki upp á þann kost að greiða hluta af skyldulífeyrissparnaði í séreign sem ella hefði runnið í samtryggingu. Séreignin erfist að fullu við fráfall sjóðsfélaga.
7. okt. 2021

Hvernig getur sparnaður stuðlað að sjálfbærara samfélagi?

Loftslagsbreytingar, góðir stjórnarhættir og ábyrg nýting auðlinda jarðar eru aðeins nokkur viðfangsefni sjálfbærni, enda snertir hún á flestu sem við tökum okkur fyrir hendur.
Verðbréfasíða í netbanka
5. okt. 2021

Þetta er gott að vita áður en þú kaupir hlutabréf

Áður en fjárfest er í hlutabréfum er mikilvægt að vera með lykilhugtök á hreinu, skilja ferlið og vera meðvituð um áhættuna sem fylgir.
Kona að hlaupa
15. sept. 2021

Hvers vegna eignadreifingarsjóðir?

Þegar þú fjárfestir í eignadreifingarsjóði fjárfestir þú í vel dreifðu eignasafni. Markmið eignadreifingarsjóða er að ná ávöxtun og dreifa áhættu með virkri stýringu á fjárfestingum í íslenskum og erlendum fjármálagerningum.
28. júní 2021

Ertu á leið í sumarfrí?

Þú getur nýtt þér nánast alla þjónustu bankans í símanum og tölvunni. Í þessari grein er fjallað um nokkrar algengustu aðgerðirnar í appinu og netbankanum sem geta komið sér vel í sumarfríinu.
Rafbíll í hleðslu
7. júní 2021

Ertu á leiðinni í fyrsta rafbílaferðalagið?

Ferðalög á rafbílum hafa aldrei verið auðveldari og sífellt fjölgar nýjum hraðhleðslustöðvum sem geta hlaðið bílinn nánast til fulls á 10-40 mínútum. Það þarf þó að hafa nokkra hluti í huga áður en lagt er af stað í langferðalag á rafbílnum.
Verðbréf í appi
3. maí 2021

Þetta er gott að vita áður en þú kaupir í sjóði

Fjárfesting í verðbréfa- og fjárfestingarsjóðum er vinsæl leið til að ávaxta sparifé. Almennt má segja að slíkir sjóðir gefi kost á meiri ávöxtun en hefðbundnir sparireikningar, sérstaklega þegar vextir eru lágir. Áhættan er á hinn bóginn meiri og hún er mjög misjöfn á milli sjóða. Því er gott að þekkja nokkur lykilhugtök þegar þú veltir fyrir þér að setja sparnaðinn þinn, eða hluta af honum, í sjóð.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur