Hvernig virka náms­lán?

Námslán eru hagstæð lán sem eiga að tryggja öllum tækifæri til náms, án tillits til efnahags. En það er mikilvægt að muna að það þarf að endurgreiða lánin og það getur tekið langan tíma.
Námsfólk fyrir utan Stúdentakjallarann
2. september 2020 - Landsbankinn

Námslán eru líklega ódýrustu lán sem í boði eru á Íslandi en vextir af þeim eru mun lægri en á öðrum lánum, t.d. íbúðalánum. Þau eru samt verðtryggð, sem þýðir að lánið hækkar samhliða öðrum verðhækkunum í landinu. Upphæð lánsins mun þess vegna hækka fyrstu árin á sama hátt og laun, vöruverð og fasteignaverð hækka með tímanum.

Nemendur við íslenska háskóla geta tekið námslán ef námið er skilgreint sem fullt nám, eða 30 ECTS einingar á önn. Nám við viðurkennda háskóla erlendis er líka lánshæft, sem og ýmist sérnám sem metið er af stjórn Menntasjóðs námsmanna.

Ef þú hefur verið í vinnu árið áður en þú byrjar í háskólanámi eða haft háar tekjur yfir sumarið getur þó verið að námslánin skerðist því þá er gert ráð fyrir að þú getir séð um framfærsluna að hluta til sjálf/ur.

Námslán geta fljótt orðið að háum upphæðum

Það verður samt að muna að námslánin hverfa ekki eftir útskrift. Það þarf að endurgreiða þau og það skiptir máli að hafa á hreinu hvaða áhrif endurgreiðsluferlið hefur á launin þín eftir útskrift.

Ef þú tekur t.d. full námslán í fimm ár með láni vegna húsnæðiskostnaðar getur heildarskuldin numið um 8,5 milljónum króna þegar þú útskrifast. Ef þú tekur aukalega lán vegna skólagjalda, ferð í nám erlendis þar sem verðlag er hátt o.s.frv. getur upphæðin orðið enn hærri.*

Ný lög um Menntasjóð námsmanna

Lögum um námslán var breytt vorið 2020 og felast talsverðar breytingar í nýju lögunum. Um leið var Lánasjóður íslenskra námsmanna (LÍN) lagður niður og Menntasjóður námsmanna tók við hlutverki hans.

Stærsta breytingin er e.t.v. sú að lánþegar sem ljúka prófgráðu á tilsettum tíma eiga nú rétt á námsstyrk sem lækkar höfuðstól lánsins um 30% eftir að námi lýkur. Þetta á bara við um fullt nám sem telur 60 ECTS einingar á ári. Sjóðurinn tekur tillit til sérstakra aðstæðna sem geta komið upp og seinkað námi, annars miðast styrkurinn við að námsmenn ljúki námi á réttum tíma með nokkru svigrúmi sem getur numið 6 mánuðum til tveimur árum eftir því hve námið er langt.

Önnur mikilvæg breyting er að beinn stuðningur er nú veittur vegna framfærslu barna lánþega í stað lána. Þetta á einnig við um meðlagsgreiðendur og þýðir að námsmenn sem eiga börn geta lækkað lántöku sína verulega.

Það getur tekið langan tíma að greiða niður námslán

Í nýja kerfinu geta 8,5 milljóna króna námslán þannig orðið að u.þ.b. 6 milljónum króna námsláni eftir að styrkurinn hefur verið greiddur inn á höfuðstólinn. Það munar um minna, en upphæðin er engu að síður há. Þegar þú byrjar að borga af námslánum eru greiðslurnar tengdar því hversu háar tekjur þú hefur, það er ekki ætlast til þess að afborganirnar sligi fjárhaginn þinn. En það þýðir líka að þú getur verið ansi lengi að greiða þau upp.

Samhliða breytingum á námslánum voru vextir á námslánum hækkaðir og jafnframt gerðir breytilegir (sem þýðir að þeir breytast með vaxtakjörum sem íslenska ríkinu bjóðast). Það þýðir líka að það er erfitt að reikna nákvæmlega hvernig endurgreiðslur á láninu þínu munu fara fram. Ef við miðum við núverandi kerfi og að þú hafir 7 milljónir króna í árstekjur eftir að þú útskrifast getur þú gert ráð fyrir að greiða 262.000 af námsláninu á ári, eða tæplega 22.000 á mánuði.*

Miðað við sömu útreikninga myndi það taka þig 26 ár að borga allt lánið þrátt fyrir að 30% höfuðstólsins hafi verið felldur niður. Ef lánið er hærra tekur enn lengri tíma að greiða það upp. Útreikningarnir hér að ofan eru auðvitað bara dæmi. Reglur, endurgreiðsluhlutfall, vextir og annað getur breyst og það borgar sig að fylgjast með. Á vef Menntasjóðs eru reiknivélar þar sem þú getur bæði reiknað út upphæðir sem þú færð til framfærslu og hvernig endurgreiðslur verða miðað við tekjur.

Einfalt að sækja um

Það er í sjálfu sér ekki flókið að taka námslán. Þegar þú hefur fengið staðfesta skólavist geturðu skilað inn umsókn rafrænt hjá Menntasjóðnum með rafrænum skilríkjum. Ef þú átt ekki rafræn skilríki getur þú t.d. fengið þau ókeypis í snjallsímann þinn með því að panta tíma í næsta útibúi Landsbankans. Á vef Menntasjóðs finnur þú líka allar upplýsingar t.d. um það hvort lánið þitt er lánshæft og reiknivélar um það hvernig dæmið lítur út: hversu hátt námslán þú getur fengið, hvort lánið skerðist vegna launa og áætlun um hvernig afborganir af láninu geta litið út.

Við getum hjálpað þér að brúa bilið

Námsmenn geta valið um að fá námslán greidd jafnóðum yfir önnina eða eftir að önninni lýkur. Ef þú færð námslán greidd eftir önnina eða þarft að brúa bilið tímabundið, t.d. vegna tölvukaupa eða frá því að önn lýkur þar til sumarlaunin byrja að berast, bjóðum við ýmsa þjónustu sem getur komið að gagni.

Námsmenn sem eru í Námunni, vildarþjónustu okkar fyrir ungt fólk, fá yfirdráttarlán á mun lægri vöxtum en venjulegir yfirdráttarvextir. Einn af kostunum við yfirdráttarheimild er að þú borgar engin lántökugjöld og borgar bara vexti af þeim hluta yfirdráttarheimildarinnar sem þú nýtir.

Skipuleggðu þig vel og skoðaðu hvernig þú getur gert lífið auðveldara

Fæstir sem eru í námi lifa miklu lúxuslífi. Það er mjög góð hugmynd að skipuleggja sig og skoða hvernig peningarnir nýtast hvað best. Það er mikilvægt að nýta sumarlaunin vel og ef þú getur sparað yfir sumarið verður veturinn auðveldari. Landsbankinn býður ýmsar leiðir til að spara. Þú getur stofnað sparnaðarreikninga og það tekur enga stund að skrá sig í mánaðarlegan sparnað á netinu.

Í Námunni reynum við líka að gera lífið aðeins auðveldara og skemmtilegra með ýmsum hætti. Þú færð 2 fyrir 1 í bíó með Námukortinu, það er ekkert árgjald á debetkortinu þínu og þú færð 150 fríar kortafærslur á ári. Ef þú ert með kreditkort safnarðu líka Aukakrónum sem þú getur svo notað til að gera eitthvað skemmtilegt.

Við bjóðum ýmsa þjónustu eins og húsaleiguábyrgð ef þú ert að leigja íbúð og greiðsluþjónustu fyrir reglulegu útgjöldin. Fyrst og fremst mælum við með því að þú njótir tímans og þess að vera í námi. Ef þú ert í vafa eða lendir í vandræðum getur þú alltaf haft samband við okkur í gegnum netspjallið, hringt í Þjónustuverið í síma 410 4000 eða pantað tíma í ráðgjöf á landsbankinn.is.

*Útreikningar m.v. reiknivél Menntasjóðs 20. ágúst 2020
Þú gætir einnig haft áhuga á
Nemendur í Háskóla Íslands
10. mars 2021

„Hlustaðu á hjartað og stundaðu nám þar sem áhuginn liggur“

Sumarið 2020 birtum við viðtal við þrjá námsmenn sem höfðu hlotið námsstyrki Landsbankans. Við heyrðum svo aftur í þeim hljóðið í mars 2021, rúmlega ári eftir að Covid-19-faraldurinn skall á.
15. okt. 2018

Elstir og tekjuhæstir en eyða mestu í fæði og húsnæði

Íslenskir háskólastúdentar eru þeir elstu í Evrópu, þeir eiga fleiri börn og eru með meiri tekjur en háskólastúdentar í öðrum Evrópuríkjum. Þeir búa lengur heima og kostnaður við fæði og húsnæði er tvöfalt hærri en Evrópumeðaltalið segir til um.
Vefkökur

Með því að smella á “Leyfa allar” samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur