Fræðsla í skólum

Það er mikilvægt að ungt fólk öðlist skilning á fjármálum sínum. Rannsóknir sýna að þeir sem hafa fengið kennslu í fjármálum eru líklegri til að spara og skipuleggja fjármál sín betur en aðrir. Það er skylda fjármálafyrirtækja að leggja sitt af mörkum á sviði fjármálalæsis og Landsbankinn hefur um árabil lagt áherslu á fjármálafræðslu fyrir ungmenni í efstu bekkjum grunnskóla og framhaldsskóla.

Fjármálafræðsla fyrir framhaldsskólanema

Landsbankinn hefur undanfarin ár boðið upp á fjármálafræðslu í framhaldsskólum með það að markmiði að efla fjármálaskilning nemenda og gera þeim betur kleift að greina valkosti í fjármálum og gera áætlanir.

Fjallað er um fjármál á þann hátt sem hentar þessum aldurshópi og er áhersla lögð á grunnatriði fjármála, almenna fjármálaneyslu, lífsstíl einstaklinga og dæmi tekin ásamt umræðum.

 Markmið Landsbankans með fjármálafræðslunni er að stuðla að auknu fjármálalæsi ungs fólks. Hvorki er um kynningu á vörum Landsbankans að ræða né dreifingu á markaðsefni.

Þeir skólar sem hafa áhuga á fjármálafræðslu, geta sent tölvupóst með mögulegri dagsetningu á landsbankinn@landsbankinn.is.

Fjármálavit: Fjármálafræðsla SFF fyrir grunnskólanema

Fjármálavit nefnist kennsluefni í fjármálafræðslu fyrir nemendur á efsta stigi grunnskóla. Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) standa fyrir verkefninu í samvinnu við aðildarfélögin og grunnskólakennara. Landsbankinn tekur virkan þátt í verkefninu sem þykir afar vel heppnað.

SFF þróaði námsefnið í samvinnu við kennara og kennaranema og er markmiðið að fræða nemendur í öllum skólum landsins um grunnþætti fjármála. Einnig er námsefninu ætlað að veita innblástur í kennslu um fjármál.

Starfsmenn aðildarfélaga SFF um allt land heimsækja skóla á sínu svæði og miðla námsefninu án tengingar við fyrirtækin. Yfir tuttugu starfsmenn Landsbankans hafa tekið þátt í fræðslunni.

Verkefnið hefur fengið mjög góðar viðtökur og hafa mörg þúsund nemendur út um allt land fengið fræðslu. Mikið er lagt upp úr því að ná til allra krakka hvar sem þeir búa á landinu.