Eignadreifing

Eignadreifing er vænleg leið til árangurs

Það er ekkert öruggt í heimi fjárfestinga frekar en annars staðar. En það að dreifa eignum markvisst og með upplýstum hætti er almennt skynsöm leið til að draga úr áhættu en jafnframt halda í góða ávöxtun til lengri tíma litið. Eignasafn sem er byggt upp af mörgum ólíkum eignum og eignaflokkum, innlendum sem erlendum, felur almennt í sér minni áhættu en einsleitt safn eigna.

Fjárfesting í Eignadreifingasjóðum Landsbréfa getur verið vænleg leið til árangurs. Eignadreifingasjóðir eru blandaðir fjárfestingarsjóðir með virka eignastýringu sem fjárfesta í dreifðu og blönduðu safni verðbréfa, sjóða og innlána. Aðallega er fjárfest í innlendum sem og erlendum hlutabréfasjóðum og skuldabréfasjóðum ásamt skuldabréfum og hlutabréfum, peningamarkaðsgerningum og innlánum til samræmis við fjárfestingarstefnu hvers sjóðs.

Til skamms tíma má búast við umtalsverðum sveiflum í ávöxtun sjóðanna og er ráðlagður fjárfestingartími 3 ár eða lengri.

 

Fjárfesta í sjóðum

Fá ráðgjöf

Helstu kostir

  • Sjóðirnir eru opnir öllum fjárfestum, einstaklingum sem og lögaðilum.
  • Fjárfest er í ólíkum eignaflokkum og ólíkum eignum innan eignaflokka til þess að draga úr áhættu.
  • Reyndir sjóðstjórar stýra fjárfestingum sjóðsins.
  • Skattalegt hagræði, ekki er greiddur fjármagnstekjuskattur nema við innlausn.
  • Engin binding - hægt er að innleysa í sjóðunum með tveggja daga fyrirvara.
  • Einföld leið til þess að byggja upp sparnað og dreift eignasafn.

Þrír eignadreifingarsjóðir eru í boði með ólíkar fjárfestingastefnur

 

Eignasamsetning sjóðanna þriggja endurspeglar mismunandi stig áhættu


Eignadreifing – Virði, lægra hlutfall áhættusamra eigna (hlutabréfa), sveiflur í ávöxtun til skamms tíma gætu orðið minni en í öðrum Eignadreifingarsjóðum.

Eignadreifing – Vöxtur, hærra hlutfall áhættusamra eigna (hlutabréfa), sveiflur í ávöxtun til skamms tíma gætu orðið meiri en í Eignadreifingu – Virði.

Eignadreifing – Langtíma er með hæsta hlutfall áhættusamra eigna (hlutabréfa) og sveiflur í ávöxtun, til skamms tíma, gætu þar af leiðandi orðið meiri en í öðrum Eignadreifingarsjóðum.

Fyrirvari


Sjóðirnir eru fjárfestingarsjóðir (Non -UCITS), starfræktir í samræmi við lög nr. 128/2011 um verðbréfasjóði, fjárfestingarsjóði og fagfjárfestasjóði og lúta eftirliti Fjármálaeftirlitsins. Athygli fjárfesta er vakin á því að fjárfestingarsjóðir hafa rýmri fjárfestingarheimildir en verðbréfasjóðir samkvæmt lögunum. Sjóðirnir eru reknir af Landsbréfum hf., rekstrarfélagi með starfsleyfi á Íslandi og heyrir undir eftirlit Fjármálaeftirlitsins. Landsbankinn hf. er vörsluaðili sjóðanna. Áhætta fylgir ávallt fjárfestingu í sjóðum þar sem gengi þeirra getur 

 


bæði hækkað og lækkað vegna verðbreytinga á eignum sjóðanna og vegna gengisflökts gjaldmiðla þegar eignir sjóða eru í erlendum gjaldmiðlum. Ávöxtun í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur. Fjárfestum er bent á að kynna sér vel lykilupplýsingar og útboðslýsingu sjóða áður en fjárfest er í þeim en gögnin eru aðgengileg á vefsíðu Landsbankans á framangreindum tenglum Eignadreifingarsjóða og í útibúum bankans.