Bankaráð

Bankaráð Landsbankans

Bankaráð Landsbankans er kjörið á aðalfundi til eins árs í senn og eru kjörnir sjö aðalmenn og tveir varamenn.

Hefur yfirumsjón með starfsemi bankans í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir.
Mótar almenna stefnu bankans og sér til þess að skipulag og starfsemi hans sé í réttu horfi.
Hefur almennt eftirlit með rekstrinum og að nægilegt eftirlit sé haft með bókhaldi og meðferð fjármuna.

Jón Þorvarður Sigurgeirsson

Formaður

Jón Þorvarður Sigurgeirsson er fæddur árið 1962. Hann er efnahagsráðgjafi menningar- og viðskiptaráðherra. Jón lauk cand.oecon námi frá Háskóla Íslands 1986 og prófi í verðbréfamiðlun 1988. Jón hóf störf hjá Seðlabanka Íslands 1986. Hann starfaði sem aðstoðarframkvæmdastjóri alþjóða- og markaðsviðs og erlendra viðskipta frá árinu 1994 og síðar sem framkvæmdastjóri alþjóðasviðs 2002-2006. Hann var forstöðumaður skrifstofu seðlabankastjóra og framkvæmdastjóri alþjóðasviðs 2008-2019. Þá starfaði Jón hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum í Washington DC í samtals átta ár, þar af sem fulltrúi Norður- og Eystrasaltslanda í stjórn sjóðsins um sex ára skeið, 2006-2008 og 2019-2023. Jón var stjórnarmaður í Bankasýslu Grikklands (Hellenic Financial Stability Fund, HFSF) 2015-2019 og sat um skeið í stjórn Fjármálaeftirlitsins á árunum 2009-2011. Jón var einnig stjórnarformaður Eignasafns Seðlabanka Íslands 2012-2017 og sat í framkvæmdahópi stjórnvalda um afnám gjaldeyrishafta og lausn á vanda slitabúanna 2014-2015. Jón á sæti í stjórn Hörpu, tónlistar- og ráðstefnuhúsi frá 2023 og situr í verkefnisstjórn um úrvinnslu eignasafns ÍL-sjóðs. Þá hefur hann tekið þátt í störfum fjölda nefnda og vinnuhópa, bæði á alþjóðlegum og innlendum vettvangi, varðandi laga- og reglusetningu á sviði fjármálamarkaðar. Jón var kjörinn í bankaráð í apríl 2024 og er formaður starfskjaranefndar.

Eva Halldórsdóttir

Varaformaður

Eva Halldórsdóttir er fædd árið 1979. Hún er framkvæmdastjóri og einn eigenda lögmannsstofunnar LLG Lögmenn. Eva lauk embættisprófi í lögfræði frá lagadeild Háskóla Íslands árið 2004 og LL.M. gráðu frá lagadeild Stanford-háskóla árið 2014, með áherslu á stjórnarhætti fyrirtækja. Eva öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi 2005 og fyrir Landsrétti 2023. Þá hefur Eva lokið prófi í verðbréfamiðlun. Eva hóf störf hjá LLG Lögmönnum (áður Lögmenn Lækjargötu) árið 2014 og hefur verið í eigendahópi félagsins frá 2018. Á árunum 2004-2012 starfaði hún sem lögmaður og síðar forstöðumaður vátryggingasviðs hjá Okkar líftryggingum. Hún er formaður úrskurðarnefndar sjómanna og útvegsmanna, nefndarmaður í áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema og sinnir stundakennslu við Háskólann á Bifröst. Eva hefur gegnt ýmsum stjórnar- og trúnaðarstörfum. Hún hefur t.a.m. setið í stjórnum Kríu – sprota- og nýsköpunarsjóðs, Glyms, TM trygginga, TM líftrygginga og Raufarhólshellis. Þá á hún sæti í stjórn Lögmannafélags Íslands og hefur gegnt trúnaðarstörfum fyrir Knattspyrnufélagið Val og Knattspyrnusamband Íslands. Eva var kjörin í bankaráð í apríl 2024.

Kristján Þ. Davíðsson

Bankaráðsmaður

Kristján Þ. Davíðsson er fæddur árið 1960. Hann er eigandi og stjórnarmaður Viðskiptaþróunar sem starfar á sviði ráðgjafar innan sjávarútvegs á Íslandi og á alþjóðavettvangi. Kristján er með meistaragráðu í Sjávarútvegsfræðum frá Arctic University of Norway frá 1987 og skipstjórnarpróf frá Stýrimannaskólanum 1980. Kristján var framkvæmdastjóri Landssambands fiskeldisstöðva 2017-2018, framkvæmdastjóri skilanefndar Glitnis 2008-2009 og forstöðumaður sjávarútvegsteymis og framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs Glitnis 2001-2003 og 2005-2008. Árin 2003-2005 var Kristján forstjóri/aðstoðarforstjóri HB Granda 2003-2005 og sölustjóri hjá Marel 1994-2000. Kristján hefur setið í stjórnum margra fyrirtækja um árabil og situr nú í stjórn Brims sem stjórnarformaður, Marine Stewardship Council, SOS Barnaþorpanna, Snerpu, ISDER og First Water. Áður hefur hann um árabil setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, m.a. í bankaráði Landsbankans 2011-2015, Völku, Olivita, Vöku, Corporacion Pesquera Inca, Salar Islandica, Almenna lífeyrissjóðsins, Sjótækni og Pólar toghlera. Þá hefur hann verið ræðismaður Brasilíu á Íslandi síðan 2011 og gegnt ýmsum trúnaðarstörfum á sviði sjávarútvegs. Kristján var kjörinn í bankaráð í apríl 2024.

Rebekka Jóelsdóttir

Bankaráðsmaður

Rebekka er fædd árið 1981. Hún er fjármálastjóri og staðgengill forstjóra Mílu. Rebekka lauk prófi í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík 2005 og MCF-gráðu í fjármálum fyrirtækja frá Háskólanum í Reykjavík 2015. Þá lauk hún prófi í verðbréfaviðskiptum 2006. Á árunum 2018-2023 starfaði Rebekka sem forstöðumaður Hagdeildar hjá Marel og 2014-2018 var Rebekka fjárfestingastjóri hjá Framtakssjóði Íslands. Áður starfaði Rebekka meðal annars hjá Arion banka í fyrirtækjaráðgjöf og endurskipulagningu og hjá Sparisjóði Reykjavíkur og nágrennis (SPRON) sem verðbréfamiðlari og við ýmis önnur störf. Rebekka hefur setið í stjórnum ýmissa félaga í tengslum við störf sín hjá Framtakssjóði Íslands og ber þar helst að nefna Icelandic Group og tengd félög. Einnig sat hún um tíma í stjórn Landsels og Sementsverksmiðjunnar í tengslum við störf sín hjá Arion banka. Rebekka var kjörin í bankaráð í apríl 2024.

Steinunn Þorsteinsdóttir

Bankaráðsmaður

Steinunn er fædd árið 1976. Hún er eigandi Auðsýnar og starfar sem sjálfstæður ráðgjafi. Steinunn lauk prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands 2002 og er með meistaragráðu í iðnaðarverkfræði frá Chalmers University of Technology 2006. Þá hefur hún lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Steinunn starfaði hjá Mannviti 2018-2023, lengst af sem sviðsstjóri innri þjónustu og bar meðal annars ábyrgð á sjálfbærni, mannauðsmálum, gæðamálum og nýsköpun. Á árunum 2016-2018 starfaði Steinunn hjá stoðtækjafyrirtækinu Össuri sem verkefnastjóri í alþjóðlegum verkefnum. Steinunn starfaði hjá Íslandsbanka 2007-2016 og verkefnastýrði þar m.a. fjárhagslegri endurskipulagningu bankans. Hún var gæðastjóri Íslandsbanka 2012-2016 og áður verkefnisstjóri innan áhættustýringar hjá bankanum. Steinunn var kjörin í bankaráð í apríl 2024 og er formaður Áhættunefndar.

Þór Hauksson

Bankaráðsmaður

Þór er fæddur árið 1972. Þór lauk BA-prófi í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands 1995 og MA-prófi í stjórnmála- og Evrópuhagfræði frá University of Hull 1998. Þá lauk hann MBA-prófi með áherslu á fjármál frá Háskólanum í Reykjavík 2007 og hefur að auki lokið prófi í verðbréfaviðskiptum. Þór var framkvæmdastjóri hjá fiskvinnslufélaginu Von 2019-2023, forstöðumaður hjá fyrirtækjaráðgjöf Deloitte 2014-2019, framkvæmdastjóri Burðaráss 2013-2014 og starfaði hjá Framtakssjóði Íslands 2010-2013. Áður var Þór hjá Skiptum, Straumi fjárfestingarbanka og Kaupþingi. Hann hefur setið í stjórnum ýmissa fyrirtækja, meðal annars Valitors, Vodafone, Advania, N1, Icelandic Group, Húsasmiðjunnar, Vestia, Invent Farma og fleiri félaga. Þá var Þór var formaður starfshóps um uppskiptingu Íbúðalánasjóðs og í kjölfarið formaður fjárfestingarráðs ÍL-sjóðs. Þór var kjörinn í bankaráð í apríl 2024.

Örn Guðmundsson

Bankaráðsmaður

Örn Guðmundsson er fæddur árið 1972. Hann er framkvæmdastjóri COWI Ísland (áður Mannvit) og hefur víðtæka reynslu af störfum á fjármálamarkaði. Örn lauk cand.oceon prófi frá Háskóla Íslands 1996 og MSc-gráðu í alþjóðlegum viðskiptum frá Copenhagen Business School 1998. Örn var fjármálastjóri Mannvits 2015-2018 og starfaði um árabil fyrir skilanefnd Kaupþings, m.a. sem aðstoðarframkvæmdastjóri. Örn hefur setið í stjórnum fjölmargra fyrirtækja á Íslandi og erlendis í tengslum við störf sín, m.a. í stjórn Skjásins, Klakka og Skipta. Örn var kjörinn í bankaráð í apríl 2024 og gegnir formennsku í endurskoðunarnefnd.

Varamenn

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir

Varamaður

Stefanía Guðrún Halldórsdóttir er fædd árið 1973. Hún er forstjóri tölvuleikjafyrirtækisins Avalanche Studios Group í Svíþjóð og hefur gegnt því starfi frá árinu 2023. Stefanía lauk BSc-gráðu í landfræði 2000 og MSc-prófi í umhverfisfræði frá Háskóla Íslands 2005. Stefanía starfaði hjá CCP Games 2010-2017 á Íslandi og í Shanghai og var síðast framkvæmdastjóri CCP á Íslandi 2016-2017. Á árunum 2018- 2020 gegndi Stefanía starfi framkvæmdastjóra markaðs- og viðskiptaþróunar hjá Landsvirkjun. Hún var framkvæmdastjóri hjá Eyrir Venture Management 2020-2023 og stýrði þar framtakssjóðnum Eyrir Vöxtur. Stefanía átti sæti í ýmsum ráðum og nefndum á vegum Landsvirkjunar meðan hún var þar við störf, meðal annars á sviði orkuöryggismála, orkuskipta og mótun orkustefnu fyrir Ísland. Þá var hún einnig í nefndum og hópum á vegum stjórnvalda, var skipuð í verkefnisstjórn um aðgerðir vegna fjórðu iðnbyltingarinnar af forsætisráðherra og skipuð í Útflutningsráð af utanríkisráðherra. Hún hefur átt sæti í stjórnum ýmissa fyrirtækja á sínu starfssviði og situr nú í háskólaráði Háskóla Reykjavíkur. Stefanía hefur á undanförnum sex árum stýrt átaki á vegum ríkisstjórnarinnar í að efla máltækni, Almannarómi, sem hefur það að markmiði að vernda íslenskuna á stafrænni öld. Stefanía var kjörin varamaður í bankaráð í apríl 2024.

Sigurður Jón Björnsson

Varamaður

Sigurður Jón Björnsson er fæddur árið 1966. Hann lauk cand.oecon prófi af reikningshalds- og fjármálasviði frá Háskóla Íslands 1994 og prófi í verðbréfaviðskiptum 2009. Að námi loknu starfaði hann sem aðstoðarsölustjóri Íslensk Ameríska 1995-1997. Þá gegndi hann störfum forstöðumanns fjármálasviðs, staðgengils framkvæmdastjóra og sérfræðings á sviði fjárfestinga hjá Framtaki fjárfestingarbanka 1997- 2003. Hann starfaði sem forstöðumaður hagdeildar Air Atlanta 2003-2006 og var fjármálastjóri og staðgengill framkvæmdastjóra fjármálasviðs Norðuráls 2006-2007. Hann var ráðgjafi í fyrirtækjaráðgjöf hjá Capacent árið 2007 og varð síðar eigandi hjá verðbréfafyrirtækinu Capacent fjárfestingarráðgjöf, síðar Centra fyrirtækjaráðgjöf. Samhliða ráðgjafarstörfum sinnti Sigurður hlutverki regluvarðar verðbréfafyrirtækisins. Sigurður gegndi starfi framkvæmdastjóra fjármála hjá Íbúðalánasjóði á árunum 2011- 2017 og bar hann þar m.a. ábyrgð á áhættustýringu sjóðsins 2011-2015. Sigurður var stjórnarformaður tæknifyrirtækisins Betware á Íslandi frá stofnun félagsins 1998 allt til sölu þess til erlendra aðila 2014. Hann hefur einnig átt sæti í stjórnum félaganna Stoða, Íslandsflugs, Landsafls, IMSI og SPC Holding. Sigurður var kjörinn varamaður í bankaráð í apríl 2019.

Nefndarmenn utan bankaráðs

Hjörleifur Pálsson

Nefndarmaður í endurskoðunarnefnd bankaráðs

Hjörleifur Pálsson er fæddur árið 1963. Hjörleifur lauk cand.oecon. prófi frá Háskóla Íslands árið 1988. Hann hlaut löggildingu til endurskoðunarstarfa 1989 og starfaði sem endurskoðandi til 2001. Hann var framkvæmdastjóri fjármálasviðs Össurar hf. frá 2001 til 2013. Frá 2013 hefur Hjörleifur setið í stjórnum margskonar fyrirtækja og fjárfest í og stutt við nýsköpun. Í dag er hann stjórnarmaður, formaður endurskoðunarnefndar og í starfskjaranefnd alþjóðlega lyfjafyrirtækisins Lotus Pharmaceuticals & Co., Ltd. sem skráð er á hlutabréfamarkað í Taívan, í stjórn Ankra ehf. (Feel Iceland), í stjórn og formaður starfskjaranefndar Festi hf., í stjórn Brunns vaxtarsjóðs slhf. og í stjórn Brandr Global ehf. Hjörleifur er formaður tilnefningarnefndar Icelandair Group hf. og formaður endurskoðunarnefndar Hörpu tónlistarhúss ohf. Hjörleifur var um árabil formaður bæði stjórnar og háskólaráðs Háskólans í Reykjavík ehf. og er meðal annars fyrrverandi stjórnarformaður Sýnar hf. Hann tók sæti í endurskoðunarnefnd bankaráðs í maí 2019.

Undirnefndir bankaráðs

Bankaráð hefur skipað þrjár undirnefndir sem undirbúa umfjöllun bankaráðs á tilteknum starfssviðum og annast nánari athugun á málum sem þeim tengjast.

Skipan undirnefnda bankaráðs Áhættunefnd Endurskoðunarnefnd Starfskjaranefnd
     
Jón Þ. Sigurgeirsson, formaður bankaráðs Formaður
Eva Halldórsdóttir, varaformaður bankaráðs Nefndarmaður Nefndarmaður
Hjörleifur Pálsson   Nefndarmaður  
Kristján Þ. Davíðsson   Nefndarmaður  
Rebekka Jóelsdóttir   Nefndarmaður Nefndarmaður
Steinunn Þorsteinsdóttir Formaður    
Þór Hauksson Nefndarmaður    
Örn Guðmundsson   Formaður  
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur