Fréttir

22. júní 2016 09:57

Landsbankinn veitir fimm milljónir í umhverfisstyrki

Umhverfisstyrkir Landsbankans voru afhentir 21. júní. Á myndinni eru styrkþegar eða fulltrúar þeirra ásamt dr. Guðrúnu Pétursdóttur, formanni dómnefndar, lengst t.v. og Steinþóri Pálssyni bankastjóra Landsbankans.

Sautján verkefni hlutu umhverfisstyrki úr Samfélagssjóði Landsbankans, 21. júní sl. Þrjú verkefni fengu 500 þúsund krónur hvert og fjórtán verkefni fengu 250 þúsund krónur, samtals fimm milljónir króna. Þetta var í sjötta sinn sem umhverfisstyrkir voru veittir úr Samfélagssjóði Landsbankans og að þessu sinni bárust tæplega 100 umsóknir. Alls hafa um 100 verkefni hlotið umhverfisstyrki á síðustu sex árum, samtals 30 milljónir króna.

Umhverfisstyrkjum Landsbankans er ætlað að styðja við verkefni á sviði umhverfismála og náttúruverndar. Dómnefnd leitast við að velja metnaðarfull verkefni sem hafa skýra þýðingu fyrir íslenska náttúru og vistkerfi landsins. Styrkirnir byggja á stefnu Landsbankans um samfélagsábyrgð sem m.a. kveður á um að bankinn flétti umhverfismálum, efnahagsmálum og samfélagsmálum saman við rekstur sinn.

Í dómnefndinni sátu dr. Brynhildur Davíðsdóttir, dósent í umhverfis- og auðlindafræðum við Háskóla Íslands, Finnur Sveinsson, sérfræðingur í samfélagsábyrgð og dr. Guðrún Pétursdóttir, forstöðumaður Stofnunar Sæmundar fróða um sjálfbæra þróun við Háskóla Íslands og var hún formaður nefndarinnar.

Umhverfisstyrkir úr Samfélagssjóði Landsbankans árið 2016:

500.000 kr. styrkir

 • Birgitta Steingrímsdóttir og Heiðdís Inga Hilmarsdóttir Útgáfa fræðslu- og fjölskylduspilsins Fuglafárs sem gerir fólki kleift að kynnast íslenskum varpfuglum í gegnum leik. Spilið hentar öllum, hvort sem þeir eru áhugamenn um fugla eður ei því leikmenn læra að þekkja nöfn, útlit og ýmsar skemmtilegar staðreyndir um fuglana.
 • Dagbjört Agnarsdóttir  og Guðrún Tryggvadóttir – Endurhleðsla á gömlu fjárréttinni í Ólafsvík sem mun fá nýtt hlutverk sem áningarstaður heimamanna og ferðamanna. Réttin er í skógrækt Ólafsvíkur og er steinsnar frá tjaldsvæðinu. Gömlu fjárréttirnar hafa mikið minjagildi fyrir landbúnaðarsögu svæðisins, auk þess að hafa ótvírætt sögu- og menningarlegt gildi.
 • Jón S. Ólafsson – Gerð fræðslurits um vatnalíf á Íslandi. Markmið útgáfunnar er að veita almenningi innsýn í undraveröld ferskvatns, efla þekkingu á lífríki þess og stuðla að betri umgengni og aukinni virðingu fyrir ferskvatnsauðlindinni. Með útgáfunni verður bætt úr brýnni þörf á aðgengilegu riti um vatnalíf.

250.000 kr. styrkir

 • Björgunarsveit Hafnarfjarðar – Bæta aðgengi björgunarsveita og viðbragðsaðila að svæðinu fyrir ofan Kaldársel og við Helgafell. Vatnsverndarsvæðið var girt af fyrir skömmu og þar með versnaði aðgengi að svæðinu. Ætlunin er setja hlið á girðingu þar sem snjó festir síst.
 • Brimnesskógar - Félagið Brimnesskógar hefur um árabil unnið í sjálfboðavinnu að endurheimt hina fornu Brimnesskóga í Skagafirði. Styrkurinn er veittur til að hægt sé að ljúka gróðursetningu.
 • Brosbræður - Styrkurinn er veittur til að sýna myndina Maðurinn sem minnkaði vistsporið sitt í framhaldsskólum á höfuðborgarsvæðinu. Myndin fjallar um hvernig Vesturlandabúar geta minnkað vistspor sitt og jafnvel lifað innan sjálfbærnimarka.
 • Brúarsmiðjan – Rannsókn á gömlum þjóðleiðum um Mosfellsheiði og ritun leiðarlýsinga sem munu koma út á bók í samstarfi við Ferðafélag Íslands vorið 2017. Markmiðið með bókinni er að opna augu almennings fyrir þeirri merku sögu sem tengist gömlu þjóðleiðunum.
 • Ferðafélag Mýrdælinga – Endurbygging Deildarárskóla sem stendur við Barð í Höfðabrekkuafrétti en í skólahúsinu verður aðstaða fyrir göngu- og ferðafólk. Svæðið í kringum Þakgil er orðið vinsælt meðal ferðamanna og þá sérstaklega göngufólks og því mikil þörf fyrir hús af þessu tagi.
 • Langanesbyggð – Styrkurinn er veittur til að hægt sé að hreinsa lausarusl og járn við herstöðina sem stóð á Heiðarfjalli á Langanesi. Þar stendur einn braggi og fleiri minjar eru þar um veru hersins. Heiðarfjall er mjög vinsælli viðkomustaður ferðamanna á svæðinu en þaðan er frábært útsýni til allra átta.
 • Kvenfélag Grímsneshrepps – Styrkurinn er veittur til verkefnisins Ekki kaupa rusl! sem er ætlað að auka vitund um hvað hægt er að gera til að draga úr rusli sem fellur til á heimilum, vinnustöðum og stofnunum í Grímsnes- og Grafningshreppi.
 • Ómar Ragnarsson – Styrkur til að setja enskan texta á heimildarmyndina Akstur í óbyggðum sem fjallar um hvernig aka má um óbyggðir án þess að valda tjóni á viðkvæmu landi og þeim farartækjum sem ferðamenn nota.
 • Samtökin SEEDS – Styrkurinn er veittur til hreinsunar á strandlengjunni á austanverðum Vestfjörðum í samstarfi við sveitarfélög og landeigendur. Hreinsunarstarf er þegar hafið í Reykjarfirði en ætlunin er að hreinsa eins mikið svæði og mögulegt er við Steingrímsfjörð og á Drangsnes. Einnig munu samtökin sjá til þess að sorpinu verði fargað á viðeigandi hátt.
 • Sigrún Guðmundsdóttir – Verndun Kirkjubólsdals við Dýrafjörð. Dalurinn er mjög vinsæll áningastaður innlendra og erlendra ferðamanna sem fara þar um bæði akandi, hjólandi og gangandi. Vegslóði um dalinn var gerður fyrir allmörgum árum en ástand hans er slæmt og fólk ekur ótæpilega utan hans með tilheyrandi landspjöllum.
 • Skógræktarfélag Eyfirðinga – Gerð útsýnispalls og göngustígs við Garðsárreit í Eyjafjarðarsveit, nánar tiltekið í minni Garðsárdals þar sem Þverá ytri rennur í þröngu hamragili. Töluverður átroðningur hefur orðið á svæðinu og því nauðsynlegt að bæta aðgengi til að varna slysum og forðast landspjöll.
 • Skógræktarfélag Vestmannaeyja – Viðhald á stígum í Hraunskógi í Vestmannaeyjum. Hraunskógur er landgræðsluskógur og er aðgengi að honum lykilatriði til þess að hægt sé að sinna trjágróðri á svæðinu og almenningur geti notið skógarins. Stígarnir eru slitnir og viðhald á þeim tímabært.
 • Stígavinir – Samtökin Stígavinir voru stofnuð í nóvember 2015 af áhugafólki um skipulagningu, uppbyggingu og viðhald göngustíga. Vegna aukins fjölda ferðamanna er víða þörf á að bæta ferðaleiðir. Samtökin vilja stuðla að sjálbærri uppbyggingu stíga og að þeir verði í takt við náttúruna á hverjum stað.
 • Yrkja – sjóður æskunnar til ræktunar landsins – Kaup á trjáplöntum sem úthlutað verður til grunnskólabarna um allt land til gróðursetningar. Markmið verkefnisins er að kynna mikilvægi skógræktar og ræktunar almennt fyrir unga fólkinu í landinu og ala þannig upp ræktendur framtíðarinnar. Árlega hafa hátt í átta þúsund nemendur gróðursett á milli 20.000 - 30.000 trjáplöntur um land allt.

20. október 2020 08:00

Hagspá Landsbankans 2020-2023: Veruleg viðspyrna næsta haust

Í hagspá Hagfræðideildar Landsbankans fyrir árin 2020-2023 er gert ráð fyrir að landsframleiðslan dragist saman um 8,5% á árinu 2020. Samdráttarskeiðið verður tiltölulega stutt en þrátt fyrir verulega viðspyrnu næsta haust verður efnahagsbatinn hægur fyrst um sinn.


Nánar

19. október 2020 13:36

HEIMA fékk Gulleggið í ár

Viðskiptahugmyndin Heima sigraði í Gullegginu 2020, frumkvöðlakeppni Icelandic Startups. Heima er smáforrit sem skiptir húsverkum og huglægu byrðinni af heimilishaldi jafnt á milli sambýlinga.


Nánar

19. október 2020 07:59

Vikubyrjun 19. október 2020

Greiðslukortavelta Íslendinga í verslunum hér á landi jókst um 7% milli ára í september, sé miðað við fast verðlag. Síðan í maí, þegar fyrsta bylgja faraldursins var að líða undir lok, hefur mælst stöðug aukning á kortaveltu Íslendinga innanlands samanborið við sama mánuð í fyrra.


Nánar

Skráðu þig á póstlista