Fréttir

05. júlí 2013 11:35

Fimmtán milljónum króna úthlutað í samfélagsstyrki

Styrkþegar samfélagsstyrkja Landsbankans 2013
Samfélagsstyrkir Landsbankans voru afhentir í útibúi bankans við Austurstræti 4. júlí. Á myndinni eru fulltrúar styrkþega ásamt þeim Andra Snæ Magnasyni, Guðrúnu Agnarsdóttur og Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur sem skipuðu dómnefnd og Jensínu Kristínu Böðvarsdóttur framkvæmdastjóra Þróunar hjá Landsbankanum.

Landsbankinn veitir að þessu sinni fimmtán milljónir króna í samfélagsstyrki úr Samfélagssjóði bankans. Veittir eru þrjátíu og fjórir styrkir, þrír að upphæð 1 milljón króna hver, sautján að fjárhæð 500 þúsund krónur og fjórtán að fjárhæð 250 þúsund krónur. Yfir 450 umsóknir bárust sjóðnum að þessu sinni.

Samfélagsstyrkjum er einkum ætlað að styðja við þá sem sinna mannúðar- og líknarmálum, menntamálum, rannsóknum og vísindum, verkefnum á sviðum menningar og lista, forvarnar- og æskulýðsstarfi og sértækri útgáfustarfsemi.

Úr Samfélagssjóði Landsbankans eru veittar að lágmarki fjórar tegundir styrkja á hverju ári: samfélagsstyrkir, námsstyrkir, nýsköpunarstyrkir og umhverfisstyrkir en afreksstyrkir eru veittir annað hvert ár.

Dómnefnd um úthlutun samfélagsstyrkja var að þessu sinni skipuð þeim Andra Snæ Magnasyni rithöfundi, Árelíu Eydísi Guðmundsdóttur dósent við Háskóla Íslands og Guðrúnu Agnarsdóttur lækni, en hún var jafnframt formaður nefndarinnar.

Samfélagsstyrkir Landsbankans eru mikilvægur þáttur í stuðningi bankans við samfélagið. Með þeim leggur Landsbankinn einstaklingum, hópum og félagssamtökum lið við verkefni sem jafnan er sinnt af einlægni og ómetanlegum áhuga sem vert er að styðja við.

1.000.000 styrkir

Bókmenntahátíð í Reykjavík 
til að halda Bókmenntahátíð í Reykjavík í september 2013.

Ás styrktarfélag
til að bjóða upp á sumardvöl fyrir fólk með þroskahömlun sem hefur þörf fyrir mikla umönnun og aðstoð.

Þorsteinn Jónsson
til að gefa út 5. bindi ritverksins Reykvíkingar – Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg.

500.000 styrkir

Anna Dröfn Ágústsdóttir
til að gefa út bókina Reykjavík eins og hún hefði getað orðið.

Anna Ingólfsdóttir
til að hanna fræðslu- og stuðningsvef fyrir fólk sem hefur misst maka.

Fornleifastofnun Íslands
til að fullvinna og gefa út niðurstöður umfangsmikilla rannsókna á fornum garðlögum í S-Þingeyjarsýslu og víðar.

Hjartaheill
til áframhaldandi reksturs Hjartaheilla og standa þannig vörð um hagsmuni hjartasjúklinga, stuðla að fræðslu, forvörnum, styðja við endurhæfingarstarfsemi og styrkja tækjakaup.

Kvenfélagið Garpur/ Pörupiltar
vegna leiksýningarinnar Blómin og býflugurnar sem er uppistand Pörupilta um kynlíf, kynheilbrigði og samskipti kynjanna.

Björgunarsveitin Ísólfur
til að kaupa nýjan snjóbíl fyrir Björgunarsveitina Ísólf á Seyðisfirði því nauðsynlegt er að hafa öflugt björgunartæki á svæðinu.

Hið íslenska bókmenntafélag
til að gefa út bókina Stíll og bragur: Um form og formgerðir íslenskra texta, eftir Kristján Árnason.

Þróunarsamvinnustofnun Íslands og Frjáls félagasamtök
vegna kynningarátaks um gildi þróunarsamvinnu þar sem áhersla verður á gildi menntunar og fræðslu í þróunarstarfi, bæði hér á landi og erlendis.

Regnbogabörn
til að að koma á laggirnar forvarnir.is, heimasíðu með fyrirlestrum um forvarnir.

Kvennaráðgjöfin
til að bjóða áfram upp á ókeypis lögfræði- og félagsráðgjöf fyrir alla þá sem ekki hafa ráð á slíkri sérfræðiþjónustu.

Soffía Fransiska Rafnsdóttir Hede
til að bjóða upp á músíkmeðferð fyrir félagslega einangruð börn og efla þannig félagsfærni, samvinnu og samskipti þeirra.

Vernd fangahjálp
til áframhaldandi stuðnings við fanga sem lokið hafa afplánun við að fóta sig á nýjan leik í samfélaginu á breyttum forsendum sem góðir og gegnir þjóðfélagsþegnar.

SAMAN hópurinn
til framleiðslu myndefnis sem beinir athygli foreldra að ábyrgð þeirra á uppeldi barna sinna og hvetja til jákvæðra samskipta innan fjölskyldunnar.

Helga Olsen og Unnur Sólmundsdóttir
til að gera námsefni fyrir mið- og unglingastig grunnskóla við fræðslumyndaflokkinn „Með okkar augum“ sem sýndir voru í Ríkissjónvarpinu og útgefnir af Þroskahjálp.

Vímulaus æska, foreldrahús
til að styðja við foreldrasímann sem er ætlaður foreldrum og aðstandendum barna og ungmenna sem lenda í vanda vegna vímuefnaneyslu og annarra erfiðleika.

Þjóðlagahátíðin á Siglufirði
til að halda Þjóðlagahátíð á Siglufirði árið 2013, en það verður í fjórtánda sinn sem hátíðin er haldin.

Bjarki Sveinbjörnsson
til að heimsækja elliheimili á Íslandi og taka vídeóviðtöl við íbúa þar um tónlistar- og menningarlífið á þeim svæðum þar sem það ólst upp og starfaði.

250.000 styrkir

Samhjálp
til að styðja við rekstur Kaffistofu Samhjálpar á 40 ára afmælisárinu.

Bára Baldursdóttir
til að vinna að verkefninu Útverðir þjóðernisins, sagnfræðirannsókn á tveimur skjalasöfnum sem urðu til í síðari heimsstyrjöld og fræðimenn hafa nýverið fengið aðgang að á Þjóðskjalasafni Íslands.

Alþjóðlega tónlistarakademían í Hörpu 
til að halda sumarnámskeið Alþjóðlegu tónlistarakademíunnar í Hörpu 2013 fyrir nemendur á fiðlu, víólu og selló á framhaldsstigi.

Regína Sóley, Sandra, Dana Rún og Hafdís Björk 
til að vinna að rannsókn þar sem metið verður hvernig aukin fræðsla í skólanum og hvatning heima fyrir getur haft jákvæð áhrif á munnhirðu 12 ára barna.

Snorri Þorsteinsson  
til vinna að verkefni sem byggir á því að færa upplýsingar um ákveðin snefilefni í heysýnum inn í landupplýsingakerfi og bera saman við jarðvegsþætti. 

Sigurður Friðleifsson 
til að vinna gagnvirkt netfræðsluforrit sem er einskonar netúgáfa af Víga-Glúmssögu, ein af minna þekktum Íslendingasögunum. 

Skákakademía Reykjavíkur 
til að halda uppi skákstarfi í VIN, sem er athvarf fyrir fólk með geðraskanir. Verkefnið stuðlar að félagsfærni og virkni einstaklinga sem glíma við geðraskanir. 

Heimili kvikmyndanna 
til að styðja við alþjóðlega kvikmyndahátíð barna sem haldin var í maí 2013.

Bandalag kvenna í Reykjavík 
til að hvetja og styðja við bakið á konum sem vilja afla sér aukinnar menntunar en eiga ekki kost á námslánum. Einkum eru þetta ungar, einstæðar konur með börn. 

Sléttunga 
til að gefa út þriggja binda ritverk um Melrakkasléttu og Raufarhöfn. Svæðið á sér langa og merkilega sögu sem hvergi hefur verið skráð. 

Rauðasandur Festival 
til að halda tónlistarhátíð í náttúruperlunni Rauðasandi á Vestfjörðum. Tilgangur hátíðarinnar er bæði að skemmta gestum og að auka hróður þessa fallega landsvæðis.

Fræðslufélag fagfólks um kannabisneyslu 
til að efla fræðslu og styrkja forvarnir gegn kannabisneyslu íslenskra ungmenna með stofnun heimasíðunnar kannabis.is. 

Jóhann Leó Linduson Birgisson 
til að vinna vefsíðu sem lýsir skynjun og vandamálum einhverfra einstaklinga. Með þessari síðu og fræðslu er vonast til þess að fordómar gagnvart einhverfum minnki.

Vináttufélag Íslendinga og Baska 
til að gera skipulagsáætlun og undirbúa málþing og sýningu á Vestfjörðum tengda því að árið 2015 verða 400 ár liðin frá Spánverjavígunum. 

Landsbankinn óskar styrkhöfum til hamingju með styrkina og velfarnaðar í framtíðinni.

04. ágúst 2020 09:15

Vikubyrjun 4. ágúst 2020

Hagstofan birti á dögunum bráðabirgðatölur um flutninga fólks til og frá landinu á öðrum ársfjórðungi og er greinilegt að útbreiðsla Covid-19-faraldursins hefur þar haft áhrif. Mun færri íslenskir ríkisborgarar fluttu af landi brott og að sama skapi fluttu mun færri erlendir ríkisborgarar til landsins en oft áður á þessum tíma árs.


Nánar

30. júlí 2020 15:59

Uppgjör Landsbankans fyrir fyrri helming ársins 2020

Afkoma Landsbankans var neikvæð um 3,3 milljarða króna eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2020 samanborið við 11,1 milljarðs króna hagnað á sama tímabili árið 2019. Virðisrýrnun útlána nam 13,4 milljörðum króna á tímabilinu sem jafngildir um 1,1% af útlánasafni bankans, samanborið við virðisrýrnun upp á 2,4 milljarða króna á sama tímabili í fyrra.


Nánar

30. júlí 2020 10:42

Hagsjá: Aukin sala nýbygginga

Fleiri nýjar íbúðir seldust á öðrum ársfjórðungi í ár samanborið við sama tíma í fyrra. Mikið hefur verið byggt á síðustu árum og sums staðar hefur verð lækkað.


Nánar

Skráðu þig á póstlista