Bar­átt­an gegn lofts­lags­vand­an­um krefst mik­ils fjár­magns

Hlutverk fjármálageirans er og verður mjög stórt í öllum þeim aðgerðum sem nauðsynlegar eru til þess að ná tökum á loftslagsvandanum. Markmið íslenskra stjórnvalda er að ná kolefnishlutleysi fyrir árið 2040. Fjárfestingaþörfin er gífurleg og til þess að uppfylla þá þörf þarf að beina miklu fjármagni á rétta staði og í rétt verkefni.
24. júní 2020

Kristalina Georgieva, framkvæmdastjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sagði í ræðu í vetur að engin af þeim efnahagslegu áskorunum sem heimurinn standi frammi fyrir á næstu 20 árum muni skipta neinu máli ef við náum ekki að taka á loftslagsbreytingum strax. Síðan þá hefur Covid-19 faraldurinn og afleiðingar hans sett loftslagsmálin dálítið í skuggann, en vandamálin vegna mikils útblásturs og tengdra veðurfarsbreytinga hafa ekki horfið og markmiðin eru enn þau sömu. Þá má einnig segja að stöðvun starfsemi með minni útblæstri hafi sýnt fram á hvernig heimurinn gæti litið út án taumlausrar mengunar, eins og sagan um hvernig Indverjar fóru aftur að sjá til Himalajafjalla sýnir.

Efnahagslegan kostnað má alltaf mæla, en mannlegi kostnaðurinn sem við höfum þegar séð af völdum loftslagshamfara er ómælanlegur. Sem dæmi má nefna að tjón smáríkisins Dóminíku af völdum fellibylsins Maríu í september 2017 nam tvöfaldri árlegri landsframleiðslu eyjarinnar og tjón Púertó Ríkó af sama fellibyl var um 60% af landsframleiðslu. Til að setja tjónið í íslenskt samhengi var landsframleiðsla á Íslandi um 2.800 milljarðar króna árið 2018.

Áhrif loftslagshamfaranna bitna yfirleitt verst á þeim sem minnst mega sín. Alþjóðabankinn telur að fólki sem býr við verulega fátækt muni fjölga um 100 milljónir fram til ársins 2030 ef okkur tekst ekki að sporna gegn vandanum.

Mat á kostnaði og áhættu

Hægt er að meta árlegt tjón af hamförum sem rekja má til loftlagsbreytinga víðs vegar um heiminn. Stærstan hluta kostnaðarins er á hinn bóginn ekki hægt að mæla með hefðbundnum hagfræðigreiningum. Efnahagsleg áhrif loftslagsbreytinga munu vafalaust aukast verulega í náinni framtíð og umfang tjónsins mun örugglega verða mjög háð því til hvaða aðgerða verður gripið á næstu árum.

Það er ekki auðvelt að meta fjárhagslega áhættu vegna loftlagsbreytinga, en flestar rannsóknir benda til þess að bæði efnislegur og fjárhagslegur kostnaður sé mikill. Áhætta kemur ekki alltaf fram strax og áhætta sem birtist eftir á vegna hamfara af einhverju tagi getur orðið veruleg. Einnig felst áhætta í að verðmæti eigna í sumum atvinnugreinum endurspeglar ekki þá áhættu sem viðkomandi greinar búa við, sé tekið tillit til útblásturs og mengunar. Þessu til viðbótar hefur kerfisleg áhætta aukist vegna þess að áföll á einum stað hafa meiri áhrif víða um heiminn en áður var. Ástæða áfalla er mjög víða af sömu rótum.

Fjárhagslegt tjón

Fjárhagsleg tjón af völdum náttúruhamfara eiga sér ýmsar hliðar. Tjón sem tryggingarfélög þurftu að bæta á heimsvísu á árinu 2018 var t.d. um 80 milljarðar Bandaríkjadalir (u.þ.b. 10 þúsund milljarðar króna). Til að setja stærðirnar í samhengi nam tjónið 2018 tvöföldu árlegu meðaltjóni á hverju ári síðustu 30 ár mælt á raunvirði.

Tjón sem tryggingarfélög bæta eru aðeins lítill hluti sögunnar. Tryggingar eru víðtækastar í þróuðum löndum. Á meðal fátækari þjóða eru tryggingar mun sjaldgæfari og tjón lendir þar meira á almenningi, fyrirtækjum og stjórnvöldum. Á árinu 2017 nam tjón bætt af tryggingrafélögum um 130 milljörðum Bandaríkjadala, en þá var talið að tjón sem ekki var tryggt hafi numið um 200 milljörðum dala. Í sumum löndum sem augljóslega munu verða fyrir hvað mestu tjóni vegna loftlagshamfara (t.d. í Bangladesh, Filippseyjum og Egyptalandi) er talið að tryggingar nái einungis til eins prósents af eignum sem eru í húfi.

Fyrsta gjaldþrot vegna loftslagsbreytinga

Því er stundum haldið fram að lítið sé hægt að gera við langtímaáhrifum loftslagsbreytinga, þetta sé bara að gerast og afleiðingarnar komi fram hægt og rólega. Í sumum tilvikum koma afleiðingarnar reyndar hratt fram eins og við sjáum reglulega í hamfarafréttum. Stundum koma líka upp einstök merkileg dæmi eins og fyrsta gjaldþrot skráðs fyrirtækis vegna loftslagsbreytinga. Orkufyrirtækið Pacific Gas & Electric í Kaliforníu hefur verið í gjaldþrotameðferð í kjölfar mikilla skógarelda á árunum 2017 og 2018. Forstjóri fyrirtækisins lýsti því yfir að helstu ástæður gjaldþrotsins væru loftslagsbreytingar. Fram hefur komið að fyrirtækið hefði ekki verið nægilega vel undirbúið til þess að verjast auknum skógareldum og þannig ekki metið áhættu sína nægilega vel. Sú staða hvatti til mikilla málsókna á hendur fyrirtækinu vegna tjóna. Kröfurnar urðu fyrirtækinu ofviða og því fór sem fór. Nú nýlega lýsti fyrirtækið sekt sinni á dauða 84 einstaklinga í skógareldum í Kaliforníu 2018 og samþykkti að greiða bætur upp á 3,5 milljónir bandaríkjadala til fjölskyldna hinna látnu.

Hægt að leysa – en ekki einfalt

Það er ljóst að það er hægt að ná markmiðum um að ná hlutleysi útblásturs á árinu 2050. Sú tækni sem er til í dag gerir þau markmið raunhæf, en lausnirnar eru auðvitað mjög dýrar og flóknar í framkvæmd. Við vitum að það er mikið ójafnvægi á milli þjóða hvað mengun og útblástur varðar. Þannig valda þrjú ríki, Bandaríkin, Kína og Indland, um helmingi alls útblásturs í heiminum í dag. Meðal þeirra er líka að finna um 80% ódýrari mótvægisaðgerða sem heimurinn hefur yfir að ráða. Byrðin fyrir þessar þrjár þjóðir og aðrar sem eru hvað háðastar jarðefnaeldsneyti er örugglega of mikil til þess að markmiðin geti náðst með raunhæfum hætti. Við það reynir á stjórnmálamennina sem þurfa að finna nothæfar lausnir. Reyndar má benda á að Bandaríkjamenn hafa dregið sig út úr Parísarsamkomulaginu og að vilji þeirra til þátttöku í slíkum aðgerðum er óviss.

Vísindin hafa sýnt fram á að áhrif loftslagsbreytinga séu orðin alvarleg og hafi þar með áhrif á framtíðina. Náttúruhamfarir af ýmsu tagi eru orðnar mun algengari og umfangsmeiri en áður var.

Samþykkt heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna á árinu 2015 og undirritun Parísarsamkomulagsins ári síðar hafa átt sinn þátt í því að þjóðir heims eru óðum að setja sér markmið og fara út í aðgerðir til þess að fást við þætti eins og loftslagsmál, fátækt og misrétti; allt undir hatti sjálfbærni. Með sjálfbærri þróun er átt við þróun sem uppfyllir þarfir nútímans án þess að skerða möguleika komandi kynslóða til þess að uppfylla sínar þarfir með sama hætti. Þangað vilja flestir stefna.

Í bók sinni Um tímann og vatnið fjallar Andri Snær Magnason um loftslagsvandann. Þar er honum tíðrætt um tvö stór afrek sem unnin voru á síðustu öld. Þetta voru annars vegar kjarnorkusprengjan og hins vegar ferðir til tunglsins. Í báðum tilvikum var ákveðið að setja verkefnin af stað og öllu var tjaldað til. Andri Snær telur að sama gæti gilt um loftslagsvandann, að hann sé ekki óyfirstíganlegur og það sem þurfi sé almennur vilji til þess að grípa til aðgerða til þess að sigrast á honum.

Á næstunni munu birtast hér á Umræðunni nokkrar greinar um hlutverk og mikilvægi fjármálageirans í þeirri mikilvægu vegferð sem allur heimurinn stendur frammi fyrir.

Þú gætir einnig haft áhuga á
Hamborgartréð tendrað í Reykjavík
29. nóv. 2023
Hamborgartréð - saga samfélagsbreytinga og þakklætis
Saga Hamborgartrésins er hógvær, en á vissan hátt bæði breytingasaga Reykjavíkur og falleg jólasaga gjafmildi og þakklætis.
Reykjastræti
16. nóv. 2023
Af hverju heitir hraðbanki ekki tölvubanki?
Hæ! Áttu eitthvað í handraðanum? Eða þarftu kannski að skreppa á Raufarhöfn? Geturðu notað kortið þitt í tölvubankanum? Vissir þú að þetta tengist allt peningum með einhverjum hætti?
Netbanki fyrirtækja
10. nóv. 2023
Bankakerfið er að opnast
Landsbankinn kynnti á dögunum nýjung í appinu sínu sem gerir fólki kleift að millifæra af reikningum í öðrum bönkum. Þessi þjónusta er alltaf háð samþykki viðskiptavina. Landsbankinn er fyrsti bankinn á Íslandi sem býður fólki að framkvæma aðgerðir í öðrum bönkum úr sínu appi.
9. nóv. 2023
Það styttist í jólin og jólastressið – eða hvað?
Jólin eiga að vera hátíð gleði og friðar en við upplifum oft að þau snúist að miklu leyti um neyslu og jólastress. Í aðdraganda jóla hættir mörgum til að sleppa sér í neyslunni og kaupa hluti sem hvorki þau sjálf, fjölskyldu eða vini vantar í raun og veru. Viljum við breyta þessu?
Sjálfbærnidagur 2023
8. sept. 2023
Sjálfbærnidagur 2023 – upptökur
Sjálfbærnidagur Landsbankans var haldinn í Grósku 7. september 2023. Á fundinum beindum við sjónunum að því sem íslensk fyrirtæki hafa verið að gera til að auka sjálfbærni í sínum rekstri og hvernig gera megi enn betur.
Myndlistarsýning
17. ágúst 2023
Hringrás – innsýn í listasafn Landsbankans
Sýningin Hringrás er úrval verka úr listasafni Landsbankans. Á sýningunni er kannað hvernig áhrif og innblástur þróast með mismunandi miðlum og í meðförum ólíkra kynslóða listafólks. Verkin endurspegla áherslu á ákveðnar listrænar hreyfingar, abstraktlist og geómetríska abstraksjón, hlutbundna og hlutlæga list, grafíska list (bæði ætimyndir og teikningar) og súrrealisma. Hringrás veitir innsýn í fjölbreytileika og breidd listasafns Landsbankans, þvert á framsetningarmáta og samhengi. 
Ungmenni úr Hinsegin félagsmiðstöðinni
10. ágúst 2023
„Baráttan er ekki búin fyrr en …“
Hinsegin félagsmiðstöðin verður með einn stærsta vagninn í Gleðigöngunni en hann er 14 metra langur og rúmar meira en 100 krakka. Þótt vagninn verði litríkur og glæsilegur er undirtónninn samt alvarlegur.
13. júní 2023
Líffræðilegur fjölbreytileiki lykillinn að farsæld – líka í fjármálum
Fjölbreytileiki lífríkis er ein sterkasta vörn okkar gegn frekari hlýnun, fyrst og fremst vegna þess að hin ýmsu vistkerfi binda kolefni. Vinna þarf samtímis að lausn á loftslagsvandanum og verndun fjölbreytileika lífríkisins.
24. maí 2023
Er fyrrverandi að fylgjast með fjármálunum þínum?
Viðskiptavinir Landsbankans, eins og annarra fjármálafyrirtækja, hafa lengi getað veitt öðrum aðgang að fjármálunum sínum. Algengt dæmi um þetta er þegar hjón eða fólk í sambúð veitir hvort öðru aðgang að reikningum hvors annars. Þannig fá þau betri yfirsýn yfir fjármálin, geta millifært, greitt reikninga og svo framvegis.
Hildur Kristín Stefánsdóttir
11. maí 2023
Tónlist fyrir Söngvakeppnina og bankann í sömu viku
Vörumerki Landsbankans fór í fínstillingu fyrr í vor sem fól meðal annars í sér að uppfæra hljóðheim bankans. Til að leysa það verkefni fengum við til liðs við okkur pródúserinn og tónlistarkonuna Hildi Kristínu Stefánsdóttur. 
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur