Hvað þarf að hafa í huga við út­tekt sér­eign­ar­sparn­að­ar?

Stjórnvöld hafa veitt tímabundna heimild fyrir úttekt á séreignarsparnaði (einnig nefndur viðbótarlífeyrissparnaður) sem getur hentað vel fyrir hvern þann sem missir tekjur vegna Covid-19.
Foreldrar og dætur við morgunverð.
7. apríl 2020

Áður en ákvörðun er tekin um úttekt séreignarsparnaðar þarf að hafa í huga að við það minnkar inneignin sem er til útgreiðslu við lok starfsævinnar. Þá er líklegt að úttektarfjárhæðin lendi í hærra skattþrepi ef launþeginn sem tekur út sparnaðinn hefur aðrar tekjur á sama tíma. Þá getur úttektin haft áhrif á tekjutengdar afborganir námslána til Menntasjóði námsmanna.

Ein hagstæðasta sparnaðarleiðin

Að greiða í séreignarsparnað er ein hagstæðasta sparnaðarleið sem völ er á. Ef launþegi leggur fyrir 2-4% af launum í séreignarsparnað þá bætir launagreiðandi við sem nemur 2% af launum til viðbótar. Þessi 2% frá vinnuveitanda er í raun launahækkun sem launþeginn fengi annars ekki.

Á ég að taka sparnaðinn út?

Séreignarsparnaður er almennt bundinn þar til rétthafi nær 60 ára aldri. Í nýju úrræði stjórnvalda vegna Covid-19 felst að nú er tímabundið opið fyrir úttekt sparnaðarins óháð aldri, þó að hámarki 12 milljónir króna á einstakling. Úrræðinu er m.a. ætlað að létta undir með þeim sem orðið hafa fyrir tekjufalli vegna Covid-19-faraldursins.

Það er mikilvægt að hafa í huga að hjá flestum lækka ráðstöfunartekjur þegar starfsævinni lýkur. Þá getur verið gott að bæta tekjulækkunina upp með séreignarsparnaði. Sparnaðurinn getur einnig komið að góðum notum ef fólk kýs að minnka við sig vinnu eftir sextugt eða hætta alveg að vinna áður en eftirlaunaaldri er náð.

Sparnaðurinn er séreign þess sem honum safnar og erfist að fullu við fráfall rétthafans. Þá er einnig mikilvægt að hafa í huga að ekki er hægt að ganga að séreignarsparnaði ef til gjaldþrots einstaklinga kemur eins og að öðrum eignum, s.s. húsnæði, bílum og bankainnstæðum.

Tímabundin heimild til úttektar

Mikilvægt að hugsa málið vel

Það er undir hverjum og einum komið að meta hvort það borgi sig að nýta þessa tímabundnu heimild til úttektar á séreignarsparnaði. Það er að sönnu mikilvægt fyrir þá sem verða fyrir tekjumissi vegna Covid-19 að eiga kost á því að taka sparnaðinn eða hluta hans út, sérstaklega ef annar sparnaður er ekki fyrir hendi.

Þau sem ekki hafa orðið fyrir tekjumissi, en eru engu að síður að velta fyrir að sér að taka séreignarsparnaðinn út og nýta t.d. til fjárfestingar af einhverju tagi, til að greiða inn á lán eða til ýmis konar neyslu, ættu að íhuga vel hvort slík ráðstöfun sé skynsamleg í ljósi aðstæðna. Þannig er mikilvægt að spyrja nokkurra lykilspurninga áður en ákvörðun er tekin. Er hagkvæmt að taka sparnaðinn út núna? Hversu mikið er ég að skerða lífeyrinn minn til framtíðar ef ég tek allt eða hluta út núna? Hvað á ég mikið í dag og hvað mun ég eiga þegar ég verð 60 ára eða 70 ára? Mun ég borga meira í skatt ef ég tek sparnaðinn út núna? Fæ ég háan „bakreikning“ frá Menntasjóði námsmanna ef ég tek út núna?

Þegar fólk stendur frammi fyrir þessu vali, að taka út eða ekki, er mikilvægt að fara vel yfir eignastöðuna og hversu miklum séreignarsparnaði það hefur safnað. Óhreyfð inneignin heldur áfram að ávaxtast.

Hægt er að taka út að hámarki 12 milljónir króna.
Hægt er að taka út að hámarki 800.000 krónur á mánuði en einnig má velja lægri mánaðarlega greiðslu.
Engar sérstakar takmarkanir eru á ráðstöfun fjármunanna.
Úttektin er tekjuskattsskyld. Lífeyrissjóðurinn stendur skil á staðgreiðslu skattsins.
Hægt er að sækja um frá apríl 2020 til 1. janúar 2021. Úttektartímabilið er allt að 15 mánuðir frá umsókn.

Dæmi 1

Forsendur

  • Aldur: 35 ára.
  • Laun: 400.000 kr.
  • Núverandi inneign í séreignarsparnaði: 2 milljónir kr.
  • Ávöxtun: 3,5%
  • Eigið framlag í séreignarsjóð: 4%

Inneign við 60 ára aldur er 16,1 milljón kr. en er komin upp í 26,2 milljónir við 70 ára aldur ef ekkert er tekið út. Ef þessi einstaklingur heldur sömu launum út starfsævina og dreifir greiðslum í 10 ár frá 70 ára aldri getur hann verið með 258.000 kr. á mánuði fyrir skatt í 10 ár ofan á annan lífeyri.

Dæmi 2

Forsendur

  • Aldur: 50 ára.
  • Laun: 800.000 kr. 
  • Núverandi inneign í séreignarsparnaði: 12 milljónir kr. 
  • Ávöxtun: 3,5%
  • Eigið framlag í séreignarsjóð: 4%.

Inneign við 60 ára aldur er 23,8 milljónir kr. en er komin upp í 40,4 milljónir við 70 ára aldur ef ekkert er tekið út. Ef þessi einstaklingur heldur sömu launum út starfsævina og dreifir útgreiðslum í 10 ár frá 70 ára aldri getur hann verið með 398.000 kr. á mánuði fyrir skatt í 10 ár ofan á annan lífeyri.

Skattlagning við úttekt

Annað atriði sem skiptir máli við úttekt séreignarsparnaðar er skattlagning hans. Þegar við greiðum iðgjöld í séreignarsparnað og fáum mótframlag frá vinnuveitanda eru iðgjöldin dregin frá skattstofni og því er ekki greiddur af þeim tekjuskattur. Við úttekt sparnaðarins er hann hins vegar skattlagður eins og aðrar tekjur. Á Íslandi er þrepaskipt tekjuskattskerfi og eru þrepin nú þrjú eins og sjá má á meðfylgjandi töflu.

Tekjuskattsþrep Tekjubil Skatthlutfall
Þriðja þrep Af tekjum yfir 945.873 kr. 46,24%
Annað þrep Af tekjum 336.917 - 945.873 kr. 37,19%
Fyrsta þrep Af tekjum 0 – 336.916 kr. 35,04%

Við úttekt á séreignarsparnaði leggst fjárhæðin ofan á aðrar tekjur og því getur stór hluti úttektarfjárhæðarinnar lent í hærri tekjuskattsþrepum. Þetta fer auðvitað allt eftir tekjum hvers og eins. Hér á eftir eru tvö dæmi um áhrif skattheimtunnar en nánari upplýsingar má finna inn á heimasíðu Skattsins, rsk.is, og í reiknivél Skattsins fyrir staðgreiðslu einstaklinga.

Dæmi 1

Forsendur

  • Mánaðarlaun: 400.000 kr.
  • Úttekt úr séreignarsjóði: 400.000 kr. á mánuði.

Tekjuskattur á séreignarsparnað (staðgreiðsla): 37,2%.

Dæmi 2

Forsendur

  • Mánaðarlaun: 800.000 kr.
  • Úttekt úr séreignarsjóði: 800.000 kr. á mánuði.

Tekjuskattur á séreignarsparnað (staðgreiðsla): 44,6%.

Allir með 946.000 kr. í mánaðarlaun eða meira greiða 46,2% í skatt af úttektarfjárhæðinni.

Ath. Í dæmunum hér að ofan er ekki tekið tillit til iðgjalda í lífeyrissjóð. Miðað er við skattlagningu einstaklings og fulla nýtingu persónuafsláttar. Tekjuskattur getur breyst við álagningu og útsvarsprósenta er misjöfn eftir sveitarfélögum.

Kostir og gallar þess að taka séreignarsparnaðinn út núna

Úttektin hefur ekki áhrif á bætur – getur hækkað endurgreiðslur til Menntasjóðs námsmanna

Úttekt séreignarsparnaðar á grundvelli þessa úrræðis mun ekki hafa áhrif á greiðslu barnabóta eða vaxtabóta. Þá hefur úttektin ekki áhrif á aðrar bætur almannatrygginga eða bætur samkvæmt lögum um félagslega aðstoð. Eins og áður hefur verið nefnt þá er séreignarsparnaður meðhöndlaður sem skattskyldar tekjur og hefur því sem slíkur áhrif á tekjutengdu endurgreiðslu námslána. Mikilvægt er að huga að slíkum áhrifum svo koma megi í veg fyrir óvæntan bakreikning síðar.

Það liggur ekki á að taka ákvörðun

Eins og fram hefur komið nær umsóknartímabilið vegna þessa úrræðis frá apríl 2020 til 1. janúar 2021. Sá sem sækir um í desember 2020 á þannig jafn mikinn rétt á útgreiðslu eins og sá sem sækir um fyrr. Fyrir þá sem þurfa ekki nauðsynlega á sparnaðinum að halda strax liggur því ekki á að taka ákvörðun um úttekt. Það er líka rétt að hafa í huga á mikil óvissa ríkir um afleiðingar Covid-19, bæði heilsufarslega og ekki síður hvað hin efnahagslegu áhrif varðar. Við þær aðstæður er gott að eiga varasjóð.

Nánari upplýsingar um úttekt á séreignarsparnaði

Höfundur er framkvæmdastjóri Íslenska lífeyrissjóðsins

Getur hjálpað mikið ef tekjur lækka
Úttekt hefur ekki áhrif á aðrar bætur
Skerðir lífeyrisgreiðslur í framtíðinni
Möguleiki á að lenda í hærra skattþrepi
Hefur áhrif á tekjutengdar endurgreiðslur til Menntasjóðs námsmanna
Vefkökur

Með því að smella á „Leyfa allar“ samþykkir þú notkun á vefkökum til þess að auka virkni vefsins, greina vefnotkun og aðstoða við markaðssetningu.

Nánar um vefkökur