ÁHK segir hvað lánin kosta í raun og veru
Til að bera saman kjör á skammtímalánum er ekki nóg að horfa á vaxtaprósentuna eina og sér. Besti samanburðurinn fæst með því að skoða árlega hlutfallstölu kostnaðar (ÁHK) sem felur í sér allan kostnað vegna lántökunnar (s.s. lántökugjald, seðilgjald og greiðslugjald). Heildarkostnaðurinn við lánið er síðan umreiknaður í ársávöxtun (eða ársvexti).
ÁHK er í raun verðmiðinn á láni og segir til um hversu dýrt er að taka það. Mjög miklu getur munað á ólíkum lánum og það borgar sig að gefa sér tíma til að skoða hvað mismunandi lán kosta.
Yfirdráttarlán eða skammtímalán?
Einfaldasta leiðin til að taka skammtímalán hjá Landsbankanum er með því að sækja um yfirdrátt eða Aukalán. Hægt er að fá Aukalán í Landsbankaappinu með skjótum og einföldum hætti. Í appinu sérðu strax hvað þér býðst hátt lán og á hvaða kjörum.
Yfirdráttarlán til einstaklinga bera yfirleitt ekki neinn kostnað annan en vextina sem eru reiknaðir mánaðalega og því er ÁHK aðeins lítillega hærri en vextirnir sjálfir.
Skammtímalán eru yfirleitt innheimt með mánaðarlegum greiðsluseðlum. Það er á hinn bóginn undir lántakanum sjálfum komið hversu hratt hann greiðir yfirdráttinn niður. Í Landsbankaappinu og í netbanka Landsbankans er hægt að sækja um yfirdráttarheimild, hækka, lækka, framlengja og segja upp heimildinni. Helstu kostirnir við yfirdráttarlán eru að þau eru sveigjanlegri og án annars kostnaðar en vaxta. Hægt er að greiða inn á yfirdráttinn hvenær sem er. Peningur sem staldrar stutt við á innlánsreikningum fer líka til að lækka yfirdráttinn tímabundið og þar með lækkar vaxtakostnaður yfirdráttarlánsins.
Getur verið gott að sameina skammtímaskuldir í eitt lán
Það er þó vissulega dýrt að vera með yfirdrátt, sérstaklega ef lántakinn gætir ekki að því að greiða hann reglulega niður, líkt og hann hefði tekið lán með reglulegum afborgunum. Það er misjafnt hversu agaðir lántakar eru við niðurgreiðslu yfirdráttar. Ef fólk greiðir ekki reglulega inn á yfirdráttinn getur verið betra að taka annars konar lán – t.d. Aukalán – með reglulegum gjalddögum.
Það getur því verið góður kostur að taka t.d. Aukalán Landsbankans og nýta það til að greiða upp yfirdráttinn. Aukalán er skammtímalán án veðs sem endurgreiðist með jöfnum greiðslum. Boðið er upp á lán frá þremur mánuðum til fimm ára. Vextir ráðast af lánshæfi lántaka og ef lánið er tekið í Landsbankaappinu er ekkert lántökugjald, það leggst aðeins við lægsta tilkynninga- og greiðslugjald á hverjum gjalddaga, sem er nú 140 kr. Vextir geta verið hagstæðari en á yfirdrættinum og ÁHK er svipuð. Einnig getur verið gott að sameina allar skammtímaskuldir í eitt Aukalán og greiða það reglulega niður. Það má greiða inn á Aukalán eða greiða það upp hvenær sem er, án kostnaðar.
Það er að mörgu að huga og sem fyrr segir mælum við með að bera saman kjörin áður en skammtímalán er tekið.
Fræðslugreinin birtist fyrst á Umræðunni 18. september 2018 og var uppfærð 6. desember 2022.