Vikubyrjun 26. ágúst 2024

Vikan framundan
- Á morgun birtir Síminn uppgjör.
- Á miðvikudag birta Heimar, Sýn og Skagi uppgjör.
- Á fimmtudag birtir Hagstofan verðbólgutölur fyrir ágúst. Við spáum því að verðbólga standi í stað í 6,3%. Brim, Hampiðjan, Íslandshótel, Kaldalón og Síldarvinnsla birta uppgjör.
- Á föstudag birtir Hagstofan þjóðhagsreikninga, Eurostat birtir verðbólgutölur fyrir evrusvæðið og Ísfélagið birtir uppgjör.
Mynd vikunnar
Íbúðaverð hækkaði mun meira en leiguverð þegar heimsfaraldurinn reið yfir, enda hægði verulega á fólksflutningum hingað til lands og samtímis dró úr eftirspurn eftir leiguhúsnæði. Á sama tíma jókst eftirspurn eftir íbúðarhúsnæði til kaupa verulega því vextir voru lágir. Leiguverð hefur sótt í sig veðrið og hækkar nú nokkuð hraðar en íbúðaverð. Aðflutningur jókst verulega aftur eftir faraldurinn auk þess sem hátt vaxtastig þrengir að möguleikum fólks til að komast inn á húsnæðismarkað.
Það helsta frá vikunni sem leið
- Peningastefnunefnd ákvað að halda vöxtum óbreyttum í síðustu viku. Meginvextir bankans hafa því verið 9,25% í rúmt ár. Yfirlýsing nefndarinnar er að okkar mati örlítið harðorðari en í maí. Nú er talað um að það geti tekið „nokkurn tíma“ að ná fram ásættanlegri hjöðnun verðbólgu, sem kom ekki fram í síðustu yfirlýsingu. Tekið er fram, líkt og síðast, að nefndin telji núverandi aðhaldsstig hæfilegt til þess að koma verðbólgu í markmið, en nú er því bætt við að þrálát verðbólga og kraftur í innlendri eftirspurn kalli á varkárni. Við teljum þetta benda til þess að biðin eftir fyrstu vaxtalækkun gæti lengst enn frekar og að hún gæti hæglega dregist fram á næsta ár. Þetta og fleira var til umræðu í nýjum hlaðvarpsþætti Umræðunnar.
- Samhliða vaxtaákvörðuninni birti SÍ ágústhefti Peningamála með uppfærðri þjóðhags- og verðbólguspá. Bankinn gerir nú ráð fyrir meiri verðbólgu en í fyrri spá, fram á mitt næsta ár. Bankinn lækkaði hagvaxtarspána fyrir árið í ár fyrst og fremst vegna lakari horfa í ferðaþjónustu.
- Vöru- og þjónustujöfnuður var neikvæður um 22,3 milljarða króna á öðrum fjórðungi í ár sem er mun verri niðurstaða en á sama tíma í fyrra þegar hann var jákvæður um 6,4 milljarða króna. Líkt og vanalega á öðrum ársfjórðungi var afgangur af þjónustuviðskiptum en halli á vöruviðskiptum. Vöruútflutningur, vöruinnflutningur og þjónustuinnflutningur jukust á milli ára, en útflutt þjónusta dróst saman sem skýrist að mestu af því að annar fjórðungur í ár var heldur verri í ferðaþjónustunni en í fyrra.
- HMS birti vísitölu íbúðaverðs, vísitölu leiguverðs og mánaðarskýrslu um íbúðamarkaðinn. Nokkur kraftur er á íbúðamarkaði, en vísitala íbúðaverðs hækkaði um 0,8% á milli mánaða í júlí og við það hækkaði árstakturinn úr 9,1% í 11,0%. Vísitala leiguverðs hækkaði nokkuð meira, um 2,0% á milli mánaða og er árshækkun hennar nú 15,1%.
- Hagstofan birti launavísitölu fyrir júlí og fjölda lausra starfa á öðrum ársfjórðungi. Vísitala launa hækkaði um 0,2% á milli mánaða og er árshækkunin 6,3%, sem er sama árshækkun og á vísitölu neysluverðs. Kaupmáttur launa er því sá sami og í júlí í fyrra. Fjöldi lausra starfa á öðrum ársfjórðungi bendir til þess að slaki á vinnumarkaði sé að aukast, en lausum störfum fjölgaði bæði á milli ára og ársfjórðunga.
- Eimskip, Iceland Seafood, Nova og Reitir birtu uppgjör.
- Landsbankinn hélt útboð sértryggðra skuldabréfa og skiptiútboð, Lánamál ríkisins hélt útboð ríkisvíxla og ríkisbréfa og Lánasjóður sveitarfélaga birti endurskoðaða útgáfuáætlun.
Hagtölur og markaðsupplýsingar
Fyrirvari
Þessi samantekt og/eða umfjöllun er markaðsefni ætlað til upplýsingar en ekki sem grundvöllur viðskipta. Markaðsefni þetta felur hvorki í sér fjárfestingarráðgjöf né óháða fjárfestingargreiningu. Lagakröfur sem gilda um fjárfestingarráðgjöf og fjárfestingargreiningu eiga því ekki við, þ.m.t. bann við viðskiptum fyrir dreifingu.Upplýsingar um þróun gengis innlendra hlutabréfa, skuldabréfa og/eða vísitalna koma frá Nasdaq Iceland – Kauphöllinni. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á viðkomandi hlutabréf, skuldabréfaflokk eða vísitölu. Upplýsingar um þróun gengis erlendra fjármálagerninga, vísitalna og/eða sjóða koma frá aðilum sem Landsbankinn hefur metið áreiðanlega. Þróun gengis í fortíð gefur ekki vísbendingu um framtíðarþróun.
Upplýsingar um fyrri árangur sjóða Landsbréfa byggja á upplýsingum frá Landsbréfum. Á vef Landsbankans er hægt að nálgast nánari upplýsingar með því að smella á heiti viðkomandi sjóðs, þ.m.t. um árangur síðastliðinna fimm ára. Upplýsingar um fyrri árangur sjóða sýna nafnávöxtun, nema annað sé tekið fram. Ef fyrri árangur sjóða byggir á erlendum gjaldmiðli getur ávöxtun aukist eða minnkað vegna gengissveiflna. Árangur í fortíð gefur ekki áreiðanlega vísbendingu um framtíðarárangur.
Verðbréfaviðskipti fela í sér áhættu og eru lesendur hvattir til að kynna sér Áhættulýsingu vegna viðskipta með fjármálagerninga og Stefnu Landsbankans um hagsmunaárekstra sem finna má á vef Landsbankans.
Landsbankinn hefur starfsleyfi sem viðskiptabanki samkvæmt lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og sætir eftirliti Fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands (www.sedlabanki.is/fjarmalaeftirlit).









