Áfram ásókn í verðtryggð lán og fyrstu kaupendum fjölgar
Heildarupphæð útistandandi íbúðalána var 2.552 ma. kr. í lok október. Þessi upphæð skiptist þannig á milli lánveitenda að 70% er hjá bönkum, 24% hjá lífeyrissjóðum og 6% hjá lánasjóðum ríkisins. Síðasta áratuginn hefur hlutdeild viðskiptabankanna á íbúðalánamarkaði stækkað verulega. Í byrjun árs 2014 var hlutdeild viðskiptabankanna 42%, lífeyrissjóða 13% og lánasjóða ríkisins 45%.
Á síðustu árum hefur samsetning lána eftir lánsformum einnig sveiflast mjög með breyttu vaxtastigi. Óverðtryggð íbúðalán sóttu hratt í sig veðrið þegar stýrivextir voru lækkaðir í faraldrinum og lánsupphæð í óverðtryggðum íbúðalánum hjá bönkum þrefaldaðist á augabragði. Fyrst voru lánin flest á breytilegum vöxtum en með tímanum fóru lántakar að festa vextina til að tryggja sig gegn aukinni greiðslubyrði seinna meir.
Lántakar hafa nú í auknum mæli fært sig yfir í verðtryggð lán, enda hafa afborganir af óverðtryggðum lánum hækkað verulega. Langstærstur hluti hreinna nýrra íbúðalána til heimila í október var verðtryggður á breytilegum vöxtum. Upphæðin nam rúmum 20 mö.kr., ef aðeins er litið til útlána bankanna. Nettó upp- og umframgreiðsla á óverðtryggðum lánum bankanna á breytilegum vöxtum nam næstum jafnmiklu, rétt tæpum 20 mö.kr., og hefur aukist með hverjum mánuðinum þetta árið.
Nettó ný lántaka óverðtryggðra lána með fasta vexti nam 2,4 mö.kr. í október. Það skýrist sennilega af því að fastir vextir eru þó nokkuð lægri en breytilegir um þessar mundir.
Stórir hópar njóta enn góðs af því að hafa fest vextina í faraldrinum, því stuttu lágvaxtatímabili fylgdi brattasta vaxtahækkunarferli frá upphafi. Vextir þeirra sem festu þá í faraldrinum hafa sumir losnað nú þegar og fjöldi fólks sér fram á að fastvaxtatímabilinu ljúki á næstunni.
Þó nokkur bunki óverðtryggðra íbúðalána kemur til vaxtaendurskoðunar á seinni helmingi næsta árs og fyrri helmingi ársins 2025, lán fyrir samtals um 360 ma.kr. Frá því lánin voru tekin og vextir festir á 4,5-5% vöxtum, að meðaltali, hefur vaxtaumhverfið breyst verulega.
Meðalvextir óverðtryggðra lána úr 3,5% í 10,6% á tveimur og hálfu ári
Seðlabankinn reiknar vegna meðalvexti óverðtryggðra íbúðalána bankanna. Nýjustu gögn frá júlímánuði sýna að breytilegir vextir óverðtryggðra lána hafa þrefaldast frá árinu 2021, farið úr 3,5% í 10,6% í júlí á þessu ári. Fastir vextir fóru lægst í 4,2% undir lok árs 2020 og voru komnir upp í 8,7% í júlí.
Verðtryggðir vextir hafa ekki sveiflast jafnmikið. Þeir föstu náðu lágmarki í 1,6% um mitt síðasta ár og voru svo komnir upp í 3,2% í sumar. Í staðinn hafa verðbætur bæst við höfuðstól verðtryggðra lána, í takt við verðbólgu síðustu mánaða.
Fyrstu kaupendum fjölgar á ný
Þegar aðgengi að lánsfé var hert í kjölfar faraldursins, bæði með hækkandi vöxtum og lánþegaskilyrðum, fækkaði nýjum kaupendum á íbúðamarkaði og hlutfall þeirra af heildinni fór minnkandi. Á þriðja ársfjórðungi þessa árs fjölgaði þeim skyndilega aftur. Milli annars og þriðja fjórðungs þessa árs fjölgaði fyrstu kaupendum um rúm 40% og hlutfall þeirra af heild varð aftur svipað og í faraldrinum, fór úr 26% í 33%. Þessi fjölgun kann að skýrast að einhverju leyti af aukinni lánveitingu hlutdeildarlána, sem eru einmitt ætluð til að hjálpa fólki inn á íbúðamarkað. Í sumar voru skilyrði fyrir slíkum lánum útvíkkuð svo stærri hópur ætti kost á að sækja um þau. Einnig kann hávær umræða um yfirvofandi íbúðaskort að ýta undir eftirspurn og óbreytt vaxtastig eftir tvo síðustu fundi peningastefnunefndar að ýta undir bjartsýni á markaðnum.
Þessir þættir kunna einnig að eiga þátt í því að halda lífi í eftirspurnarhliðinni almennt og koma í veg fyrir nafnverðslækkanir. Á síðustu mánuðum hefur vísitala íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu hækkað, eftir að hafa lækkað í sumar, og húsnæðisverð er nú aftur einn megindrifkraftur verðbólgunnar.